Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   20. maí 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 77. ţáttur

Umsjónarmaður hefur alloft vikið að því að furðu algengt er að ruglað sé saman orðatiltækjum eða föstum orðasamböndum þannig að úr verður hálfgerður óskapnaður. Skulu nú enn rakin nokkur dæmi þessa.

Orðatiltækið það er/verður handagangur í öskjunni vísar til þess er menn keppast við að ná e-u eftirsóknarverðu úr íláti (smjöröskju), yfirfærð merking tekur því til þess er mikið gengur á. Handagangur vísar því til þess er allir/margir beita höndunum til að ná e-u eftirsóknarverðu. Í nútímamáli bregður stundum fyrir orðmyndinni hamagangur, t.d.: í bruni kvenna var heldur betur hamagangur í öskjunum (Útv. 17.2.06). Ætla má að hér sé það merkingin sem veldur breyttri mynd en slík málbeiting samræmist hvorki uppruna né málvenju. 

Orðatiltækið hafa e-ð á sinni könnu merkir ‘hafa e-ð að annast, bera ábyrgð á e-u’ þar sem kanna vísar upphaflega til eyrnamarks á búfé, síðar til eignarhalds. Nútímamyndin á sér fornar rætur og hún hefur haldist óbreytt fram til þessa. Eftirfarandi dæmi er því ótækt: Samfylkingin hefur málaflokkinn undir sinni könnu (Sjónv 24.1.06).

Flestir munu kannast við orðasamböndin leita e-s (með) logandi ljósi ‘leita vandlega að e-u’ og e-ð gengur/fer ljósum logum ‘e-ð er öllum sýnilegt’. Vísan hins fyrra er augljós en hið síðara kann að tengjast draugatrú eða þess að ljósir logar eru áberandi. Merking orðasambandanna tveggja er ólík en liðirnir logandi ljós og ljósir logar eru ekki ósvipaðir og það veldur trúlega samfalli í eftirfarandi dæmi: að nauðsynlegt sé að leita ljósum logum utan flokksins að hæfu fólki (Blaðið 7.1.06). 

Ýmis orðasambönd með stofnorðinu botn vísa til endimarka eða lágmarks, t.d. komast til botns í e-u ‘skilja e-ð til fulls’; kafa til botns í e-u ‘kanna e-ð til hlítar’ og ná botninum ‘vera kominn að endimörkum slæmrar þróunar’. Þess væri því að vænta að orðasambandið sjálfstraustið er í botni vísaði til afar lítils sjálfstrausts. Umsjónarmaður hefur hins vegar rekist á allmörg dæmi þar sem merkingin er þveröfug, t.d.: sjálfstraustið var í botni ‘var mjög mikið’ (Frbl 6.11.05). Hér hefur því orðið merkingarbreyting og ætla má að henni valdi nýmælið gefa í botn ‘hraða sér sem mest’ þar sem undanskilið er bensínið ‘bensíngjöfina’.  

Bein merking orðasambandsins halda e-u á loft er ‘lyfta e-u á loft’ en yfirfærð merking er ‘láta mikið bera á e-u; auglýsa e-ð’. Í fornu máli vísar það ávallt til hreyfingar (á loft), sbr. hliðstæðuna halda e-u fram. Í nútímamáli er afbrigðið halda e-u á loftialgengt og vísar það til kyrrstöðu (á lofti), sbr. hliðstæðurnar halda e-u uppi, úti, niðri .... Elstu dæmi um lengri myndina eru frá fyrri hluta 19. aldar. Af orðatiltækinu eru kunn ýmis afbrigði, t.d. bera e-ð á loft; e-ð kemur á loft; færa e-ð á loft og hefja e-ð á loft. Umsjónarmaður hefur hins vegar hvergi rekist á afbrigðið kasta e-u á loft en lengi er von á einum eins og sagt er: áætlanir um þrjár nýjar stóriðjuframkvæmdir hafa kastað þeim væntingum á loft að gengi krónunnar verði mjög hátt í kringum 2010 (Frbl. 22.2.06). Umsjónarmanni þykir þetta dæmi lítt fagurt, trúlega stafar það af því að hann sér það ekki fyrir sér hvernig kasta megi væntingum á loft.

Eitt er að taka e-ð fyrir ‘taka til umfjöllunar’ og annað að taka fyrir e-ð ‘banna e-ð’, t.d. taka varnarmál fyrir á fundi ‘fjalla um varnarmál’ og taka fyrir sölu á áfengum bjór ‘banna sölu á áfengum bjór’. Merkingarmunurinn er skýr og þessum orðasamböndum ber að halda aðgreindum. Þess er ekki gætt í eftirfarandi dæmi: ... degi áður en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur fyrir kjarnorkuáætlun Írana [tekur kjarnorkuáætlunina fyrir] (Blaðið 28.4.06).

Úr handraðanum

Orðatiltækið vík er (á) milli vina virðist merkja í nútímamáli ‘vinir ná ekki að hittast sökum fjarlægðar, of langt er á milli vina’. Af því eru kunn ýmis afbrigði og vafalaust kannast ýmsir við annars konar notkun. Umsjónarmaður rakst á eftirfarandi dæmi: Greinilegt er hins vegar að vík er milli vina og óvíst hvort um heilt grói (Frbl 5.3.06). Nútímamerkingin er þó naumast upphafleg. Umsjónarmaður telur að upprunalega merkingu sé að finna í málshættinum Vík skyldi milli vina og fjörður í milli frænda. Hann er kunnur frá 16. öld og virðist merkja ‘best er að skammt sé á milli vina (því að engi maður getur sér betri eign en góða vini) en langt á milli frænda (því að frændur eru frændum verstir)’, þ.e. vináttan er traustari en frændsemin. Af þessu leiðir að boðskapurinn felst í andstæðunni vík–fjörður, síðan fellur síðari hluti málsháttarins brott svo að eftir stendur vík skyldi á milli vina og þá verður breytt vísan auðskilin.