Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. febrúar 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 45. ţáttur

Íslenskt mál - 45. þáttur

Miðaldabókmenntir okkar verða ekki metnar til fjár enda telja margir íslenskan menningararf það dýrmætasta sem við eigum. Því fylgir mikil ábyrgð að taka við slíkum verðmætum, gersemum sem hver kynslóð eftir aðra hefur notið og skilað niðjum sínum. Fram til þessa hefur það verið talið sjálfsagt að skila þessum verðmætum óbrjáluðum til næstu kynslóðar — og helst ætti hver kynslóð að leggja metnað sinn í að gera svolítið betur, efla skilning á menningararfi okkar og auka rannsóknir á þessu sviði. 

Það er alkunna að við tókum góðu heilli við flestum þeim íslensku handritum sem varðveitt voru í Kaupmannahöfn. Því fylgdi mikil ábyrgð en ekki verður betur séð en Íslendingar hafi risið undir henni. Árnastofnun á Íslandi, þar sem handritin eru varðveitt, er um margt musteri og miðpunktur rannsókna og fræða á þessu sviði.

Nýjum tímum fylgir ný tækni og nýir möguleikar. Umsjónarmaður telur engum vafa undirorpið að góð verk þoli það vel að um þau sé fjallað með mismunandi hætti. Þannig hlýtur að teljast eðlilegt að samin séu leikrit eða gerðar kvikmyndir reistar á fornsögum okkar. Þá þarf vitaskuld að stytta efnið og breyta því með ýmsum hætti. Slíkt er vandaverk en gott dæmi þess að vel getur tekist til er kvikmyndin Útlaginn þar sem Gísla saga er stofninn. Sama máli gegnir um ýmis önnur tjáningarform, t.d. teiknimyndasögur.

Nýlega barst umsjónarmanni í hendur teiknimyndabók, Brennan, sögur úr Njálu. Eins og nafnið bendir til er hún byggð á frásögnum Brennu-Njáls sögu af þeim atburðum er ber einna hæst í sögunni. Söguþræðinum er ekki fylgt nákvæmlega enda er þess auðvitað enginn kostur í knöppum texta teiknimyndabókar. Myndirnar eru vel gerðar og veita lesendum skemmtilega hugmynd um geðslag og skapgerðareinkenni höfuðpersónanna. Það er reyndar ekki nýtt að myndskreyta fornrit okkar og undirritaður minnist tveggja nýlegra teiknimyndabóka sem byggðar voru á Laxdæla sögu.

Það er vitaskuld ógerningur að miðla því sem kalla má gullaldartexta í knöppum texta teiknimyndabókar. Þetta hefur þó verið reynt í eldri verkum. Undirrituðum virðist meginreglan hafa verið sú að nota sögutextann óbreyttan eins og kostur er en þar sem nauðsynlegt var að stytta efnið, breyta því eða endursegja það var þess gætt að framsetning væri að öllu leyti í samræmi við málvenju og hæfði efninu. Í Brennunni er farin önnur leið. Þar er efnið endursagt í mjög knöppu máli, framsetning ber nokkurn keim af talmáli og í nokkrum tilvikum er vikið frá því sem kalla má hefðbundna málbeitingu. Skal nú vikið að nokkrum atriðum af þessum toga.

Sem dæmi um talmálskenndan stíl má nefna eftirfarandi: Njáll er búinn að bæta fyrir föður minn og gott betur (bls. 18); kíkjum næst á Hafur auðga (40); Hvað meinarðu? (17) (‘hvað áttu við’); Engin slagsmál hér á Alþingi (52) og Er verið að kveikja eld?Á að fara að malla eitthvað, strákar? (60). Vafalaust vakir það fyrir höfundum að stíllinn sé sem einfaldastur og í samræmi við smekk og málkennd lesenda (væntanlega barna). En hér vaknar sú spurning hvort búningurinn hæfi efninu og umsjónarmaður telur reyndar að talmálseinkenni á borð við ofangreind séu ónauðsynleg, þau séu ekki til þess fallin að gera textann auðskilinn. 

Í nokkrum tilvikum má finna nýmæli sem umsjónarmaður kannast ekki við, t.d. kasta goðunum (8) í merkingunni ‘kasta trúnni’; taka við sátt ‘sættast’ og ... ættir þú nú að stanga út tönnunum rassgatið á merinni, sem þú ást í gær (42). Í síðasta tilvikinu hlýtur reyndar að vera um misskilning að ræða. Samsvarandi texti í Njáls sögu er stanga úr tönnum þér rassgarnarendann merarinnar, sem ... og þar virðist merkingin býsna skýr.

Í pistlum mínum hef ég nokkrum sinnum vikið að ofnotkun orðasambandsins vera að gera eitthvað, t.d. ég er ekki að skilja/fatta þetta og hann er að standa sig vel. Svipuðu máli gegnir um sögnina vera að viðbættum lh.nt. Við getum sagt barnið fór/kom grátandi en helst ekki barnið er grátandi (nema lh.nt. sé lýsingarorðsmerkingar). Þess í stað segjum við barnið er að gráta eða barnið grætur. Það skal fúslega viðurkennt að oft koma upp álitamál er tekin er afstaða til dæma af þessum toga. Megindrættirnir eru þó skýrir og enn fremur virðist ljóst að í nútímamáli er málnotkun að breytast fyrir áhrif frá ensku. Þessu sinni skal ekki farið frekar út í þá sálma heldur látið nægja að tilgreina tvö dæmi úr Brennunni: Ég er hér en ekki grenjandi (65) og Hvað er að gerast ‘hvað gengur á’ (48). Umsjónarmaður hefði kosið að nota hér annað orðalag en hver dæmi fyrir sig.

Í íslensku vísar ábendingarfornafnið þessi jafnan til einhvers sem er nálægur eða maður sér (þessi hérna, þessi þarna ...). Í ensku er samsvarandi fornafn (this)notað með svipuðum hætti en auk þess til áherslu (svo sem í dæmum er samsvara þessi bjáni, kjáni, þussi, glæpamaður ...). Það er í sjálfu sér ekkert rangt við að hafa sama háttinn á í íslensku en naumast getur slík málbeiting talist til fyrirmyndar. Nokkur dæmi af þessum toga má finna í Brennunni, t.d. Þessi Kristur ... (33) og ... jaxlinn úr þessum Þráni (65).

Umsjónarmaður hefur gerst alllangorður um títtnefnda teiknimyndabók enda finnst honum efnið afar mikilvægt. Ekki er við því að búast að menn verði á eitt sáttir um þetta efni fremur en mörg önnur en umsjónarmanni fannst ómaksins vert að láta afstöðu sína í ljós.

Morgunblaðið, 12. febrúar 2005