Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. júní 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 79. ţáttur

Í kosningabaráttu er mikilvægt fyrir frambjóðendur að koma vel fyrir. Málefni og stefnuskrá (kosningaloforð) skipta vafalaust miklu máli svo og útlit og framkoma en þó má ætla að mikilvægast af öllu sé að frambjóðendur geti orðað hugsun sína skýrt, kunni að koma fyrir sig orði. Það er reyndar alkunna að orðfæri og líkingamál stjórnmálamanna er afar fjölbreytilegt í aðdraganda kosninga og þá geta komið fram ýmis nýmæli. Í flestum tilvikum er það svo að nýmælin eru auðskilin. Sem dæmi má nefna orðasambandið kortéri fyrir kosningar í merkingunni ‘á lokastigi kosningabaráttu; á síðustu stundu’, t.d.: Ódýrt áróðursbragð kortéri fyrir kosningar (Blaðið 20.5.06). Þetta kann að hljóma vel í eyrum margra og stuðlasetning (korter – kosningar) teystir búninginn. Öðrum kann að finnast notkun orðsins kortér lítt til fyrirmyndar en þar er á ferðinni tökuorð úr dönsku frá miðri 19. öld. Umsjónarmaður hefur reyndar vanist myndinni korter en afbrigðið kortér mun vera algengt.

Í eftirfarandi dæmum sýnist merkingin að vísu skýr en umsjónarmanni virðist ekki blasa við hver vísunin er: Aldan undir iljunum er kröftug og sterk [um meðbyr í kosningabaráttu] (Frbl. 3.5.06) og við finnum þessi skil undir fótunum á okkur (Sjónv. 26.5.06). Umsjónarmaður hefur að vísu mjög takmarkaða reynslu af sjómennsku en telur þó afar óvenjulegt að tala um öldu undir iljunum; hið sama gildir um að finna e-ð undir fótunum. — Enn sérkennilegra er þó eftirfarandi dæmi: það sér undir iljarnar á þriðja manni ‘hillir undir að þriðji maður á lista nái kjöri’ (Sjónv. 27.5.06). Orðasambandið það sér undir iljarnar á e-m eða sjá mátti undir iljarnar á e-m vísar til undanhalds eða flótta, til manns á hlaupum. Hin nýja merking styðst ekki við málvenju. 

Nafnorðið liggjand_i, -a, kk.et., mun ekki vera algengt í nútímamáli en það merkir ‘fallaskipti; það þegar sjór er kyrr á mörkum aðfalls og útfalls (eða við háflæði)’. Leiðari Fréttablaðsins bar yfirskriftina Á liggjandanum. Í meginmáli sagði: Kjördagur er rétt eins og liggjandinn, stilla milli aðfalls og útfalls eða kyrrðarstund milli kosningabaráttu og þess veruleika sem felst í niðurstöðum kosninganna (Frbl. 27.5.06). Hér þykir umsjónarmanni vel að orði komist og líkingin er fullkomlega skýr og öllum auðskilin.

Orðasambandið bera e-s staðar niður vísar til sláttar, ljár er borinn e-s staðar niður. Það er kunnugt í beinni merkingu ‘bera ljá niður, slá’ en einnig í yfirfærðri merkingu ‘byrja, hefjast handa; athuga, reyna fyrir sér’ og ‘kanna, athuga e-ð’. Síðast talda merkingin mun vera algengust í nútímamáli, t.d.: Það er sama hvar er borið niður í bókinni, alls staðar blasa við villur; það er sama hvar borið er niður í greininni, alls staðar er að finna hnökra og Við bárum niður á Kleppsspítalanum vegna tilfinningar okkar fyrir því að ... (Mbl. 2.4.06). Í nútímamáli ber einnig við að orðasambandið sé notað ópersónulega (e-n ber e-s staðar niður), t.d.: Okkur mun klárlega bera aftur niður í Bretlandi [um fjárfestingar] (Frbl. 6.4.06). Slík málnotkun styðst hvorki við hefð né málvenju og getur hún því ekki talist rétt. Auk þess er hún órökrétt. Í hliðstæðum eins og mig bar (af tilviljun) þar að og bátinn bar að landi vantar geranda, þ.e. orðmyndirnar mig og bátinn eru nokkurs konar þolendur eða þema. – Fjárfestar eru væntanlega (í flestum tilvikum) gerendur, þeir bera e-s staðar niður en þá ber ekki e-s staðar niður. Menn þurfa ekki að kunna málfræði til að skynja merkingarmuninn, málkenndin vísar hér veginn.

Umsjónarmaður hefur nokkrum sinnum vikið að ofnotkun nafnorða, því sem kallað hefur verið nafnorðahröngl (e. substantivitis). Þetta fyrirbrigði er svo algengt í fjölmiðlum að sumum kann að finnast borið í bakkafullan lækinn að tilgreina dæmi um það. En til þess eru vítin að varast þau og því skulu enn nokkur dæmi tilgreind: NN sagðist reikna með að á næsta ári yrði ekki fyrir hendi eftirspurnarþrýstingur (Mbl. 19.5.06); áfengið er að hafa [svo] áhrif á ákvarðanatöku unglingsins (Útv. 29.4.06); ... þjóðin sæti ekki við sama borð og ESB-ríkin þegar kæmi að ákvarðanatöku (Mbl. 1.4.06); verðbólgutölur fyrir maí hljóti að teljast áfall fyrir framgang verðbólgumarkmiðsins (Mbl. 12.5.06); ... veitti Fjármálaeftirlitinu betri, fleiri og meiri rannsóknarúrræði (Mbl. 21.1.06); enda voru um 300 viðskiptafærslur gerðar strax á fyrsta hálftímanum (Mbl. 21.1.06); fá Fjármálaeftirlitinu meiri og víðtækari rannsóknarúrræði (Mbl. 21.1.06) og meðferðarúrræði gegn vandamálinu (Mbl. 19.1.06).

Úr handraðanum

Í Brennu-Njáls sögu segir: Þeir báru að honum torf og grjót (Nj, 42.k.) og í Flateyjarbók stendur: þá mælti Sveinn, að þeir mundi bera að konungslykil [‘beita (vopna)valdi’], ef eigi væri upp lokið. Í þessum dæmum (of fjölmörgum öðrum) er sögnin bera að notuð persónulega, þ.e. með henni stendur frumlag sem jafnframt er gerandi. Hún er hins vegar einnig oft notuð ópersónulega en þá án geranda og í allt annarri merkingu. T.d. er skýr merkingarmunur á dæmunum mig bar (þar) að og ég bar e-ð (eld) að e-u (bálkestinum). Eftirfarandi dæmi er ótækt þar sem ekki er gætt að muninum á persónulegri og ópersónulegri notkun: Þarf ekki að koma á óvart .... þótt sjálf tilkynningin [þ.e. tilkynninguna] beri brátt að (Sjónv 15.3.06).