Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   23. ágúst 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 9. ţáttur

Íslenskt mál - 9. þáttur

Fjölmiðlar gerðu söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva nokkuð góð skil eins og vert er.

Einhverju sinni heyrði ég í ríkisútvarpinu að rætt var um lokaæfingu fyrir keppnina sjálfa. Þar kom m.a. fram að tiltekinn keppandi mætti ekki á æfinguna og ?bar fyrir sig veikindum eins og sagt var en átt var við að hann hefði borið fyrir sig veikindi.

Orðasambandið bera e-ð fyrir sig er algengt í beinni merkingu og óbeinni, t.d. bera hönd fyrir höfuð sér, bera fyrir sig skjöld og bera fyrir sig (tímabundið) minnisleysi. Í öllum tilvikum vísar orðasambandið til hreyfingar og því er notað þolfall.

Notkun þágufalls (?bera fyrir sig veikindum) samræmist því hvorki málkerfinu né málvenju en samt er hún býsna algeng í talmáli. Ætla má að hér sé um að ræða áhrif frá orðasambandinu bera e-u við (hann bar því við að hann væri veikur; ber við miklum önnum). Rétt er að geta þess að einnig er kunnugt afbrigðið berja e-u við (19. öld) en það er naumast lengur notað og skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Íslenska er að því leyti gagnsætt mál að málnotendur eiga í flestum tilvikum auðvelt með að átta sig á því hvaða líking liggur að baki föstum orðasamböndum. Ætla má að skilyrði áhrifsbreytinga á borð við bera fyrir sig veikindi > ?bera fyrir sig veikindum sé einmitt það að orðasambandið er ekki lengur gagnsætt, tengslin á milli bera fyrir sig skjöld (‘verja sig með skildi’) og bera fyrir sig minnisleysi (‘afsaka sig með minnisleysi’) eru ekki öllum augljós svo að dæmi sé tekið.

Ég rakst um daginn á annað dæmi af svipuðum toga. Í dagblaði var rætt um samning og sagt að ?hann bæri þess vitni að samstarf væri gott. Venja er að tala um að bera einhverjum gott vitni, sbr.: Þeir [heimamenn og nágrannar Hrúts] báru honum gott vitni (Njála, 6.k.), og í samræmi við það væri eðlilegt að segja að samningur beri því vitni að samstarf sé gott. Hér gætir trúlega áhrifa frá orðasambandinu e-ð ber þess merki en það er notað í svipaðri merkingu og e-ð ber e-u vitni, sbr. enn fremur orðasambandið e-ð ber vott um e-ð.

Loks skal minnst á orðatiltækið binda enda á e-ð en þess gætir talsvert að ekki sé farið rétt með það. Ég las í blaði nýlega um nauðsyn þess að ?binda endi á stjórnmálaferil manns og í útvarpi var sagt um átök í Monróvíu að ?endir væri bundinn á óeirðirnar. Dæmi af þessum toga eru fjölmörg en þau eru öll úr nútímamáli.

Orðatiltækið binda enda á e-ð á sér langa sögu í íslensku en búningur þess og merking hefur breyst allmikið í tímans rás. Elsta myndin er gera enda á e-u og er hún algeng fram á síðustu öld en sjaldhöfð í nútímamáli. Afrigðið binda enda á e-u er einnig gamalt. Þessar myndir (þgf.-myndirnar) vísa til kyrrstöðu, þess er endi er bundinn á bandi, þ.e. þess er gengið er frá bandsenda.

Í nútímamáli er hins vegar ávallt notað þolfall (binda enda á e-ð), með vísan til hreyfingar eða breytingar. Nútímamyndin er býsna gömul, hana má rekja aftur til 17. aldar. Hér skiptir aldur einstakra mynda ekki höfuðmáli heldur hitt hvernig orðasambandið er skilið. Sú líking sem að baki liggur leyfir ekki notkun orðsins endir (?endir var bundinn á deiluna; ?binda endi á þrætuna) enda vant að sjá hvernig sögnin að binda getur samræmst því orði. Það sem hér hefur gerst virðist mér vera að orðatiltækið er ekki lengur öllum gagnsætt, líkingin að baki þess er tekin að blikna.

Mér finnst hins vegar sjálfsagt að nota orðatiltækið í samræmi við uppruna og málvenju og rita því binda enda á stjórnmálaferil manns og tala um að endi sé bundinn á óeirðir svo að dæmi séu tekin.

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja orðasambandið klykkja út með e-u/(e-ð) (‘enda tal sitt/ræðu með e-u’), t.d.: Ræðumaður klykkti út með tilvitnunum í Njáls sögu. Sögnin að klykkja (skylt klukka, kvk.) merkir í beinni merkingu ‘hringja (kirkjuklukku)’.

Í lok guðsþjónustu er kirkjuklukkum hringt (klykkt er út frá messu) og vísar líkingin til þess, menn enda mál sitt með einhverju (klykkja út með e-u). Afbrigðið ?klykkja út með e-ð er kunnugt í nútíma talmáli í nokkuð annarri merkingu (‘með það fór hann’), þ.e. merkingin vísar til hreyfingar og kallar á notkun þolfalls. Við þessari órökréttu notkun ber að vara.

Morgunblaðið, 23. ágúst 2003