Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   24. maí 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 1. ţáttur

Íslenskt mál - 1. þáttur

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur farið þess á leit við mig að ég annist þáttinn Íslenskt mál.

Mér er ljóst að þetta er vandasamt verk en af ýmsum ástæðum þykir mér rétt að bregðast vel við þessari beiðni. Ég hef sjálfur áhuga á málbeitingu og ýmsum þeim álitamálum sem hana varða og hef reyndar reynt að fylgjast með á því sviði um þriggja áratuga skeið. En mestu veldur þó að fjölmargir Íslendingar hafa brennandi áhuga á öllu því er varðar íslenskt mál og þeir eiga og verða að hafa sinn vettvang. Til vitnis um þetta eru m.a. þær vinsældir sem þátturinn hefur notið, ekki síst í umsjá Gísla heitins Jónssonar. Þetta er nokkuð sérstakt eins og ýmislegt annað er varðar afstöðu Íslendinga til móðurmálsins.

Mér er til efs að áhugi Íslendinga á móðurmáli sínu eigi sér hliðstæðu annars staðar, t.d. þar sem töluð er enska, þýska eða eitthvert Norðurlandamálanna. Þar sem ég þekki til eru það einkum málfræðingar sem láta til sín taka þegar málnotkun ber á góma, allur almenningur hefur lítið til málanna að leggja, enda er mér ekki kunnugt um að þátturinn Íslenskt mál eigi sér beina hliðstæðu með öðrum þjóðum. Hvað íslensku varðar er annað uppi á teningnum, málnotkun skiptir flesta miklu máli og dæmin sanna að fjölmargir geta látið til sín taka á því sviði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í afstöðu Íslendinga til móðurmálsins felist auður sem rétt og skylt sé að nýta og taka tillit til og ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum í þessu efni.

Ég vék að því hér að ofan að mér þætti vandasamt að annast þátt um íslenskt mál. Vandinn felst m.a. í því að ýmis þau álitamál er varða rétt mál og rangt eru örðug viðureignar og í sumum tilvikum er niðurstaðan ekki einhlít. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir því að ég geti skorið úr um málfarsleg efni svo að öllum líki en mér ætti að vera vorkunnarlaust að rökstyðja afstöðu mína til þeirra álitamála sem upp kunna að koma.

Þau atriði sem ég miða einkum við eru tvenns konar. Annars verður tiltekin málnotkun að vera í samræmi við íslenska málfræði og hins vegar þarf hún að samræmast málvenju. Oftast nær fer þetta saman en sé svo ekki ræður síðara atriðið úrslitum. Rétt er að taka það skýrt fram að í mínum huga vísar hugtakið málvenja til málbeitingar sem á sér stoð í traustum heimildum, t.d. í verkum rithöfunda og annarra þeirra manna sem flestir vilja taka sér til fyrirmyndar um málfarsleg efni. Af þessu leiðir m.a. að ýmis atriði sem skjóta upp kollinum í daglegu tali geta ekki talist rétt þar sem engin hefð er fyrir notkun þeirra. Um eitt dæmi af þessum toga verður fjallað hér á eftir.

Þátturinn Íslenskt mál hefur öðlast nokkra hefð á síðum Morgunblaðsins og þeirri hefð vil ég fylgja eins og kostur er. Jafnframt virðist mér augljóst að umsjónarmaður hefur það að nokkru leyti í hendi sér hvernig hann hagar umfjöllun sinni. Í umsjá Gísla heitins Jónssonar var þátturinn að mínu mati ekki einungis málfarsþáttur heldur einnig menningarþáttur þar sem listilega var fléttað saman bókmenntir, saga og umræða um málfar. Ekki treysti ég mér til að fara í föt Gísla að þessu leyti heldur mun ég halda mig við málfræði og málfarsleg efni.

Ég mun þó ekki fjalla eingöngu um málfar heldur mun ég leitast við að koma á framfæri ýmiss konar fróðleik um íslenskt mál, einkum af sögulegum toga. Hvað fyrra atriðið varðar hlýt ég að treysta á ábendingar frá lesendum. Þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja geta annaðhvort sent Morgunblaðinu bréf merkt mér eða sent mér tölvupóst: jonf (hjá) hi.is. Ég hvet alla áhugasama til að senda mér bréf eða skeyti enda tel ég að þátturinn standi og falli með viðbrögðum lesenda.

Talsverð brögð eru að því í nútímamáli að notkun forsetninganna og af sé á reiki. Samkvæmt málvenju þykir mönnum gaman að e-u eða þeir hafa gaman af e-u en í talmáli sækir forsetningin af hér á. Segja má að forsetningarnar og af gegni hér ákveðnu hlutverki og að hlutverksmerking þeirra í framangreindum dæmum sé ólík. Í fyrra tilvikinu er um að ræða staðarmerking (‘hvar’ > ‘með tilliti til’) en í síðara tilvikinu er merkingin önnur (‘hvaðan’ > ‘af hverju’). Þessi munur verður best sýndur með dæmum:

‘Hvar’ > ‘tillitsmerking’

‘Hvaðan’ > ‘orsök’

gaman er að e-u

hafa gaman af e-u

skömm/sómi ... er að e-u    

hafa skömm/sóma ... af e-u

ávinningur er að e-u

hafa ávinning af e-u

e-m er skapraun að e-u

hafa skapraun af e-u

Dæmin í fyrri dálkinum vísa til kyrrstöðu enda eru mörg slík dæmi notuð með sögninni vera. Hins vegar vísa dæmin í síðari dálkinum til hreyfingar og eru mörg notuð með sögninn hafa að viðbættu nafnorði. Hér er um að ræða lifandi ferli (eða munstur) sem notuð eru með kerfisbundnum hætti í íslensku enda er um að ræða merkingarmun. Það flækir að vísu málið örlítið að einnig eru kunn önnur ferli í svipaðri merkingu, t.d. lið er í e-m (†fólgið); akkur er að e-u/í e-u ..., en í slíkum tilvikum ræður málvenja.

Af svipuðum toga eru orðasamböndin að gefnu tilefni og í tilefni af e-u. Hugtakið staður eða staðarlegur er tvöfalt í roðinu að því leyti að staður getur í eðli sínu vísað til rúms eða tíma. Forsetningin að getur þess vegna vísað til hvors sem er tíma eða rúms og þá komið að kjarna málsins.

Orðasambandið að gefnu tilefni vísar upprunalega til tíma (‘þegar’) en orðasambandið í tilefni af e-u vísar til (‘orsök’ < hvaðan). Hér er því um merkingarmun að ræða en ástæðan fyrir því að málnotkun er stundum á reiki er sú að í hugum sumra hefur þessi merkingarmunur bliknað nokkuð eða slævst. Allt fram á okkar tíma hefur munurinn hins vegar verið skýr. Orðasambandið að gefnu tilefni á sér fjölmargar hliðstæður í íslensku, t.d.:

  • að teknu tilliti til þess/alls (‘þegar tekið hefur verið tillit til þess/alls’)
  • að öllu athuguðu (‘þegar alls hefur verið gætt’)
  • að svo mæltu fór hann (‘þegar hann hafði mælt þetta’)
  • að svo komnu (‘eins og sakir standa’)
  • að svo stöddu (†máli) (‘eins og málum er háttað’)
  • að fenginni niðurstöðu (‘þegar niðurstaða er fengin’)
  • að því tilskildu (‘að uppfylltu því skilyrði’)
  • að e-m + lh.nt.: Að öllum ásjáandi/áheyrandi; að honum/henni fjarverandi
  • að e-m + lh.þt.: Að honum fornspurðum; að henni viðstaddri; að honum fjarstöddum
  • að breyttu breytanda (lat. mutatis mutandis) (‘að gerðum nauðsynlegum breytingum’): Orðasambandið er liðfellt, undanskilið er eitthvert nafnorð, t.d.: að breyttu breytanda máli/atriði ..., og stendur breytanda sem hliðstætt lo. í hk.et.þgf. Orðasambandið vísar til þess er notuð er kennisetning eða meginregla sem þarfnast breytinga til að geta samsvarað nýjum reglum eða staðreyndum, þ.e. ‘að breyttu því sem breyta þarf’.

Athyglisvert er að notkun forsetningarinnar er fastbundin í ofangreindum samböndum. Hvernig skyldi þá standa á því að svo er ekki um sambandið að gefnu tilefni? Ég hygg að hér sé um að ræða áhrif frá orðasambandinu í tilefni af, þ.e. merkingin togar í.

Nú er það auðvitað svo að tungumál breytast og því mætti halda fram að hér væri um að ræða einfalda, eðlilega og auðskilda merkingarbreytingu. Ég get fallist að það að breytingin er auðskilin og meira að segja áhugaverð fyrir málfræðinga en eftir stendur að það er málnotkunin sem ræður úrslitum, þeir sem vilja vanda mál sitt fara að dæmi fyrri kynslóða og gera ekkert nema að vandlega hugsuðu máli.

Til gamans skal loks á það bent að orðasambandið gera e-ð af ásettu ráði vísar til ‘háttar’ (hvernig) og er allt annars eðlis en gera e-ð að yfirlögðu ráði (‘eftir að hafa legið yfir e-u, íhugað e-ð’).

Morgunblaðið, 24. maí 2003