Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   31. maí 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 2. ţáttur

Íslenskt mál - 2. þáttur

Ekki alls fyrir löngu fór fram brunaæfing í Hvalfjarðargöngunum og var fjallað um það í blöðum.

Í einu blaðanna gat að líta fyrirsögnina: Rafmagn sló út á æfingu í Hvalfjarðargöngum og í fréttinni sagði: ... fylltust göngin af reyk þegar rafmagn sló út í kjölfar þess að 19 reykblásarar fóru í gang. Ég hrökk við enda hefði farið betur að skrifa: Rafmagni sló út í Hvalfjarðargöngunum og ... þegar rafmagni sló út.

Hér er um það að ræða hvort sögnin að slá út er notuð persónulega eða ópersónulega. Flestar sagnir í íslensku eru notaðar persónulega, þ.e. með þeim stendur gerandi (frumlag) í nefnifalli, t.d.: Maðurinn keypti bílinn.

Fjölmargar sagnir taka hins vegar ekki með sér geranda heldur fallorð í aukafalli, t.d.: Mig langar í ís.

Enn aðrar sagnir eru ýmist notaðar persónulega eða persónulega og er þá merking ólík, t.d.: Maðurinn bar pokann (persónuleg notkun) en: Bátinn bar að landi (ópersónuleg notkun). Ætla má að notkunarmunurinn sé skýr í hugum flestra. Sögnin að slá á að því leyti samleið með sögninni að bera að hún er ýmist notuð persónulega eða ópersónulega en merkingarmunur er jafnan skýr, t.d.:

  • Yngsti keppandinn sló andstæðing sinn út (‘felldi hann úr keppni’) (d. slå ud)
  • svitanum sló út um konuna; barninu sló niður (‘veiktist aftur eftir bata’)
  • Hnefaleikakappinn sló andstæðing sinn niður (‘rotaði hann, sló hann í gólfið’)
  • formaðurinn slær á fingurna á böldnum flokksmönnum
  • miklum óhug sló á fólk/alla

Enn fremur getum við sagt: Það sló út rafmagninu hjá mér. Mér virðist því grundvallarmunur á orðasamböndunum rafmagninu slær/sló út og ?rafmagnið slær/sló út. Í síðara dæminu má hugsa sér að dæmi á borð við rofinn/öryggið sló rafmagnið út liggi að baki, sbr. enn fremur talmálsdæmið rafmagnið slær allt út (‘er betra/betri orkugjafi en allt annað’) en ekki styðst slík málnotkun við venju. Ég held einnig að þessi munur sé skýr í hugum flestra.

Nú er það svo að tungumál breytast í aldanna rás og á það við um íslensku eins og önnur tungumál. Sumar breytinganna sýna að sú hugsun sem að baki liggur hefur breyst. Sem dæmi má nefna að nú segjum við fundum einhverra ber saman en fram á 19. öld var myndin †fundi einhverra ber saman einhöfð og nú segjum við mikinn fjölda dreif að en í eldra máli er notkunun ávallt persónuleg: †mikill fjöldi dreif að. Því mætti halda fram að breytingin rafmagni slær út > rafmagn slær út væri hliðstæð en sá grundvallarmunur er á að fyrri breytingarnar tvær hafa öðlast hefð en ekki sú síðast nefnda.

Úr handraðanum

Orð í íslensku eiga sér sína sögu, mörg hver skemmtilega sögu, og oftar en ekki má lesa þá sögu með því að bera saman texta frá mismunandi málstigum. Við Íslendingar njótum þeirra forréttinda að geta fyrirhafnarlítið lesið gamla texta (allt að 850 ára gamla) og þannig getur hver og einn skoðað forna texta og notið þeirra.

Einnig er vandalítið að bera saman notkun orða eða orðasambanda frá mismunandi tímum og íhuga hvort merking eða notkun hefur breyst. Hér skal litið á eitt dæmi.

Sögnin að blöskra er algeng í nútímamáli með vísun til þess er e-ð gengur fram af mönnum eða hneykslar þá, t.d.: Mér blöskrar hve allt er orðið dýrt; henni blöskraði að heyra fullyrðingar e-s.

Í fornu máli merkti sögnin blöskra hins vegar ‘depla (augunum)’ og var hún upphaflega notuð pesónulega (ég blöskra).

Í Thomas sögu segir t.d.: flaut úr munninum bæði blóð og vatn og þar næst blöskrar pilturinn báðum augum og í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs segir: hann [örninn] horfir rétt hið gegnsta og hið beinasta móti henni [sólinni] og blöskrar ekki.

Hér er merkingin bein, ‘depla ekki (augunum)’, en óbein merking eða yfirfærð (‘hræðast’) er einnig kunn í fornu máli: Lagðist Þórður þá niður opinn og bað þá hyggja að hvort honum blöskraði nokkuð. Merkingarbreytingin er augljós, sá sem ekki hræðist e-ð eða hneykslast ekki á e-u deplar ekki auga. Enda tölum við t.d. um að greiða háan reikning án þess að depla auga; án þess að blikna eða blána eða eitthvað í þeim dúr. Líkamleg viðbrögð (e-r blöskrar = deplar auga) eru færð yfir á breytingar á hugarástandi og sögnin verður ópersónulega (mér blöskrar) af því að þá fellur hin nýja merking vel að notkun fjölmargra sagna er vísa til hugarástands (mér líður vel/illa; henni finnst/þykir ...).

Morgunblaðið, 31. maí 2003