Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   22. nóvember 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 15. ţáttur

Íslenskt mál - 15. þáttur

Þótt gamall málsháttur segi okkur að ekki tjái að deila við dómarann er það auðvitað oft svo að menn eru misjafnlega sáttir við úrskurð dómstóla. Nýlega kvað Hæstiréttur upp úrskurð í áteknu máli og sumir voru svo óánægðir að þeir töldu að dómstóllinn ?hefði sett niður, þ.e. sett ofan.

Vitaskuld geta menn sett ýmislegt niður en það er talsverður munur á því að setja (e-ð) niður (bein merking: setja niður kartöflur; setja niður (farangur) í töskurnar) og setja ofan (‘lækka í áliti’). Þessi ruglingur er reyndar ekki alveg nýr af nálinni, ég hef oft rekist á slík dæmi á liðnum árum.

Í þessu sambandi má víkja að því að mikill munur er á notkun og merkingu atviksorðanna niður (hreyfing) og niðri (kyrrstaða) enda er málnotkun í flestum tilvikum skýr hvað þau varðar. Það hefur reyndar vakið furðu mína að ég hef alloft rekist á orðasambandið ?ná sér niður á e-m í stað ná sér niðri á e-m, þ.e. sumum finnst væntanlega að sögnin ná feli í sér hreyfingu, sbr. ná e-u niður (‘ná að skrifa e-ð’); ná sér niður (‘ná að róa sig’) og ná myndinni niður af veggnum.

Ég hygg þó að flestir geti verið sammála um að hér liggur allt annað en hreyfing að baki og myndin ?ná sér niður á e-m sé vart boðleg í vönduðu máli.

Vissulega eru þess mörg dæmi að skilningur orðasambanda sem hafa að geyma atvik-orðin niður/niðri hafi breyst í aldanna rás og þá um leið búningurinn. Ég býst t.d. við að margir kannist við að þegar orðasambandið taka niðri er notað getur komið upp óvissa.

Það eru einkum þrjár myndir sem koma til greina:

  1. Báturinn tók niður á grynningunum (‘kenndi grunns’)
  2. Báturinn tók niðri
  3. ?Bátinn tók niðri

Upprunaleg mynd er kenna/taka niður (1) og vísar hún til hreyfingar (‘taka/kenna niður í grunn/botn’) og jafnframt er orðasambandið notað persónulega (með nefnifalli = báturinn). Þessi mynd (taka niður) er t.d.algeng í þjóðsögum en hana má telja úrelta og því hef ég merkt dæmið með †.

Til gamans má geta þess að fornt og traust dæmi úr Vilhjálms sögu sjóðs bendir til þess að líkingin vísi til þess er sundmaður kennir/tekur niður(í botn) og vísar hún til hreyfingar (niður): leggjast nú að landi allir samt og var eigi langt að bíða áður þeir kenndu niður og komu því næst á land.

Í síðari alda máli má greina tvenns konar breytingar á orðasambandinu. Í fyrsta lagi er sú breyting gömul að nota niðri í stað niður en í því felst kyrrstaða (hvar) í stað hreyfingar (hvert). Elsta dæmi um þá breytingu er frá 15. öld. Telja má að þessi breyting sé um garð gengin og dæmi eins og báturinn tók niðri (2) hafi öðlast fullan þegnrétt í málinu.

Síðari breytingin er kunn úr nútíma talmáli en hún felst í því að orðasambandið er notað ópersónulega, kjarninn eða frumlagsígildið stendur þá í þolfalli: ?Bátinn tók niðri. Þessi breyting styðst ekki við málvenju en hún á sér ýmsar hliðstæður, t.d. eru nokkrar sagnir sem samkvæmt málvenju taka með sér frumlag í nefnifalli stundum notaðar með frumlagi í þolfalli eða jafnvel þágufalli, t.d.: Ég hlakka til > ?mig/mér hlakkar til og ég kvíði fyrir e-u > ?mig/mér kvíðir fyrir e-u, sbr. einnig dæmi þar sem fallanotkun er merkingargreinandi: Mig svíður í fingurinn og mér svíður móðgunin.

Úr handraðanum

Orðasambandið setja ofan merkir ‘lækka í áliti’ eins og eftirfarandi dæmi sýna:

  • Þér eruð farinn að setja ofan, fyrst þér getið fengið yður til þess að slá mönnum gullhamra
  • smeykur um að virðing manna fyrir herbúnaðinum kynni að setja ofan við slíkar gælur og ef þeir áttu ekki að setja ofan í augum heimsins.

Líkingin að baki orðasambandinu virðist ekki alveg ljós en einfaldast er að líta svo á að atviksorðið ofan (vísar til þess er farið er af hærri stað á lægri) sé hér lykilorðið og vísar þá orðasambandið til þess er sá sem situr hátt eða er á háum stalli að virðingu verður að fara lægra.

Orðasambandið á sér alllanga sögu í íslensku, tengist óbeint tiltekinni frásögn. Þeir Guðbrandur Þorláksson (Hólabiskup 1571-1627) og Jón lögmaður Jónsson áttu í löngum og hatrömmum deilum. Skömmu fyrir andlát sitt á Jón að hafa sagt: Nú skulum vér drekka dátt í kvöld, sveinar, en á morgun skal Gutti (‘Guðbrandur Þorláksson’) fá skömm og djáknar hans. Jón Ólafsson frá Grunnavík hermir svo orðin eftir Páli lögmanni Vídalín en venjulega er sagt: Nú skal Gutti setja ofan, þá mynd er t.d. að finna í sjáfsævisögu Þórðar Sveinbjarnarsonar (1851).

Mér hefur lengi þótt þessi frásögn eftirminnileg og ber þar einkum tvennt til. Hér er annars vegar hnyttilega og eftirminnilega að orði komist og hins vegar þykir mér skrýtið til þess að hugsa að andstæðingar jöfursins Guðbrands biskups skuli hafa vogað sér að kalla hann Gutta.

Morgunblaðið, 22. nóvember 2003