Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   11. október 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 12. ţáttur

Íslenskt mál - 12. þáttur

Það er alkunna að sérhvert tungumál hefur sín sérkenni sem greina það frá öðrum tungumálum.

Því má halda fram að eitt sérkenna íslensku sé margbrotin og nákvæm notkun forsetninga og forsetningasambanda (forsetninga og atviksorða) sem byggist á kerfi er við fyrstu sýn kann að virðast nokkuð flókið. Kerfi þetta hefur í stórum dráttum haldist óbreytt frá elstu heimildum um íslenskt mál og það er enn snar þáttur í eðlilegri málbeitingu.

Meginþættir kerfisins eru þeir að leitast er við að staðsetja hluti, atburði og hugsanir sem nákvæmast í tíma og rúmi. Það er í fyrsta lagi gert með mismunandi forsetningum (að, af, á, í, fyrir, úr, við, hjá ...), í öðru lagi með mismunandi fallmörkun eftir því hvort um er að ræða hreyfingu eða dvöl (fara á fund, vera á fundi; fara í föt, vera í fötum ...) og í þriðja lagi með mismunandi atviksorðum til að kveða nánar á um hreyfinguna/stefnuna (upp/niður ... á e-ð, inn/út ... í e-ð ...) eða dvölina (uppi/niðri ... á e-u, inni/úti .. í e-u).

Atviksorðin geta haft breytilegar myndir eftir því hvers eðlis stefnan, hreyfingin eða dvölin er (inn/út ... í e-ð, inni/úti ... í e-u, innan/utan ... úr e-u). Hliðstæð kerfi (eða leifar þeirra) er einnig að finna í ýmsum grannmálum okkar (e. into; out off; þ. hinein; hinaus; d. < upp á) en í íslensku er kerfið mun sýnilegra og víðtækara en í skyldum málum.

Í flestum tilvikum er þetta kerfi runnið okkur Íslendingum í merg og bein, við notum það fyrirhafnarlaust og um það ríkir góð sátt. Því er þó ekki að neita að í einstökum tilvikum virðist mér notkun forsetninga ekki í samræmi við málvenju.

Áður hefur verið vikið að þeirri tilhneigingu að nota frá í stað af , t.d.:

 • ?sleppa óskaddaður frá hörðum árekstri [úr]
 • ?halda frá e-m upplýsingum [‘leyna; halda e-u leyndu fyrir e-m’]
 • ?sýna dæmi frá öllum greinum þjóðlífsins [úr]
 • ?fá allt að helmingsafslátt frá sektum [af]
 • o.s.frv.


Öll eru þessi dæmi fengin úr fjölmiðlum en ætla má að hér gæti áhrifa fá ensku from. Annað dæmi af svipuðum toga varðar forsetninguna í gegnum en ég hef veitt því athygli að hún er notuð með nýstárlegum hætti í nútímamáli.

Eftir því sem ég best veit gegnir forsetningin í gegnum einkum tvenns konar hlutverki (öll eru dæmin traust í þeim skilningi að þau eru öll fengin úr góðum heimildum):

1a. Staðarmerking (hreyfing) (bein merking):

 • Hann kíkti (í) gegnum skráargatið
 • göngin liggja (í) gegnum fjallið
 • skríða inn í gegnum gluggann (‘inn um’)
 • sigla í gegnum brimskafla/sund
 • leggja e-u (sverði) í gegnum e-n
 • tala við e-n í gegnum glugga
 • ljósið skín í gegnum glerið


1b. Staðarmerking (hreyfing) (óbein merking):

 • brosa gegnum tárin
 • brjótast í gegnum e-ð (erfiðan texta)
 • fara í gegnum e-ð (mál/skjöl)
 • kalla í gegnum svefninn
 • sjá í gegnum blekkingarnar
 • sjá í gegnum allt
 • sjá í gegnum fingur við e-n


2. Tímamerking:

 • allan veturinn í gegnum
 • þau vöktu nótt þá alla í gegnum
 • barnið grét alla nótt í gegnum Það eru einkum merkingarliðir 1a-b sem eru algengir en tímamerkingin (2) mun vera sjaldgæfari þótt hún sé eldforn. Í nútímamáli bætist hins vegar þriðja hlutverkið við sem mér sýnist reyndar fremur óljóst. Þá virðist forsetningin í gegnum samsvara dönsku gennem, ensku per, through, via eða þ. durch, t.d.:

  3.
 • ?fá að vita e-ð gegnum e-n
 • ?frétta e-ð í gegnum e-n
 • ?reyna að hafa áhrif í gegnum félagið
 • ?NN hafði sannfærst um andstöðuna gegnum fréttir af hópum mótmælenda
 • ?ná sambandi við e-n gegnum síma
 • ?ljúka námi í gegnum fjarnám
 • ?málið er búið að ganga í gegnum ríkisstjórnina
 • e-ð fer í gegnum hendurnar á e-m

  Í þessum dæmum virðist mér eðlilegt að nota fremur aðrar forsetningar (frétta e-ð hjá e-m; ná sambandi við e-n í síma) eða annað orðalag (ríkisstjórnin hefur fjallað um málið). Ég hef því leyft mér að merkja dæmin með spurningarmerki en um réttmæti þess er best að hver dæmi fyrir sig. Ég kann þó ekki við að agnúast út í síðasta dæmið (e-ð fer í gegnum hendurnar á e-m) þar sem það er býsna gamalt í íslensku (frá fyrri hluta 19. aldar, komið úr dönsku).

  Nú er það auðvitað svo að um smekk manna tjáir ekki að deila og á það einnig við um málkenndina. Það sem mér eða öðrum kann að þykja framandlegt og lítt til fyrirmyndar kann öðrum að þykja fullboðlegt. Ég hef gert þetta atriði að umræðuefni hér þó ekki sé nema til að vekja athygli á þessari nýjung og hvet áhugasama til að hafa augun hjá sér er þeir lesa dagblöðin, þar eru hliðstæður auðfundnar.

  Úr handraðanum

  Flestir munu þekkja orðasambandið gruna e-n um græsku ‘hafa efasemdir um heilindi e-s’. Það er fremur ungt í þeirri mynd sem við þekkjum það en það á sér sína sögu. Í Sturlu sögu segir Brandur biskup Sæmundarson um Hvamm-Sturlu: Engi maður frýr þér vits en meir ertu grunaður um gæsku og þar merkir orðasambandið gruna e-n um gæsku ‘hafa efasemdir um góðmennsku e-s’.

  Í síðari alda máli fær sögnin gruna e-n um e-ð merkinguna ‘fella gruna á e-n; ætla e-m e-ð’, einkum með vísan til e-s neikvæðs, t.d.: gruna e-n um þjófnað, svik, svindl ...

  Sú merking fellur ekki vel að orðasambandinu gruna e-n um gæsku enda hefur gæska jákvæða merkingu. Á 19. öld er blásið lífi í ummæli Brands en þá með tvenns konar breytingu. Annars vegar í breyttri merkingu sagnasambandsins gruna e-n um e-ð (‘hafa grunsemdir um’ > ‘fella grun á, ætla e-m e-ð neikvætt’) og hins vegar er notað nafnorðið græska ‘illmennska’ í stað gæsku ‘góðmennsku’ og þá verður merkingin ‘ætla e-m illmennsku; tortryggja e-n’.

  Elstu dæmi um breytinguna eru frá miðri 19. öld eins og sjá má í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Nútímamyndin gruna e-n um græsku er því í raun byggð á misskilningi en vitaskuld hefur hún öðlast hefð og upprunalega myndin er ekki lengur notuð.

  Morgunblaðið, 11. október 2003