Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   20. september 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 11. ţáttur

Íslenskt mál - 11. þáttur

Meint samráð olíufélaganna hefur borið hátt í fjölmiðlum síðustu vikur.

Í umfjöllun dagblaðs var fjallað um þetta mál undir yfirskriftinni ?Stjórnarformaðurinn beggja megin borðs. Ég leyfi mér að gera athugasemd við þetta orðalag þótt það sé engan veginn nýtt í íslensku. Hér hefði farið betur að skrifa Stjórnarformaðurinn báðum megin borðs. Hér er um það að ræða að tveimur orðasamböndum slær saman: beggja vegna og báðum megin (< vegum). Ætla má að ástæða samsláttarins sé sú að orðasamböndin eru notuð í svipaðri merkingu.

Orðasamböndin beggja vegna (e-s/við e-ð) og báðum megin (e-s/við e-ð) eru kunn í fornu máli. Við samfall þeirra varð þriðja orðasambandið til: beggja megin (e-s/við e-ð) og er það kunnugt frá 16. öld, m.a. í Guðbrandsbiblíu (1584).

Orðasambandið báðum megin við e-ð á sér fjölmargar hliðstæður, t.d.: hinum/þeim/öðrum megin við e-ð. Um notkun þess skal minnst á tvennt.

Í fyrsta lagi er algengt að nota eignarfall í stað fsl. við + þf., t.d.: Báðum megin árinnar; hérna megin lækjarins; sunnan megin hússins o.s.frv.

Í öðru lagi er algengt að nota hk.et. í stað kk.et.(þgf.flt.) (oft ritað í einu orði), t.d.: Vera réttu megin við strikið; fara öfugu megin fram úr (rúminu); hinumegin við girðinguna; halda sig sínu megin í garðinum o.s.frv.

Nú kunna sumir að vilja halda því fram að orðasambandið beggja megin sé fullgott, enda eigi það sér langa sögu í íslensku. Því er til að svara að það er ekki að finna í Íslenskri orðabók né öðrum orðabókum og má telja það til vitnis um að höfundum umræddra verka hafi ekki þótt það boðlegt. Undirritaður er þeirrar skoðunar að orðasambandið beggja megin sé að vísu áhugavert en óþarft í vönduðu máli.

Annað málfarslegt atriði sem þráfaldlega hefur komið upp í umræðu um ætlað samráð olíufélaganna er aðkoma einstakra manna að því, hvernig þeir komu að málinu. Borgarstjóri hefur m.a. verið beðinn að gera grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Nú er eðlilegt að menn séu beðnir að gera grein fyrir aðild sinni að tilteknu máli eða hvernig þeir tengist því en ég kann því fremur illa þegar sífellt er tönnlast á því að koma að máli og aðkomu að máli.

Fleiri dæmi af þessum toga eru auðfundin. Bandaríkjaforseti tekur ekki ákvörðun heldur (?)kemur hann að tiltekinni ákvörðun, nú kaupa menn ekki fyrirtæki heldur (?)koma nýir eigendur að DV og banki á ekki viðskipti við fyrirtæki heldur (?)kemur hann að viðskiptum við fyrirtæki í sjávarútvegi.

Við lauslega leit í orðabókum fann ég hvorki orðasambandið koma að tilteknu máli í merkingunni ‘tengjast, eiga aðild að’ né nafnorðið aðkoma og má því ætla að hér sé um nýmæli að ræða. Ég fæ að vísu ekki séð að það sé beinlínis rangt að taka svona til orða en þess ber þó að gæta að orðasambandið koma að e-u (síðar/seinna) er alkunna í íslensku í allt annarri merkingu (‘víkja (síðar) að e-u í ræðu/(umfjöllun)’). Nú kann sumum að þykja þetta smásmygli og röksemdir mínar fátæklegar en ég verð að segja eins og er, ósköp kann ég þessu illa, einkum þegar þrástagast er á þessu.

Úr handraðanum

Í ágætri skákbók segir Friðrik Ólafsson stórmeistari um eina skáka sinna: Ég hef alltaf haft mætur á þessari stuttu og snotru skák, því að mér þykir hún gefa það til kynna, að snemma beygist krókurinn til þess, sem verða vill.

Hér er vel að orði komist og málshátturinn Snemma beygist krókurinn (til þess sem verða vill) (‘fljótt kemur í ljós hvað í ungum manni býr, fljótt má sjá hvert stefnir’) er notaður eins og við eigum að venjast.

En hver er þessi krókur? Ég hlýt að viðurkenna að mér var það lengi hulin ráðgáta þrátt fyrir talsverðar vangaveltur en nú þykist ég skilja hvað að baki liggur. Elsta dæmi um málsháttinn er að finna í safni Jóns Rúgmanns (17. öld): Þangað beygist krókurinn sem vera vill. Í handriti stendur einnig viðbótin þess verr sem lengur er skautað en yfir hana hefur verið strikað.

Litlu yngra er afbrigðið Snemma beygist krókurinn sem vera (verða) vill. Elsta dæmið eða öllu heldur viðbótin við það bendir til þess að líkingin vísi til örðugleika íslenskra kvenna við að halda króki (‘sveig, krókfaldi’) í réttri stöðu, t.d. í misjöfnu veðri á leið í og úr kirkju. Ef þetta er rétt er hún sótt í daglegt líf formæðra okkar og finnst mér hún gefa skemmtilega innsýn í hversdagslegt amstur. Ekki veit ég hversu lengi þessi barátta hefur staðið en ugglaust á hún eldri rætur en á 17. öld.

Í Laxdæla sögu (55. k.) segir um klæðaburð Guðrúnar Ósvífursdóttur: Guðrún var í námkyrtli og við vefjarhlutur þröngur en sveigur mikill á höfði. Talið hefur verið að sveigur merki hér ‘krókfaldur’ og gefur það hugmynd um aldur þessa klæðabúnaðar en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Af dæmunum er auðvelt að sjá að búningur málsháttarins hefur breyst og jafnframt merking. Í elstu dæmum er um að ræða samanburðarlið (sem ‘eins og’ verða vill) og þar er merkingin bein. Í yngri dæmum hefur verið bætt við forsetningunni til og þá kemur fram ný merking (‘í þá átt sem’) og merkingin verður óbein.

Morgunblaðið, 20. september 2003