Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   3. júní 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 78. ţáttur

Lýsingarorðið vandur getur merkt ‘erfiður, vandasamur, sem vandi fylgir’ og nafnorðið ábót merkir ‘umbót, úrbót’. Úr eldra máli er kunnugt orðasambandið mikilla bóta er á e-ð vant og til þess má rekja lo. ábótavant (hk.et.) en það merkir ‘sem vantar bætur á’. Það er jafnan notað í orðasambandinu e-u er (mjög, nokkuð, talsvert) ábótavant ‘e-ð þarfnast (mjög, nokkurra) umbóta’, t.d.: viðhaldi flug­vélar­innar er mjög ábótavant. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að oft er rangt farið með þetta orðasamband, það er þá notað persónulega (e-ð er ábótavant), t.d.: var fullyrt að danska loftferðaeftirlitið teldi eftirlit [þ.e. eftirliti] með Heklunni ábótavant (Mbl. 26.3.06) og Dómgreind mín [þ.e. dómgreind minni] var verulega ábótavant (Blaðið 16.5.06). 

Áhrifa ensku á íslensku gætir í sívaxandi mæli á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Umsjónarmaður er kominn á þann aldur að hann telur nauðsynlegt að stunda einhvers konar líkamsrækt, þó ekki væri nema til að draga úr eða seinka líkamshrörnuninni. Hann keypti sér því aðgang að ónefndri líkamsræktarstöð hér í borg. Til að tryggja að aðeins skilvísir fái aðgang er viðskiptavinum gert að horfa öðru auga á einhvers konar skynjara. Ef allt fer með hætti hljómar hol tölvurödd: Idendification completed. Umsjónarmaður hefur ekki reynslu af því að vera meinaður aðgangur en ætli það fari ekki einnig fram á ensku, t.d.: Access denied? — Það hlýtur að vera auðvelt að ‘kenna’ slíkum dyravörðum að nota íslensku í stuttum tilsvörum af sem þessum. Það ætti að vera metnaðarmál þeirra sem reka opinbera staði á Íslandi að öll samskipti við gesti fari fram á íslensku. Ekki dugir að skjóta sér á bak við það að ekki sé unnt að þýða orðasambönd sem þessi, sbr. orð Einars Benediktssonar  (1864-1940): *Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt, sem er hugsað á jörðu.

Umsjónarmaður rakst nýlega á annað dæmi af nokkuð öðrum toga. Það snýst um skilgreiningu orðsins púkó (‘púkalegur’). Spurt var: Hvað er að vera púkó? Svarið var eftirfarandi: Það er púkó að vera of smart. Þegar lúkkið er svakalega úthugsað og allt voða mikið í stíl þá fyrst fer maður að verða púkó. Afslappað en kúl er málið ef maður vill forðast að vera púkó (Blaðið 29.4.06). – Þá vitum við það.

Stundum læða ensk áhrif sér inn í málið ef svo má að orði komast. Þetta á t.d. við um notkun samtengingarinnar meðan/á meðan. Í íslensku vísar hún jafnan til tíma í merkingunni ‘á þeim tíma sem, á sama tíma og’, t.d.: Bíddu meðan ég sæki bókina; hún las á meðan hún beið; sjúklingurinn var rólegur á meðan á aðgerðinni stóð og ekkert verður unnið á meðan verkfallið stendur. Í ensku er tilsvarandi samtenging while notuð með öðrum hætti, hún samsvarar oft samtengingunni en. Í nútímamáli er samtengingin á meðan oft notuð að+ enskum hætti, t.d.: Varnarliðið kaupir um 13 þúsund mínútulítra á ári meðan [þ.e. en] sveitarfélögin á Suðurnesjum kaupa tæpa 17 þúsund mínútulítra (Frbl. 24.3.06); Þar [í S-Ameríku] er spænska gjarna notuð sem háafbrigði á meðan [þ.e. en] önnur mál eru notuð sem lágafbrigði (LesbMbl. 11.3.06); vegna þess hve þörfin á að sinna meðferðum sé áberandi hafa sum sveitarfélög tekið það að sér á meðan [þ.e. en] önnur haldi stíft í að ... (Mbl. 14.5.06) og lágmarkslaun starfsmanna á sambýlum eru núna 113 þúsund á meðan [þ.e. en] starfsmenn á hjúkrunarheimilum fá ... (Útv.6.5.06). Vafalaust finnst sumum slíkar breytingar smálegar en umsjónarmaður kann þeim illa. Áhugasamir lesendur munu eiga hægt með að finna hliðstæð dæmi á síðum dagblaðanna.

Nafnorðið afdrif, hk.flt., merkir ‘úrslit, endalok’, t.d.: óvíst er hver afdrif málsins verða. Það getur einnig merkt ‘örlög’, t.d.: óttast er um afdrif gíslanna. Í eftirfarandi dæmi virðist hins vegar merkingin vísa til þess hvað verður um e-ð:ekki [er] vitað um afdrif þriðju kúlunnar (Mbl. 6.4.06). Slík málbeiting samræmist naumast merkingu nafnorðsins afdrif og kann því að orka tvímælis.

Nafnorðið afnot, hk.flt., merkir ‘gagn, nytjar, það að hafa not af e-u’, sbr. nafnorðin afnotagjald og afnotaréttur. Nafnorðið afnot vísar ávallt til þess er menn nota einhvern hlut. Menn geta vissulega nýtt sér hugmynd en við notum t.d. bíl eða orðabók. Eftirfarandi dæmi getur ekki talist gott og gilt: Auk þess má benda á ókeypis afnot Ríkisútvarpsins af tónleikum hljómsveitarinnar (Frbl. 31.3.06).

Úr handraðanum

Bragi Halldórsson menntaskólakennari skrifar (29.5.06): ‘Í nýliðnum borgarstjórnarkosningum í Reykjavík var framtíð Reykjavíkurflugvallar eitt helsta kosningamálið. Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér gömul flökkusaga úr kosningabaráttu um miðja síðustu öld. Mætur bankamaður í Reykjavík, Adolf Björnsson, var fenginn til að fara í framboð fyrir Sósíalistaflokkinn í sauðtryggu vígi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í Þingeyjarsýslu. Uppskeran varð þó heldur rýr fyrir flokkinn, aðeins 13 atkvæði. Ekki stafaði það samt af því að frambjóðandinn legði sig ekki allan fram að hlusta á óskir væntanlegra kjósenda sinna. Á einum kosningafundinum komu fram óskir um bættar flugsamgöngur til handa Þingeyingum. Þá heyrðist hann segja stundarhátt við samferðamann sinn sem var bílstjóri hans og aðstoðarmaður: ‘Skrifaðu flugvöll’.

Engum frambjóðanda í Reykjavík núna hugkvæmdist því miður að ganga til kosninga undir kjörorðinu: ‘Flugvöllur í göng.’ Slíkur frambjóðandi hefði áreiðanlega fengið mitt atkvæði.’

Umsjónarmaður þakkar Braga kærlega fyrir skemmtilega flökkusögu.