Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   22. apríl 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 75. ţáttur

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður oft vikið að enskum áhrifum á íslensku og er þar af nógu að taka. Enska hefur einkum áhrif á orðaforðann. Í sumum tilvikum er um að ræða beinar slettur ef svo má segja, t.d.: ef þessi díll gengur upp (Sjónv. 23.10.05); félagið er búið að vera að óperera á þessu sviði (Sjónv. 23.10.05) og Íslandsbanki hefur verið á siglingu og verið að klára stóra díla (Frbl. 15.2.06). Oftast er þó um að ræða tökugóss sem hefur verið aðlagað íslensku, t.d.: síðan er það opin spurning hvernig flensunni í Asíu vindur fram [e. open question; þ. eine offene Frage] (Mbl. 8.10.05); ef hann fer eins hroðalega undir skinnið á sjálfum sér og hann vill vera láta (Frbl. 15.9.05) [e. get under a person’s skin ‘interest or annoy a person intensely’]; Lögreglan reyndi að róa fólk niður (Útv 9.11.05) [e. calm down] og Fargi ofstjórnarinnar léttir svo til muna þegar forsætisráðherrann stígur niður (Frbl. 10.11.05) [e. step down]. Ekki getur málfar af þessum toga talist til fyrirmyndar en segja má að það sé tiltölulega meinlítið í þeim skilningi að oft er um stundarfyrirbrigði að ræða.

Einnig geta ensk áhrif verið þess eðlis að þau breyta málkerfinu sjálfu. Þetta á við um ofnotkun orðasambandsins vera að + nafnháttar (en það hefur orðið fyrir áhrifum frá enska orðasambandinu to be + lýsingarháttur nútíðar): Þetta [skoðanakönnun] er örugglega að mæla landið eins og það liggur (Frbl. 22.1.06); Ég er að hvetja fólk til að fara vel með fé sitt (Frbl. 6.1.06); Fólk er að verða fyrir brotum (Sjónv 15.1.06); Þeir [landnámsmenn] eru að deyja um fertugt (Sjónv 30.1.06); Hann [biskupinn] er að andlega leiðtoga þjóðina (Frbl. 6.1.06) og ... efast um að Íslendingar í Kaupmannahöfn séu mikið að kippa sér upp við þetta mál (Mbl. 7.2.06). Áhrif af þessum toga þykja umsjónarmanni sýnu alvarlegri en slettur og slangur. Sumum kann að þykja þægindi að því að nota (óbeygjanlegan) nafnhátt í stað þess að þurfa að nota margvíslegar beygingarmyndir sagnorða en slík málbeiting getur naumast talist rismikil.

Ensk áhrif geta einnig komið fram í því að merking orða breytist. Sem dæmi um þetta má nefna að fn. einhver virðist í máli sumra geta samsvarað ensku some eða something, t.d.:

Það eru einhver sjö ár síðan ég lék í auglýsingu (Frbl. 17.2.06); Hann sagði jafnframt að viðbrögðin sýndu greinilega að starfsfólk og stjórnendur Avion Group væru að gera eitthvað rétt og að því yrði haldið áfram (Mbl. 21.1.06) og ræða einhver mikilvægustu málefni sögunnar (21.1.06). Umsjónarmanni finnst engin bót að þessari nýmerkingu. 

Í Íslensku hómilíubókinni er að finna málsháttinn Sá þykir eldurinn heitastur er á sjálfum liggur og í Grettis sögu stendur: Sá er eldurinn heitastur er á sjálfum liggur. Nútímamyndin með brenna er frá 19. öld: Sá er eldurinn heitastur er á sjálfum brennur. Af sama meiði eru vafalaust ýmis orðasambönd, t.d. e-ð brennur á e-m ‘hvílir þyngst á’. Umsjónarmaður hefur hins vegar miklar efasemdir um að rökrétt sé að taka svo til orða að e-ð brenni brýnast á e-m: ... þetta eru þau atriði sem hafa brunnið brýnast á öldruðum (22.3.06). Svipuðu máli gegnir um viðbótina með orðinu skinn: Gunnar sagði málið brenna helst á skinni sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu (Mbl. 21.1.06).

Orðasambandið kynda undir e-u vísar í beinni merkingu til þess er eldur er kyntur undir potti eða katli. Yfirfærð merking er‘magna eða auka e-ð (neikvætt)’, t.d.: kynda undir (almennri) óánægju (með e-ð); kynda undir reiði almennings og kynda undir kynþáttahatri. Í talmáli gætir þess nokkuð að notað sé þolfall í stað þágufalls, þ.e. kynda undir e-ð (efasemdir), og gætir þar trúlega áhrifa frá orðasambandinu ýta undir e-ð ‘hvetja, efla’. Umsjónarmaður rakst nýlega á dæmi af þessum toga: það [að nota hugtakið hálftyngi]  kyndi undir misskilning (Mbl. 11.3.06). Hér er það ugglaust merkingin ‘ýta undir e-ð’ sem veldur breyttri fallstjórn.

Vísan orðasambandsins kynda undir e-u er býsna augljós og auðvitað er ekki unnt að kynda (eld) undir hverju sem er. Eftirfarandi dæmi getur því ekki talist venjulegt: Al-Kaída gerir það líka og kyndir undir bálinu (Frbl. 21.2.06).

Úr handraðanum

Í Gunnlaugs sögu ormstungu er víða vikið að karlmennsku Gunnlaugs. Í sjötta kafla segir frá því er hann gekk fyrir Eirík jarl Hákonarson. Jarltók eftir því að Gunnlaugur hafði sull á fæti og furðaði hann sig á því að hann gekk þó eigi haltur. Þá svaraði Gunnlaugur því sem fleygt varð: Ei skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir. — Eftirfarandi dæmi virðist vísa til þessa: ... hann sagðist ekki haltur ganga fyrr en báðir fætur væru undan (Frbl. 12.3.06). Eins og sjá má er hér illa farið með þekkt tilsvar.