Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   6. ágúst 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 57. ţáttur

Íslenskt mál - 57. þáttur

Flestir munu þekkja orðatiltækið finna/vita/sjá hvar skórinn kreppir ‘finna/vita/sjá í hverju vandinn er fólginn, hverjir örðugleikarnir eru’.

Það á rætur sínar að rekja til gamallar sögu frá því um 110 fyrir Krists burð. Rómverji nokkur varð fyrir ámæli vina sinna og kunningja fyrir að ætla að skilja við eiginkonu sína. Þá á hann að hafa sýnt þeim skóinn sinn og sagt að enginn vissi betur hvar skórinn kreppti (að fætinum) en hann sjálfur. Orðatiltækið á samsvörun í fjölmörgum tungumálum (t.d. ensku, þýsku og dönsku) og er hundgamalt í íslensku. Það mun vera algengast í myndinni finna hvar skórinn kreppir en í talmáli bregður einnig fyrir myndinni finna hvar skóinn kreppir. Hún samræmist ekki málvenju og getur því ekki talist rétt fremur en eftirfarandi dæmi: Verkfæri samanburðarlögfræðinnar kæmu að góðum notum við að meta hvar skóinn kreppir og draga ályktanir af ... (Frbl 26.6.05). 

Umsjónarmaður hefur áður vikið að orðasambandinu það blæs ekki byrlega fyrir e-m og öðrum hliðstæðum. Forsetningarliðurinn fyrir e-m vísar hér upphaflega til staðar en í óbeinni merkingu með neitun til ‘óþágu’ (e-ð er e-m andstætt). Breytingin það blæs ekki byrlega fyrir e-m > það blæs ekki byrlega hjá e-m er því auðskilin. Hún er auk þess allgömul og hefur öðlast hefð. 

Í nútímamáli verður vart annarrar breytingar: það blæs ekki byrlega fyrir e-m/mér > það blæs ekki byrlega fyrir e-n/mig, t.d.: það blæs ekki byrlega fyrir flokkinn [þ.e. flokknum] (5.5.05), sbr. það syrtir í álinn fyrir Svía [þ.e. Svíum] (Sjónv 28.1.04) og Enn syrtir í álinn fyrir Þróttara [þ.e.  Þrótturum] [eftir tap fyrir Völsurum] (Sjónv 30.6.05). Þessi breyting á sér enga stoð í málkerfinu og samræmist engan veginn merkingu orðasambanda af þessum toga. Ætla má að hana megi skýra með hliðsjón af orðasamböndum eins leiknum lauk með 1-0 sigri fyrir Þróttara en þar er merkingin auðvitað önnur.

Umsjónarmaður hefur tekið eftir því að fallstjórn með liðnum allt að er mismunandi í nútímamáli. Sem dæmi má nefna að ýmist er sagt NN er leyft að veiða allt að 35 þúsund lestir af loðnu eða  NN er leyft að veiða allt að 35 þúsundum lesta af loðnu og leiðangurinn hefur vistir til allt að þremur vikum eða leiðangurinn hefur vistir til allt að þriggja vikna

Í liðnum allt að er forsetning og ætti því að stýra þágufalli, t.d.: hitinn er allt að fjörutíu og tveimur stigum (6.8.03).Í nútímamáli virðist liðurinn hins vegar að nokkru leyti hafa glatað upphaflegu hlutverki sínu og geta staðið sem atviksliður (líkt og nálegatæplega, rúmlega, o.fl.) og því er sagt og skrifað: Biðtími eftir barni frá Kína [er] allt að 18 mánuðir (Mbl. 11. 4. 04); Það sem af er þessu ári hefur embættið veitt allt að fjórar áminningar (Frbl 8.6.05) og allt að 2000 keppendur taka þátt í leikunum (Útv 11. 7. 05).

Öll slík dæmi sem umsjónarmanni eru tiltæk eru úr nútímamáli en þau eru svo algeng að þau hljóta að teljast góð og gild. — Um ýmsa aðra liði gegnir svipuðu máli og um allt að, t.d. hátt í, nærri og nálægt. Ef fallstjórn þeirra stangast á við fallstjórn aðalliðar er fallanotkun stundum á reiki, t.d.: eyða hátt í eina milljón/(einni milljón) króna.

Föst orðasambönd geta verið vandmeðfarin en oftast er sú líking eða hugsun sem að baki liggur augljós. Þannig tölum við um að ganga að tilboði í merkingunni ‘fallast á, samþykkja’ og enn fremur er komist svo að orði að menn gangist við barni ‘viðurkenni faðerni’. Málvenja sker úr um notkun slíkra orðasambanda og ekki gengur að víkja frá henni. Orðasambandið gangast að tillögum á sér enga stoð í málinu og því getur eftirfarandi dæmi ekki talist gott: ... hvika ekki frá tillögum sem flokkurinn hefur lagt fram og Vinstri grænir hafa gengist að (Txt 10. 7. 05). 

Svipuðu máli gegnir um orðasamböndin færa rök að e-u og engin rök eru fyrir e-u. Hið fyrra vísar til hreyfingar en hið síðara til kyrrstöðu. Við getum fært fjölmargt fyrir eitthvað en málkerfið býður ekki upp á að færa eitthvað fyrir einhverju. Eftirfarandi dæmi hlýtur því að brjóta í bág við málkennd flestra: Franska tímaritið science et Vie (Vísindin og lífið) segist geta fært sönnur fyrir því að Tóríní-klæðið svokallaða sé falsað (Mbl. 22.6.05). 

Úr handraðanum

Í 49. kafla Gylfaginningar (í Snorra-Eddu) segir frá því að æsir sendu erindreka um allan heim til að fá allt og alla til að gráta Baldur hinn góða úr helju og gerðu það allir, menn, dýr og allir hlutir, nema gýgurin Þökk, er svaraði: *Þökk mun gráta / þurrum tárum / Baldrs bálfarar. / Kviks né dauðs / nautka ek karls sonar; / haldi Hel því es hefir.

Til þessarar frásagnar vísar orðatiltækið gráta e-ð þurru tárum ‘gráta e-ð ekki, gráta krókódílstárum’. — Til hugmynda forfeðra okkar um helheim má rekja ýmis önnur orð og orðasambönd, t.d. drepa e-n/e-ð í hel > drepa e-n/e-ð og svelta í hel, sbr. einnig helkaldur og heljarkuldi (heiðnir menn töldu að illmenni yrðu að þola kulda á vonda staðnum eftir þetta líf). Orðasambandið þegja e-ð í hel ‘eyða málefni með því að ræða það ekki’ á sér ugglaust rætur í norrænni goðafræði en það er ungt í íslensku, mun vera fengið úr dönsku (tie noget ihjel).

Morgunblaðið, 6. ágúst 2005