Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   25. október 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 13. ţáttur

Íslenskt mál - 13. þáttur

Í síðasta þætti var fjallað um notkun forsetninga, m.a. nýstárlega notkun forsetningarinnar í gegnum, t.d. (með lítils háttar breytingum): ?nýjung á sviði saumaskapar berst í gegnum karlmenn og ?komast til valda í gegnum niðjamálastofnunina. Enn langar mig að klifa á hinu sama, hjakka í sama farið. Þessu sinni verður vikið að ofnotkun eða öllu heldur ofvexti forsetningarinnar vegna.

Forsetningin vegna varð til fyrir áhrif frá miðlágþýsku von wegen ‘fyrir hönd’ [wegen < þgf.flt. af weg]. Orðmyndin vegna hefur hins vegar verið til í íslensku frá fornu fari:

 1. alla vegna [< vega-na (þf.flt.)]
 2. þriggja vegna [< vega-na (ef.flt.)]

Í báðum tilvikum gegnir -na bendihlutverki, sbr. svona, hérna, núna, þarna, atarna og sá arna.

Elsta merking vísar til stefnu (þriggja/tveggja vegna) líkt og annars vegar, á hinn bóginn o.s.frv. og þar stendur orðmyndin vegna vitaskuld ekki sem forsetning en merkingin ‘fyrir hönd’ er tökumerking (von wegen), kunn frá 14. öld.

Orsakarmerkingin er kunn frá 16. öld: refsing vegna óhlýðni og mæta vegna e-s (‘fyrir hönd’ > ‘fyrir; orsök’).

Í nútímamáli er notkun forsetningarinnar vegna nokkuð flókin en í einföldu máli má segja að hún sé þrenns konar:

1. Með tilliti til:

 • gerðu þetta sjálfs þín vegna
 • mín vegna getur hann átt sig/farið norður og niður
 • þín vegna vona ég að þú hafir rétt fyrir þér


2. Orsök, ástæða (‘sökum, sakir; fyrir’):

 • hátíðinni var frestað vegna veðurs
 • hann kom ekki vegna þess að hann vildi hitta mig heldur af öðrum ástæðum
 • hann er veikur og þess vegna getur hann ekki komið
 • hvers vegna komstu ekki? - Vegna þess að ég hafði ekki tíma til þess
 • ‘Hvers vegna, vegna þess’ (bókarheiti)
 • Hann er hræddur, þess vegna kemur hann ekki


3. Staður:

 • beggja vegna árinnar er gott beitiland (‘báðum megin við ána’)


Í nútímamáli, einkum talmáli, gætir þess mjög að forsetningin vegna sé notuð til að vísa til ýmiss konar tengsla, án þess að hefð sé fyrir því. Hér verður látið nægja að tilgreina dæmi úr nútímamáli og þau borin undir dóm lesenda:

 • ?gera athugasemd vegna e-s < gera athugasemd við e-ð
 • ?gráta vegna e-s < gráta af e-u/út af e-u
 • ?kostnaður vegna aðstoðarmanna < kostnaður við e-ð
 • ?loka e-u vegna öryggisástæðna < loka e-u af öryggisástæðum
 • ?skilagrein vegna fjárveitingar < skilagrein fyrir fjárveitingu
 • ?styrkur vegna framhaldsnáms/rannsókna < styrkur til framhaldsnáms/rannsókna
 • ?sýkna e-n vegna ákæru < sýkna e-n af e-u
 • ?tillaga vegna laga/breytingar < tillaga til laga/um breytingu
 • ?tillaga vegna fjárveitingar < tillaga um fjárveitingu
 • ?umsókn vegna starfs/skólavistar < umsókn um starf/skólavist
 • ?vinna vegna prófa < vinna við próf
 • ?Þetta eru viðræður vegna fyrsta áfanga < viðræður um
 • ?þegja vegna e-s < þegja (þunnu hljóði) yfir e-u
 • ?vegna annarra ástæðna < af öðrum ástæðum
 • ?hefja rannsókn vegna fjölgunar nauðlendinga (rannsaka e-ð; hefja rannsókn á e-u)
 • ?svar vegna fyrirspurnar < svar við fyrirspurn
 • ?hafa áhyggjur vegna fjölskyldu Kellys < hafa áhyggjur af e-u
 • ?samstarf vegna útboða < samstarf um e-ð
 • ?óvissa vegna varnarliðsins < óvissa um e-ð
 • ?viðbrögð vegna ummæla e-s < viðbrögð við e-u
 • ?refsing vegna brots á e-u < refsing fyrir e-ð; viðurlög við brotum


Dæmi af þessum toga eru auðfundin í mæltu máli jafnt sem rituðu og það mætti æra óstöðugan að elta þau og tína þau til.

Rétt og skylt er að játa að umsjónarmanni finnst dæmin misjöfn, sum ótæk en önnur mun skárri. Það er reyndar óþarft að deila um einstök dæmi, aðalatriðið er að ofangreind dæmi og önnur af sama toga sýna ákveðna breytingu eða tilhneigingu sem gætir talsvert í fjölmiðlum.

En hvernig skyldi standa á þessu? Ætla má að breytinguna megi rekja til þess að forsetningin vegna hefur eða er að fá svo víða eða óljósa merkingu að handhægt er að nota hana nánast hvar sem er - á kostnað skýrrar hugsunar að mati undirritaðs.

Þannig hefur þetta ekki verið og virðist breytingin síst til bóta.

Úr handraðanum

Öllum Íslendingum mun tamt að nota orðasambandið blaðra um e-ð og önnur skyld orð, t.d. blaður og blaðurskjóða.

Með því að skoða ritmálsskrá Orðabókar Háskólans sem er aðgengileg á Netinu, má verða margs vísari um þessi orð. Elstu dæmi um sagnarsambandið blaðra um e-ð eru frá síðari hluta 19. aldar, t.d.: blaðra fram og aftur um e-ð og blaðra um daginn og veginn. Sögnin blaðra er skyld nafnorðinu blað og merkir ‘hreyfa líkt og blað, sveifla/sveiflast’.

Þeim sem vilja vita eitthvað um notkun sagnarinnar í fornu máli er ekki í kot vísað þar sem hin nýja fornmálsorðabók Árnastofnunar í Kaupmannahöfn (ONP) er. Í því ágæta verki er m.a. að finna eftirfarandi fornmálsdæmi: skáru af tungu hans ... þá sá þeir að tungan blaðraði og köstuðu [ljónin] sér niður hjá fótum honum og blöðruðu hölunum.

Nútímamerkingin ‘tala (mikið og ábyrgðarlaust)’ er trúlega dregin af orðasambandinu blaðra tungunni (‘sveifla tungunni’) en það er kunnugt úr fornu máli: mér einum af oss kumpánum er eigi enn meður öllu bannað að blaðra minni tungu (ONP) og þá spurðu þeir ef prestur mætti mæla, en hann blaðraði tungunni og vildi við leita að mæla (ONP) og í síðari alda máli: Nú er hún móðir mín komin afturgengin og blaðrar nú tungunni (19.öld) og hvolpurinn blaðraði tungunni (20.öld).

Merkingin ‘babla, umla’ er kunn í fornu máli: stýfðu af tungunni ... og enn síðan er hann braust um og blaðraði þá réðu þeir til þess stúfs í munn honum drógu til sín með töng einni og skáru af annað sinni (ONP); Því blaðrar hún og bendir, hvað er hún mátti, að fyrir guðs nafn sé ... (ONP) og (ONP).

Nútímamerkingin (‘þvaðra, þætta’) er kunn frá 18. öld (OHR), sbr. einnig eftirfarandi orðskvið úr Viðeyjarbiblíu: Varir hins máluga blaðra óþarfa.

Morgunblaðið, 25. október 2003