Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   9. ágúst 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 8. ţáttur

Þættinum hafa borist fjölmörg bréf og ábendingar um efni sem vert væri að fjalla um á þessum vettvangi. Ég þakka jákvæð viðbrögð og þann áhuga sem þættinum er sýndur en hvort tveggja tel ég staðfestingu á því sem ég þóttist vita: Íslendingar hafa mikinn áhuga á móðurmálinu og láta sig miklu skipta hvernig með það er farið. Sumum bréfanna hef ég svarað beint en að efni annarra mun ég koma síðar.

Flestir munu þekkja orðasamböndin koma við sögu, vera úr sögunni og þegar hér var komið sögu og fjölmörg önnur með stofnorðinu saga. Í flestum tilvikum er farið rétt með þau enda er merking þeirra mismunandi og skýrt afmörkuð. Ég hef þó veitt því athygli að á þessu getur orðið misbrestur þannig að orðasambandið koma við sögu sækir á.

Þannig hef ég margoft heyrt og lesið á prenti dæmi eins og ?Þegar hér var komið við sögu höfðu KA-menn skorað mark. Hér er smáorðinu við ofaukið enda eru væntanlega allir sammála um að við segjum þegar hér var komið (sögu). Leikmaður sem meiðist kemur ekki meir við sögu í tilteknum leik og kaup á leikamanni eru úr sögunni ef mikið ber á milli, ekki þarf að ræða það frekar.

Breytingar af þessum toga má kalla áhrifsbreytingar, tiltekið orðasamband hefur áhrif á notkun og merkingu annars. Margar slíkra breytinga eru um garð gengnar og hafa öðlast viðurkenningu en aðrar eru nýjar af nálinni og geta ekki talist rétt mál.

Sem dæmi um þær síðarnefndu má nefna orðasamböndin kynda undir einhverju og spá í eitthvað en þau verða alloft í talmáli og óvönduðu ritmáli ?kynda undir eitthvað og ?spá í einhverju.

Orðasambandið kynda undir einhverju vísar í beinni merkingu til þess er eldur er kyntur undir potti og í yfirfærðri merkingu til þess er eitthvað er aukið: kynda undir kynþáttahatri / almennri óánægju.

Orðasambandið ýta undir einhvern/eitthvað er notað í svipaðri merkingu og kynda undir einhverju og ætla má að þar sé að finna skýringuna á breytingunni kynda undir einhverju > ?kynda undir eitthvað.

Síðara dæmið er af svipuðum toga. Orðasambandið spá í eitthvað felur í sér hreyfingu og því er venjan að nota þolfall, sbr. spá í spilin. Í svipaðri merkingu er kunnugt orðasambandið pæla í einhverju og það togar í, veldur því að margir (einkum ungt fólk) segja: ?Ég er að spá í því en hvorki styðst það við hefð né fellur að því kerfi sem liggur að baki fallanotkun með forsetningum.

Margir hafa reyndar amast við orðasambandinu pæla í einhverju, telja það danskættað og því ekki góða íslensku. Elstu dæmi í fórum Orðabókar Háskólans um orðasambandið eru frá 19. öld og þar er einnig að finna ýmis önnur afbrigði, t.d. pæla í gegnum ... skruddu.

Sögnin að pæla samsvarar að formi til d. pejle og pejle ud (‘ákvarða eða reikna e-ð út (stefnu skips)’). Ólíklegt verður að telja að bein tengsl séu á milli d. pejle og ísl. pæla í e-u. Í fyrsta lagi er merkingin í dönsku allt önnur en í íslensku og í öðru lagi er munur á því að pæla e-ð út og pæla í e-u.

Trúlegra er að pæla í e-u feli í sér íslenska nýmyndun eða aðlögun að íslensku málkerfi. Merkingin sagnarinnar pæla tengist grafa (með páli), sbr. grafast eftir e-u og grafast fyrir um e-ð, sbr. enn fremur götva (‘grafa’) og uppgötva (‘grafa upp’ > ‘finna upp’).

Úr handraðanum

Ýmis orð og orðasambönd vísa til vitsmuna manna eða gáfnafars, t.d. flækjast ekki í vitinu, reiða ekki vitið í þverpokum og vera með vitið í vasanum.

Í flestum tilvikum er augljóst hvað við er átt en þó getur einnig saga legið að baki. Þannig er því t.d. háttað um orðatiltækið kafna ekki í vitinu (‘vera (mjög) vitgrannur—) en það vísar til frásagna Snorra-Eddu (Skáldskaparmál, 5.k.) af því er dvergarnir Fjalar og Galar drápu Kvasi og sögðu ásum að hann hefði kafnað í manviti fyrir því að engi var þar svo fróður, að spyrja kynni hann fróðleiks.

Hér er skemmtilega og eftirminnilega komist að orði og giska má á að hér sé að finna fyrirmyndina að öðru og yngra orðatiltæki: kafna ekki í vinsældum/vinsældunum en elsta dæmi um það er að finna í Grettis sögu: kafna ekki í vinsældum manna.

Í tilvitnuðu dæmi úr Snorra-Eddu er að finna nafnorðið manvit sem merkir eiginlega ‘hugvit’ þar sem fyrri liðurinn man- er skyldur sögninni muna-man-mundi-munað, sbr. einnig nafnorðin muni ‘hugur’, munúð o.fl. Í nútímamáli er oft notuð framburðarmyndin mannvit og orðið er jafnvel ranglega tengt mannsviti. Mér var kennt í skóla að rita bæri manvit enda er það ávallt ritað svo í eldra máli, sbr. einnig sérnafnið Jórunn manvitsbrekka (Eyrbyggja saga).

Mér er að ljóst að ekki dugir að deila um smekk manna en sjálfum finnst mér orðið manvit fegurra en mannvit og tel rétt að halda því til haga að hvorki manvit/(mannvit) né mannsvit tengist sérstaklega karlmanni.