Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. mars 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 47. ţáttur

Íslenskt mál - 47. þáttur

Umsjónarmaður hefur vikið að því í fyrri þáttum að svo virðist sem munurinn á forsetningunum og af sé ekki ávallt skýr.

Þannig er stundum farið rangt með orðasamböndin gaman/gagn/skemmtun/skömm ... er að e-u og hafa gaman/gagn/skemmtun/skömm ... af e-u og enn fremur er orðasamböndunum að gefnu tilefni og í tilefni af e-u oft ruglað saman. Umsjónarmaður hefur það eftir glöggum mönnum að óvissan um notkun að og af komi einnig fram í því að notkun forsetningarinnar að hefur aukist á kostnað fs. af og einnig þar sem hún á hvergi heima.

Sem dæmi um þetta má nefna: verðlaunahöfundur að ævisögu (16.12.04); eigandi að verslun og upphafsmaður að óeirðum, og í gögnum frá einum stærsta banka landsins er hiklaust talað (og ritað) um rétt að e-u, t.d. eignarétt [svo] að hlutafé og kauprétt að hlutabréfum. Í slíkum dæmum hefur okkur dugað fram til þessa að nota eignarfall, t.d. eigandi verslunar og upphafsmaður óeirðanna og leikmenn á sviði fjármála munu vafalaust telja sig eiga rétt á e-u. Um þetta má segja: Sjaldan fer betur þá breytt er.

Ensk áhrif á íslensku blasa við öllum þeim sem sjá og heyra vilja. Í sumum tilvikum er slíkt góss lítt lagað að íslensku og ætla má að þeir sem það nota beiti því sem nokkurs konar slangri.

Sem dæmi þessa má nefna: vera sjúr (á e-u), e-ð meikar ekki sens, seifa skjal, taka sjensinn, díla við e-n og dánlóda e-ð. Slík málbeiting getur ekki talist til fyrirmyndar en hún að því leyti meinlaus að ætla má að hún sé í flestum tilvikum einstaklingsbundin, hún er ekki hluti af viðurkenndu málfari.

Hið sama á við um ýmsar ambögur sem auðfundnar eru í fjölmiðlum, t.d.: Fór hann svo aftur inn í húsið og tók sér þar líf (mbl.is/frettir 1.1.2005). Merkingin er hér ‘stytta sér aldur, svipta sig lífi, fremja sjálfsmorð’ og það blasir við að um að ræða afbökun af enska orðasambandinu to take one’s life.

Umsjónarmaður telur hins vegar að óbein eða leynd áhrif ensku á íslensku séu ekki síður mikilvirk en slettur og slangur. Með leyndum áhrifum á umsjónarmaður við að notuð eru íslensk orð en reglur um setningaskipan og setningafræði eru brotnar eða þær sveigðar að þeim reglum sem eiga við um ensku. Hér skal einungis vikið að einu dæmi af þessum toga þótt af mörgum sé að taka.

Tilvísunarorðin sem og er vísa ávallt til nafnorða í íslensku, t.d.: Þetta er maðurinn, sem ég talaði við. Í ensku hins vegar geta tilvísunarorð vísað til setninga og sagnorða. — Nú er orðið algengt að tilvísunarorð í íslensku séu notuð að ensku lagi, t.d.: Hann virðist raunar forðast kenningastagl sem er að vissu leyti skiljanlegt (Mbl. 11.12.04) og Ég held að starfið hafi sett niður [svo], sem er sárgrætilegt (Mbl. 16.1.05).

Í fyrra dæminu vísar sem til orðasambandsins forðast kenningastagl en í því síðara til orðasambandsins setja niður, þ.e. setja ofan. Slíka notkun er ekki að finna í vönduðum heimildum; elstu dæmi sem undirritaður hefur rekist á af þessum toga eru frá 20. öld.

Dæmi af þessu tagi eru algeng í talmáli og á síðum dagblaðanna eins og áhugasamir lesendur geta gengið úr skugga um og ætternið leynir sér ekki: He said it could be dangerous which is true = Hann sagði að það gæti verið hættulegt sem er rétt, þ.e. ... og er það rétt/og það er rétt. Umsjónarmanni finnst þetta nýmæli ekki til fyrirmyndar.

Nú er rétt og skylt að taka það fram að umsjónarmanni virðist danska og þýska fara svipaða leið og enska hvað þetta atriði varðar svo að ekki er loku fyrir það skotið að áhrifin kunni einnig að vera dönsk og þýsk.

En það breytir því ekki að slík málbeiting styðst ekki við íslenska málvenju.

Úr handraðanum

Kunningi umsjónarmanns telur að notkun ýmissa orðasambanda með stofnorðinu blaði sé nokkuð á reiki og full þörf sé á að gera nokkra grein fyrir þeim. Umsjónarmaður kannaði þau dæmi sem hann á í fórum sínum og þóttist strax sjá að notkunin væri býsna margslungin. Í grófum dráttum virðist mega skipta slíkum dæmum í þrennt:

(1) brjóta e-ð/(e-u) í blað (sjaldgæft) ‘minnast e-s sérstaklega, taka til e-s’: Ég brýt það í blað hve veðrið var vont á kosningadaginn; ég brýt því í blað hve fallega maðurinn söng.

(2) brjóta blað í e-ð/e-u ‘þáttaskil verða í e-u’: Með samþykktinni er brotið blað í íslenska stjórnmálasögu/(íslenskri stjórnmálasögu); Árið 1960 var mynduð svo kölluð viðreisnarstjórn sem braut blað í efnahagsmálum Íslendinga; Með tilboðinu var brotið blað í íslenskri tryggingasögu. — Elstu dæmi um svipað orðafar er frá fyrri hluta 19. aldar: Eg ætla annars að brjóta blað í söguna um ... (1850). Líkingin vísar til þess er brotið er upp á blað í bók til að sýna hve langt lesandi er kominn. Í nútímamáli mun afbrigðið brjóta blað í e-u algengast en afbrigðið brjóta blað í e-ð er eldra og enn algengt.

(3) brjóta í blað (í e-u). 1. ‘þáttaskil verða í e-u’: Með atkvæðagreiðslunni er brotið í blað í íslenskri stjórnmálasögu; ... þó að Valtýskan ætti þátt í að brjóta í blað í Íslandssögunni á fyrsta áratug tuttugustu aldar. 2. ‘enda e-ð; ljúka e-u, hætta e-u; segja ekki meira’: Nú fer eg að brjóta í blað, brýt eg svo í blað með ... kveðjum (1844). — Í eldra máli merkir orðasambandið I ‘segja ekki meira, slá botn í bréf’: Og brýt eg hér blaði að sinni en það mun tæpast lengur notað. Sömu merkingar en yngra er afbrigðið brjóta í blað (< brjóta blað í e-ð/e-u) en í slíkum dæmum virðist líkingin vísa til þess er menn ‘ljúka skriftum, hætta að skrifa’ (og brjóta þá blað/bréf saman). Í nútímamáli er merkingin ‘marka þáttaskil, valda straumhvörfum’ einhöfð og þar vísar líkingin trúlega til þess er ‘brotið er upp á blað í bók er hætt er lestri’ (svo að menn muni hvert þeir voru komnir). Brotið blað markar þannig skil (milli þess sem lesið er og ólesið) og er þá yfirfærð merking auðskilin.

Í nútímamáli virðist afbrigðið brjóta blað í e-ð/e-u vera algengast, ekki síst í þolmynd: brotið hefur verið blað í e-ð/e-u. Hér er notkun þolfalls og þágufalls nokkuð á reiki en þolfallið virðist eldra enda eðlilegt með sögninni brjóta. Til gamans má geta þess að slíkur sveigjanleiki í notkun falla er algengur í íslensku, t.d.: skjaldbakan grefur egg sín í sandinn/(sandinum), karlinn gróf gullmolann í garðinum sínum og alkunna er að sumir grafa pund sitt í jörðu (en enginn í jörð/jörðina).