Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   6. maí 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 76. ţáttur

Ingbjörg R. Ingadóttir skrifar: _... það fer afskaplega í taugarnar á mér að afgreiðslufólk í verslunum og skrifstofum er stundum farið að ávarpa mann með orðunum: ‘Get ég (eitthvað) hjálpað þér?’ – í stað þess að segja: ‘Get ég aðstoðað?’ Þarna er auðvitað um að ræða áhrif frá ensku en með þessu finnst mér líka verið að breyta viðskiptavini í skjólstæðing. Fólk leitar sér hjálpar hjá heilbrigðisstarfsfólki, prestum, sálfræðingum, félagsþjónustu o.s.frv. Manneskja sem gengur inn í verslun og hefur í huga að eyða þar peningum er hins vegar ekki í stöðu skjólstæðings. Mig langar eiginlega til að segja: ‘Ég er að leita að vörum en ekki hjálp, ef ég þarf hjálp fer ég til hjálparstofnana’ – eða eitthvað álíka ... Á fleiri sviðum smjúga inn erlend áhrif þótt málfræðin sé íslensk. Í bakaríi um daginn var kona með unga dóttur sína og var sú stutta að spyrja út í eitthvað en fékk ekki svör. Sagði hún svo við móðurina: ‘Elskarðu svona kökur?’ Ég rak upp stór eyru við þetta orðfæri barnsins enda var ekki að heyra á mæli fólksins að það væri af erlendum uppruna eða hefði verið langdvölum erlendis. Jafnvel á ensku myndi þetta nú hljóma fremur einkennilega. A.m.k. talar það fólk sem ég hef þekkt á Bretlandseyjum ekki svona.

Umsjónarmaður þakkar Ingibjörgu fyrir ábendingarnar og telur augljóst að hún hefur rétt fyrir sér, hér er um að ræða áhrif frá ensku, slík notkun sagnanna hjálpa og elska getur ekki talist til fyrirmyndar.

Orðatiltækið e-ð riðar til falls á rætur sínar í Nýja testamentinu og vísar það til húss sem riðar til falls (og fellur) þar sem það var byggt á sandi. Venjulega er það notað um eitthvað hlutstætt, t.d. um stjórn eða fyrirtæki, en ekki um eitthvað óhlutstætt eins og feril. Eftirfarandi dæmi hljómar því einkennilega: Glæstur ferill John Profumo [þ.e. Johns Profumos] riðaði til falls eftir að fjölmiðlamenn komust á snoður [snoðir] um samband hans við ... (Blaðið 11.3.06).

Með allmörgum orðasamböndum, sem vísa til óþágu, stendur forsetningarliðurinn fyrir e-m/e-u, t.d.: það blæs ekki byrlega fyrir e-m; það er farið að syrta í álinn fyrir e-m og e-ð bætir ekki úr skák fyrir e-m. Í mörgum slíkra orðasamband má annaðhvort nota fs. hjá/(fyrir) eða hjá/fyrir, t.d.: það hleypur á snærið hjá/(fyrir) e-m; e-ð er komið er í óefni hjá/(fyrir) e-m; e-ð fer/lendir í handaskolum hjá/(fyrir) e-m; það er farið að halla undan fæti hjá/(fyrir) e-m; það stendur vel/illa á fyrir/hjá e-m og það rætist úr hjá/(fyrir) e-m. Svo virðist sem fs. hjá sæki á í slíkum orðasamböndum. Í nútímamáli bregður einnig fyrir afbrigðum með fsl. fyrir e-n, t.d.: Það er farið að syrta í álinn fyrir KR-inga (‘fyrir/hjá KR-ingum’). Slík dæmi samræmast ekki málvenju. 

Orðatiltækin lúta í lægra haldi (fyrir e-m) og (þurfa/verða að) láta í minni pokann (fyrir e-m) eru svipaðrar merkingar. Það gengur hins vegar alls ekki að rugla þeim saman eins og og gert er í eftirfarandi dæmi: Sögusagnir hafa verið uppi um að A.K. sem lét í lægra haldi fyrir B.I.H. .... leggi á ráðin (Blaðið 28.3.06). Í eftirfarandi dæmi virðist einnig vera um bastarð að ræða: Óeirðaalda síðustu daga ... hafa [svo] varpað kastljósinu að miklum vanda ... (Frbl. 7.11.05). Hér virðist orðasamböndunum beina kastljósinu að e-u og varpa ljósi á e-ð ruglað saman.  

Nafnorðið frágangssök, -sakar, kvk., á rætur sínar í lagamáli. Það vísar til þess er menn ganga frá máli (þ.e. hverfa frá maáli) sökum þess hve óaðgengilegt það er. Óbein merking er ‘fráleitur hlutur, e-ð sem ekki verður gengið að’. Í eftirfarandi dæmi þykir umsjónarmanni vel að orði komist: og því er frágangssök að hefja framkvæmdir af nokkru tagi á svæðinu (Mbl. 23.4.06). Í nútímamáli mun algengast að nota frágangssök með neitun, t.d.: Það er engin frágangssök að ganga að tilboðinu og það er engin frágangssök að ganga stuttan spöl í góðu veðri.

Úr handraðanum

Orðasambandið segja af eða á (um e-ð) á rætur sínar að rekja til lagamáls. Það vísar til þess er kviður ber sök á menn eða af honum. Bein merking er ‘bera sök af e-m eða á e-n, sýkna e-n eða sakfella’ en yfirfærð merking er ‘segja já eða nei; taka ótvíræða afstöðu til e-s.’ Beina merkingu orðasambandsins er víða að finna í fornu máli, t.d. í Njáls sögu: beiði búa ... framburðar um kvið, bera annað tveggja á eða af (142. kafli) og bera annað tveggja af eða á (144. k.). Hér merkir kviður ‘vitnisburður,’ sbr. einnig: mun óvinsælt verða málið að bera af honum kviðinn; Nú ber kviður af honum og á þann að dæma fjörbaugsmann ef kviður ber á hann. Af sama meiði eru orðasamböndin bera e-ð á e-n [áburður] ‘ákæra e-n, bera e-m e-ð á brýn’ og bera e-ð af sér ‘neita sakargiftum’. Bein merking hefur verið gagnsæ í lagamáli allt fram á síðustu öld en yfirfærð merking er gömul, t.d.: sverja ... annað hvort af eður á; Það er ýmist af eða á og gefa e-m skýrt svar af eða á um e-ð. Eftirfarandi dæmi eru því í góðu samræmi vil málvenju: Þú verður að ákveða þig, segja af eða á hvort þú þiggur starfið og ... jafnvel þótt í raun sé enginn vegur að sanna hana [fullyrðinguna] af eða á (Mbl. 17.2.06).