Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   27. nóvember 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 41. ţáttur

Íslenskt mál - 41. þáttur

Orðatiltækið lúta í lægra haldi (fyrir e-m) ‘tapa fyrir e-m, verða undir’ er um margt lærdómsríkt og skemmtilegt - ef rétt er með það farið.

Fyrirmynd þess er orðasambandið vera í miklu, góðu haldi (hjá/(með) e-m) og þar er náttúrlega vísað til ástands eða kyrrstöðu, sbr. sögnina vera og þgf.-myndina haldi.

Síðar (á 16. öld) fer sambandið að vísa til breytingar eða hreyfingar með sögninni lúta og þá með þolfallsmyndinni hald enda er hennar að vænta með sögn sem felur í sér hreyfingu: lúta í lægra hald og er sú mynd algeng fram á 19. öld. Nútímamyndin, lúta í lægra haldi, er frá 18. öld, mynduð fyrir áhrif frá orðasambandinu vera í miklu/góðu haldi.

Orðatiltækið bera lægri hlut (fyrir e-m) er svipaðrar merkingar og lúta í lægra haldi fyrir e-m. En þótt merking orðatiltækjanna sé svipuð er notkun þeirra um margt ólík og ekki gengur að slengja þeim saman, þá fer allt í graut eins og í eftirfarandi dæmi: [Valtýr Guðmundsson] þurfti að lúta í lægri hlut fyrir Hannesi sjálfum Hafstein (Fréttabl 12. 10.04). Annað dæmi af svipuðum toga er úr skákmáli: enda biðu þeir ... allir í lægra haldi (Mbl 11. 3.04).

Það getur verið nokkuð vandasamt að nota fornöfnin hvor tveggja/(hvor tveggi) og báðir. Beyging þeirra er þó einföld. Í fyrra tilvikinu beygist fyrri liðurinn hvor eins og spurnarfornafn (hk.et. hvort, hvort, hvoru, hvors; hk.flt. hvor, hvor, hvorum, hvorra) og síðari liðurinn tveggja er óbeygður (enda er um að ræða ef.flt. af tveir/tvær/tvö).

Beyging fornafnsins báðir (báðar (kvk.), bæði (hk.)) er ekki neinum vandkvæðum bundin (báðir, báða, báðum, beggja). Í hverju er vandinn þá fólginn?

Til einföldunar má segja að hann tengist tölu og merkingu fornafnanna. Fornafnið báðir vísar samkvæmt eðli máls til tveggja, enda er hér um gamla tvítölumynd að ræða. Þar sem merkingu þess svipar til merkingar fornafnsins hvor tveggja gætir þess nokkuð að hvorugkynsmyndin bæði sé látin samsvara hk.et. hvort tveggja.

Þetta kann að virðast flókið en einföld dæmi ættu þó að skýra þetta:

  • Það vantar sykur og salt, kauptu hvort tveggja [?bæði]

  • Ég lét hann hafa blað og blýant en hann týndi hvoru tveggja [?báðu]

  • Hér er hvorki kyrrð né ró, ég sakna hvors tveggja [?bæðis].


Innan hornklofa (merkt ?) er reyndar að finna nýtt fornafn en ekki styðst það við málvenju. Fornafnið báðir er tvítöluorð líkt og töluorðið tveir og því á ekki að vera hægt að nota það í eintölu.

Nýlega (7.10.04) rakst umsjónarmaður á ágæta grein þar sem fjallað var um landvernd og umgengni okkar um landið. Yfirskrift greinarinnar hljóðaði svo: Ekki annað hvort heldur bæði. Í meginmáli var því haldið fram að við Íslendingar gætum í ríkari mæli en þeir sem búa í þéttbýlum löndum gert hvort tveggja í senn, framleitt hreina og mengunarlausa orku í verulegum mæli og samtímis notið víðáttumikilla og ósnortinna náttúrusvæða. Eins og sjá má samræmist fyrirsögnin ekki málvenju, búast hefði mátt við að ritað hefði verið Ekki annað hvort heldur hvort tveggja, en í meginmáli er allt slétt og fellt.

Fyrr á þessu ári skrifaði Hallgrímur Helgason ágæta grein þar sem hann gagnrýndi orðalag í auglýsingu frá Símanum en í henni sagði: Þetta er þín hugmynd. Við hjálpum þér að láta hana gerast. Síðan skrifaði Hallgrímur:

  • Frasinn er greinilega hráþýðing úr ensku: ‘This is your idea. We help you make it happen.’ Á íslensku gerast hugmyndir ekki. Þær eru framkvæmdar, raungerðar eða gerðar að veruleika.

Auðvitað er þetta hárrétt hjá Hallgrími og orðalag af þessum toga getur naumast talist boðlegt. Umsjónarmaður taldi sjálfsagt að símamenn hlytu að taka þessari ábendingu vel og auðvitað yrði auglýsingunni breytt.

En þar skjátlaðist honum hrapallega, þeim virðist finnast þetta harla gott, að minnsta kosti verður ekki vart þess metnaðar hjá þeim að hafa það sem réttara reynist. Nú skal það fúslega viðurkennt að umsjónarmaður hefur alls ekki fylgst með auglýsingaherferð Símans, hún hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum, en þó fangaði ákveðin auglýsing frá Símanum athygli hans.

Auglýsing þessi var birt 18. 10. 2004. Undir heilsíðumynd af skeggjuðu hattmenni var ritað: Það er sama hver staðan er, þú getur alltaf hringt kollekt. Og til hliðar, hægra megin á síðunni stóð: Við hjálpum þér að láta það gerast.

Umsjónarmanni blöskrar satt að segja að nokkurt fyrirtæki skuli vilja auglýsa sig með þessum hætti. - Efnið er ekkert og framsetning ekki boðleg. Hvernig tengist kúasmalinn því að Síminn bendir viðskiptavinum sínum á að þeir geti alltaf hringt á kostnað náungans? Efni auglýsingarinnar ætti raunar ekki að vera til umræðu á þessum vettvangi, Símanum hlýtur að vera heimilt að kynna sig með þessum hætti ef hann kýs það. Um setninguna Við hjálpum þér að láta það gerast hefur Hallgrímur Helgason fjallað og hefur umsjónarmaður engu við það að bæta.

Úr handraðanum

Orðasambandið eitra (e-ð) fyrir e-m merkir 'spilla e-u fyrir e-m', t.d.:

  • eitra andrúmsloftið fyrir e-m

  • Hún var búin að eitra fyrir honum [matinn] í þrjá mánuði

  • Sovétmenn óttuðust að eitrað hefði verið fyrir heimsmeistaranum í einvíginu við Bobby Fischer

Öll eru þessi dæmi fengin úr rituðum heimildum.

Samkvæmt málvenju er oftast notað þolfall með sögninni eitra, t.d. eitra fyrir refinn/varginn, og virðist vísun til hreyfingar liggja þar að baki, sbr. leggja e-ð fyrir e-n ( < leggja eitur fyrir refinn).

Með fjölmörgum öðrum sögnum sem vísa til óþágu er hins vegar notað þágufall, t.d. spilla (e-u) fyrir e-m og skemma (e-ð) fyrir e-m, og þar virðist staðarmerking liggja að baki (hvar).

Af þessari ástæðu er málnotkun stundum á reiki, oftast er sagt eitra fyrir e-n en stundum eitra fyrir e-m, t.d.: eitra fyrir þörungum og Má eitra fyrir börnum? [með tóbaki].

Umsjónarmanni virðist því að það sé merking sem sker úr um það hvort sagt er eitra fyrir e-n (refinn) eða eitra fyrir e-m (mér). Ef merkingin er bein (‘leggja eitur fyrir e-n’) er notað þolfall en ef hún er óbein (‘spilla e-u’) er notað þágufall.

Það getur verið gaman að velta slíkum hlutum fyrir sér, áhugasamir lesendur ættu að leita í huga sér og spyrja sjálfa sig hvað þeim finnist um þetta atriði.

Morgunblaðið, 27. nóvember 2004