Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   8. nóvember 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 14. ţáttur

Íslenskt mál - 14. þáttur

Það er alkunna að föst orðasambönd geta verið vandmeðfarin og á það jafnt við um búning þeirra sem merkingu.

Hvort tveggja getur að vísu breyst en breytingar af þeim toga verða að öðlast almenna viðurkenningu málnotenda, fyrr eru þær ekki um garð gengnar né geta talist góðar og gildar.

Ég hef veitt því athygli að orðasambandið verma bekkinn, einkum þó afbrigðið verma efsta sætið, er oft notað með öðrum hætti en ég á að venjast. Þannig heyrði ég nýlega sagt í útvarpi: ?Þjóðverjar verma efsta sætið í riðlinum með sex stig (20.8.2003) og las í íþróttadálki: ?Þróttur vermdi efsta sæti deildarinar er Íslandsmótið var hálfnað (1.8.2003).

Orðasambandið á rætur sínar í dönsku (værme bænken) og er það kunnugt í íslensku frá fyrri hluta síðustu aldar. Það vísar til þess er konu er ekki boðið upp í dans, hún þarf því að sitja og ‘verma bekkinn’. Upprunaleg merking er því neikvæð og einnig óbeina merkingin eftir því sem ég best veit. Venjulegt er því að tala um að tiltekinn leikmaður þurfi að verma varamannabekkinn eða að ákveðið knattspyrnulið vermi botnssætið.

Elstu dæmi um breytinguna eru vart eldri en tíu ára en hana má rekja til þess að sú líking sem að baki liggur er trúlega ekki augljós auk þess sem sögnin verma er jákvæðrar merkingar. Þrátt fyrir það kann ég breytingunni illa.

Nafnorðið vítahringur er þýðing (afar fögur að mínu mati) á enska orðinu vicious circle (‘röð atburða þar sem viðbrögð við einu atriði skapa ný vandamál eða auka hið upprunalega vandamál’).

Elstu dæmi í fórum Orðabókar Háskólans um vítahring eru frá fyrri hluta síðustu aldar. Nafnorðið víti er hins vegar hundgamalt í íslensku og getur það m.a. merkt ‘böl’, sbr. orðasambandið láta sér annars víti að varnaði (verða) (Njáls saga) og Hávamál: sjaldan verður víti vörum.

Algengt er að nota forsetningarliðinn út úr vítahringnum einan sér og þar virðist undanskilin sögnin brjótast eða komast eða önnur merkingarskyld sögn. Enn fremur er oft talað um að rjúfa vítahringinn en ekki kann ég við notkunina ?brjóta verður vítahring ofbeldisins (e. break the vicious circle of violence).

Í þáttum þessum hefur verið vikið að því sem kalla má samslátt: tveimur orðasamböndum slær saman, þeim er ruglað saman. Oftast má rekja þetta til þess að merking orðasambandanna er svipuð en einnig getur áþekkur búningur eða mynd valdið slíkum ruglingi. Skulu nú nefnd dæmi um hvort tveggja.

Í vor komu upp grunsemdir um fjárdrátt hjá fyrirtæki í Reykjavík og í dagblaði gat að líta eftirfarandi setningu: ?Við nánari eftirgrennslan innan fyrirtækisins beindust böndin að einum starfsmanni (25.5.2003).

Hér er væntanlega átti við að grunur hafi beinst að starfsmanninum en í svipaðri merkingu er kunnugt orðatiltækið böndin berast að e-m. Í orðasambandinu e-ð (athygli, grunur ...) beinist að e-m er merkingin bein en hins vegar óbein eða yfirfærð í orðatiltækinu böndin berast að e-m (‘grunur fellur á e-n, allt bendir til að e-r sé sekur’).

Uppruni orðatiltækisins er ekki ljós en elstu dæmi um nútímamyndina er frá 18. öld. Talsvert eldri er hins vegar myndin bera bönd að sér. Hún er m.a. kunn úr fornum rímum (Bjarkarímum) í merkingunni ‘koma upp um sig’ og kann líkingin að vísa til þess er maður fellir á sig grun er leiðir til handtöku hans (bönd eru lögð á hann). Halldór Halldórsson taldi að líkingin vísaði til þess er dýr eru handsömuð með reipum. Fyrri tilgátan kann að hafa það fram yfir þá síðari að í öllum dæmum sem kunn eru um þetta orðafar er vísað til manna.

Flestir munu gera skarpan mun á orðunum fylkja (liði) og fylkja sér annars vegar og flykkjast hins vegar. Myndirnar er að nokkru leyti svipaðar en vísanin er gjörólík.

Í fyrra tilvikinu er vísað til þess er mönnum er raðað eða skipað í herfylkingu fyrir bardaga eða átök (liði er fylkt) en að baki síðara dæminu er flokkur, menn flykkjast (‘hópast’) á tiltekinn stað.

Þrátt fyrir þennan skýra mun hef ég oft heyrt og séð þessu ruglað saman. Tvö nýleg dæmi (lítils háttar breytt): ?þeir sem flykktu sér á bak við Samfylkinguna (14.5.2003) [ þ.e. fylktu sér að baki Samfylkingunni] og ?Ráðamenn um heim allan flykktu sér að baki ákalli Kofi Annans (19.5.2003).

Fjölnismaðurinn alkunni, Konráð Gíslason, lét sér annt um tunguna. Honum var misboðið er henni var misþyrmt. Um þetta sagði hann: ‘Það er eins og hrækt sé framan í mig þegar ég sé eða heyri annað eins.’ Umsjónarmanni þykja þetta kjarnmikil ummæli en vafalaust mun mörgum þykja slík viðbrögð of harkaleg.

Úr handraðanum

Orðasambandið fara hjá sér merkir ‘verða feiminn, vandræðalegur’, t.d.: Stúlkan roðnaði og fór (öll) hjá sér þegar ókunni maðurinn ávarpaði hana; íþróttakappinn fór hjá sér af öllu hrósinu. - Svipað orðafar er að finna í Eyrbyggja sögu (35. kafla) en í nokkuð annarri merkingu: hann fór hjá sér [lesbrigði: mjög einn samt] og talaði við sjálfan sig ‘fara einförum, vera einn’.

Sá sem fer einförum (fer einn samt/saman) blandar ekki geði við aðra og kann að virðast einrænn eða feiminn. Merkingarþróunin ‘fara einförum/einn’ > ‘verða skrýtinn’ > ‘verða feiminn/vandræðalegur’ er því augljós. Nútímamerkingin er kunn frá fyrri hluta 16. aldar: hann fór sem hjá sér fyrir þeirra orðtak.

Morgunblaðið, 8. nóvember 2003