Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   6. september 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 10. ţáttur

Íslenskt mál - 10. þáttur

Í öðrum þætti var vikið að því að notkun forsetninganna af og er stundum á reiki, t.d. gera e-ð að gefnu tilefni (?af gefnu tilefni) eða gera e-ð af ásettu ráði (?að ásettu ráði).

Í slíkum dæmum og hliðstæðum segir málkennd til um notkunina en til hliðsjónar má hafa í huga að forsetningin er hér staðarleg (hvar) (í tíma og rúmi) en forsetningin af vísar jafnan til hreyfingar (hvaðan). Eins og áður gat gætir þess nokkuð í talmáli að hefðinni sé ekki fylgt í þessu efni og skulu hér nefnd tvö dæmi.

Í dagblaði rekst ég á eftirfarandi auglýsingu um leik Fylkis og Grindavíkur: Brimsaltur stórleikur! Það verður bragð af þessum toppslag ... Mér finnst textinn býsna hnitmiðaður en ekki gallalaus. Venja er að tala um bragð að einhverju en ekki ?bragð af einhverju, sbr. málsháttinn: Bragð er að þá barnið finnur. Málsháttur þessi er kunnur í ýmsum afbrigðum, t.d. bragð er að þegar barnið finnur (17. öld) og bragð er að ef sjálfur finnur (16. öld), en ávallt með myndinni bragð er að (e-u).

Með sama hætti er venja að tala um að óbragð sé að e-u enda vísar forsetningin að hér til kyrrstöðu (hvar). Allt önnur hugsun liggur að baki er menn finna lykt af e-u (hvaðan) en trúlega eru það einmitt slík orðasambönd sem toga í, ef svo má segja, og valda óvissu.

Á annað dæmi af svipuðum toga rakst ég þar sem fjallað var um útihátíðir. Greinarhöfundi var tíðrætt um ofbeldi og drykkjuskap sem vill loða við samkomur sem þessar og sagði síðan: ?... brjóta tennur og nef og stinga mann og annan í ölæðinu algjörlega af tilefnislausu. Hér hefði vitaskuld átt að standa að tilefnislausu, sbr. gera e-ð að ástæðulausu, ráðast á e-n að fyrra bragði og fjölmargar aðrar hliðstæður.

Það fylgir því vandi og ábyrgð að skrifa í dagblöð og koma fram í útvarpi og sjónvarpi og vafalaust er fjölmiðlamönnum oft vandi á höndum. Þeir þurfa oft og tíðum að vinna hratt og telja sig þá kannski ekki hafa tíma til að bera sig eftir björginni, fletta upp í orðabókum til að fá skorið úr álitamálum sem upp hljóta að koma.

Sjálfur fletti ég upp orðunum tilefnislaus og ástæðulaus í Íslenskri orðabók en hafði ekki erindi sem erfiði, enda vart við því að búast þar sem hér er um að ræða málfræðilegt ferli eða málfræðilegt orðasamband en slíkt er ekki rakið sérstaklega í því verki. Öðru máli gegnir um hið ágæta verk Orðastað eftir Jón Hilmar Jónsson. Þar eru slík dæmi rakin, t.d.: að ástæðulausu (bls. 32), að fyrra bragði (bls. 62), að tilefnslausu (bls. 562) og mörg önnur hliðstæð dæmi.

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja sögnina dufla við e-n (‘daðra við e-n, gefa e-m undir fótinn’) en sú merking mun vera frá 19. öld. Í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna dæmin dufla við stelpur og ... dufla og dansa fram á nótt.

Í eldra máli merkir sögnin að dufla (dubla) ‘tvöfalda’, sbr. sögnina dobla (einnig redobla) í nútímamáli, og er hún oft notuð um teningakast, fjárhættuspil, t.d.: dufla með teningum og dufla um peninga en hvort tveggja er gamalt í íslensku.

Það sem um var duflað var lagt við borð > ‘lagt undir’ og er svipað orðafar að finna í fornu máli. Í Jónsbók (lögbók Íslendinga frá 1281) er lagt bann við fjárhættuspili, dufli, en þar segir: Ef menn dufla eða kasta teningum um peninga, sé uppnæmt konungs umboðsmanni allt það er á borði/við borð liggur.

Þessa afstöðu er víða að finna, til gamans má tilgreina dæmi frá 16. öld.: Í þeirri borg ... var einn mjög ósálugur (‘ófrómur, illur’) maður sá er mjög lagðist [í] dufl og önnur ónytsamleg spil og töfl um peninga. Af þessum dæmum má ljóst vera að duflarar hafa þótt vafasamir náungar, hálfgerðir ‘bögubósar’, og iðja þeirra (dufl) lítt til eftirbreytni. Þessi neikvæða hlið á duflinu, öllu heldur hin neikvæða merking, færist síðan yfir á annars konar iðju eða fyrirtæki, sem ekki hefur heldur þótt til fyrirmyndar, og það er þessi merking og notkun sagnarinnar sem flestir þekkja núna.

Morgunblaðið, 6. september 2003