Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   26. febrúar 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 46. ţáttur

Íslenskt mál - 46. þáttur

Sögnin bera er býsna margbrotin í notkun að því leyti að hún er ýmist notuð persónulega (ég skal bera pokann) eða ópersónulega (mig bar þar að sem ...; mér ber að segja satt).

Í flestum tilvikum leikur þó enginn vafi á því hvernig hún er notuð. Flestir munu t.d. vera sammála um að rétt er að segja e-m ber (engin) skylda til e-s og brýna nauðsyn ber til e-s. Orðasambönd þessi eiga sér rætur í fornu máli og notkun þeirra hefur verið í föstum skorðum í nokkur hundruð ár.

Í nútímamáli má þó heyra og sjá annars konar notkun, t.d. e-m ber skyldu til e-s, e-n ber skylda til e-s og brýn nauðsyn ber til e-s. Sem dæmi um fyrstu tvö atriðin má nefna: Telur J. sig [þ.e. sér] ekki hafa borið skylda til þess að bera ráðninguna undir B. (Mbl. 30. 12.04); J. telur sig [þ.e. sér] ekki hafa borið skyldu [þ.e. skylda] til þess að ... (Mbl. 30.12.04) og enda hafi hann ekki talið sig [þ.e. sér] bera skyldu [þ.e. skylda] til þess að ... (Mbl. 31. 12.04). Eins og sjá má á dæmunum er hér allt látið reka á reiðanum, og fallstjórn er ekki í samræmi við málvenju. Innan hornklofa eru tilgreindar þær orðmyndir sem eðlilegar má telja.

Það er reyndar nokkuð auðséð hvað ruglingnum veldur í áðurnefndum dæmum. Í fyrsta lagi mun það vera sögnin telja (telja sig) sem hefur þau áhrif að þf.-myndin sig er notuð í stað þgf.-myndarinnar sér. Í öðru lagi mun orðasambandið brýna nauðsyn ber til e-s [< e-m ber brýna nauðsyn til e-s] valda því að þf.-myndin skyldu er (ranglega) notuð í stað nf.-myndarinnar skylda. — Til gamans má geta þess að orðasambandið (brýna) nauðsyn ber til e-s mun vísa til hlutkestis, þess er hlutir voru bornir í skaut (‘dúk’) en þá gat hlut borið svo og svo til.

Það er alkunna að fjölmargar sagnir geta stýrt tveimur ólíkum föllum og er þá jafnan um skýran merkingarmun að ræða. Þannig er eitt að ausa bátinn en annað að ausa vatninu og með sama hætti getum við sópað stéttina eða sópað ruslinu. Merkingarmunurinn er skýr. Í fyrra tilvikinu er oft talað um beint andlag (þf.-andlag) sem ‘hreyfist ekki’ en í síðara tilvikinu er um að ræða óbeint andlag (þgf.-andlag) og það ‘hreyfist’ ef svo má að orði komast.

Í samræmi við þessa ‘reglu’ segjum við jafnan blása e-m e-u í brjóst en síður: gera viðskipti þegar andinn blæs mönnum það í brjóst (Mbl. 30.12.04), við getum blótað þorrann en segjum ekki: (nema í allt annarri merkingu) þorranum er nú blótað undir berum himni (6.2.2005) og við slítum band/kaðal og slítum ráðstefnu, trúlofuninni, fundi en segjum helst ekki: varð það til þess að Kúveitar slitu öll samskipti við Palestínumenn (Mbl. 13.12.04).

Þótt Ísland liggi á hjara veraldar hafa Íslendingar aldrei verið einangraðir að því er menningu varðar. Við höfum þvert á móti lagt umtalsvert af mörkum, t.d. á sviði bókmennta, og við höfum ávallt borið gæfu til að aðlaga erlenda menningarstrauma að íslensku og íslenskum aðstæðum. Þannig nýttu Íslendingar sér nýja tækni er ritöld hóf innreið sína á Íslandi (á 11. öld) og sama á við um prenttæknina á 16. öld.

Menningarsaga okkar sýnir ótvírætt að Íslendingar hafa allt frá 12. öld verið býsna sammála um það sem kalla má málstefnu: Á Íslandi skyldi töluð og rituð íslenska, – eða: Það er sama hvert efnið er um það skal fjallað á íslensku. Til vitnis um það eru m.a. umfangsmiklar þýddar bókmenntir, vitaskuld auk frumsaminna rita og annarra bókmenntagreina á íslensku. Jónas Hallgrímsson þýddi danskt rit um stjörnufræði á íslensku og þurfti þá að búa til mörg ný íslensk orð og klæða framandi hugsun í íslenskan búning.

Dæmi af þessum toga eru fjölmörg. Það var því engin tilviljun að við eignuðums þegar á 16. öld við fyrstu heildarþýðingu Biblíunnar á íslensku (Guðbrandsbiblíu, 1584). Vafalaust hefði verið auðveldara að spara sér ómakið og nota erlenda texta við guðsþjónustu og þá leið kusu reyndar ýmsar þjóðir. En í raun koma það aldrei til greina hér á Íslandi, Íslendingar voru góðu vanir í þessum efnum.

Um þessar mundir er talsvert rætt um beinar útsendingar ensku knattspyrnunnar og sýnist þar sitt hverjum. Sumum finnst óþarft að hafa íslenska þuli eða skýringartexta en öðrum finnst sjálfsagt að farið sé að lögum um þetta efni. Enn aðrir telja að þar sem hér sé um þröngt svið að ræða skipti ekki miklu máli þótt útsendingar séu á ensku.

Í Morgunblaðinu 13. febrúar var fjallað allrækilega um þetta efni og þar segir: ‘Guðrún [Kvaran], sem jafnframt er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Orðabókar Háskólans, segir útsendingar á knattspyrnuleikjum með lýsingum enskra þula vissulega geta verið ógn við íslenska tungu, sérstaklega þar sem leikir eru sýndir nokkrum sinnum í viku og börn eru meðal áhorfenda.’

Umsjónarmaður tekur undir þessa afstöðu, einkum hvað börnin varðar. Knattspyrna er vinsæl íþróttagrein á Íslandi og ætla má að börn og unglingar fylgist talsvert með útsendingum knattspyrnuleikja. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og aðeins það besta er nógu gott fyrir þá kynslóð sem mun erfa landið.

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja orðasambandið fá e-n ofan af e-u í merkingunni ‘fá e-n til að hætta við áform sitt’, t.d.: Hann skal aldrei fá mig ofan af því að kæra málið fyrir lögreglunni eða hann leitaðist með öllu móti við að fá hana ofan af slíkri fásinnu. – Í fornu máli er orðasambandið telja e-ð ofan kunnugt í sömu merkingu, t.d.: þessarar fyrirætlanar Gorms konungs verður Þyri drottning vör og taldi ofan þessa fyrirætlan = taldi ófallið þetta ráð konungi (sami texti, annað handrit).

Vísunin er augljós, sbr. telja/fá e-n á e-ð andstætt telja/fá e-n ofan af e-u og enn fremur fara ofan af e-u ‘hætta við e-ð (ásetning, fyriætlun)’.