Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   6. desember 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 16. ţáttur

Íslenskt mál - 16. þáttur

Heimir Freyr skrifar þættinum langt og efnismikið bréf og víkur þar að mörgum áhugaverðum atriðum um íslenskt mál.

Eitt af því sem hann telur þörf á að fjalla um í þættinum er notkun viðtengingarháttar. Umsjónarmaður þáttarins er sammála Heimi um það að málefnið er brýnt og enn fremur virðist ljóst að viðtengingarháttur sækir mjög á í ákveðinni gerð setninga, t.d.:

 • ?Ég veit ekki hvort hann sé [þ.e. er] heima
 • ?Ég veit ekki hvort ég geti [þ.e. get] komið
 • ?Ég held það sé enginn Íslendingur sem vilji [þ.e. vill] ekki geta ráðið hvalveiðum
 • ?Óvíst hvort Pétur og Rúnar verði [þ.e. verða] með (í knattspyrnuleik)
 • ?Kosningabaráttan í Svíþjóð snýst um það hvort taka eigi [þ.e. á] upp evruna
 • ?Burtséð frá því hvort ásakanir samkeppnisstofnunar séu [þ.e. eru] réttar eða það takist [þ.e. tekst] yfirhöfuð að sanna sök í málinu.

Þessi dæmi eru öll fengin úr fjölmiðlum og innan hornklofa eru tilgreindar þær sagnmyndir sem umsjónarmaður kysi að nota. Dæmi sem þessi virðast mjög algeng í nútíma máli, þeir sem áhuga hafa þurfa ekki að leita lengi að hliðstæðum í fjölmiðlum.

Ef þetta er rétt bendir það annars vegar til að málnotkun sé nokkuð á reiki í slíkum tilvikum. Finnst umsjónarmanni líklegt að festa megi hendur á breytingunni, hér hljóti að mega finna skýringu.

Notkun viðtengingarháttar er talsvert flókin í íslensku og því ekkert áhlaupaverk að gera grein fyrir þeim reglum sem þar liggja að baki, allra síst í stuttu máli. Þess skal þó freistað að sýna í grófum dráttum hvernig ætla má að flestir Íslendingar noti framsöguhátt og viðtengingarhátt í ákveðinni gerð aukasetninga.

Nauðsynlegt er að víkja stuttlega að nokkrum málfræðihugtökum. Óbein ræða vísar til þess er orð einhvers eru höfð eftir og þá er ávallt notaður viðtengingarháttur og samræmi er í tíðum á milli sagnar í aðalsetningu (móðursetningu) og aukasetningu, t.d.:

   (1a) Hún segir: ‘Þetta er rétt?’ > Hún segir að þetta sé rétt
   (1b) Hún sagði: ‘Þetta er rétt?’ > Hún sagði að þetta væri rétt
   (1c) Hann spyr: ‘Er þetta rétt?’ > Hann spyr hvort þetta sé rétt
   (1d) Hann spurði: ‘Er þetta rétt?’ > Hann spurði hvort þetta væri rétt

Skáletruðu setningarnar í dæmunum kallast fallsetningar, annars vegar skýringarsetningar (að-setningar) og hins vegar spurnarsetningar (hv-setningar). Notkun hátta í dæmum sem þeim er tilgreind hafa verið er fastbundin og ætla má að Íslendingar séu sammála um hana, að minnsta kosti virðist hún ekki vera á reiki.

Sama máli gegnir um notkun hátta í að-setningum. Þar er reglan einföld, merking sagnar í móðursetningu (yfirsetningu) ræður ferðinni. Ef sögnin felur í sér vafa eða (einstaklingsbundið) álit (álíta, vona, vilja, halda, telja, finnast ...) er notaður viðtengingarháttur en annars framsöguháttur, þ.e. með sögnum sem tákna fullvissu, staðreynd eða skynjun (vita, muna, sjá, heyra, skilja ...), t.d.:

   (2a) Ég vona að þú komir, sért ánægður, sjáir að þér ...
   (2b) Ég veit að hún kemur, er ánægð, sér að sér

Það er því merking sagnar sem sker úr um hvort nota ber framsöguhátt eða viðtengingarhátt í að-setningum. Málið er dálítið flóknara í hv-setningum. Þar virðist tíð sagnar skipta mestu máli. Ef móðursetning er í nútíð er jafnan notaður framsöguháttur nema í óbeinni ræðu (t.d. með so. spyrja):

   (3a) Ég veit ekki hvort hann er heima (móðursetning í nútíð)
(3b) Hann spyr hvort þetta geti staðist/sé rétt (óbein ræða)

Ef móðursetning hv-setningar er hins vegar í þátíð þá ræður merking ferðinni og notkun hátta getur þá verið merkingargreinandi:

   (4a) Ég vissi ekki hvort hann var heima
   (4b) Ég vissi ekki hvort hann væri heima

Það er nánast eingöngu í setningum af gerðinni (3b), spurnarsetningum í nútíð sem ekki fela í sér óbeina ræðu, sem óvissu um notkun hátta gætir og þar virðist viðtengingarháttur sækja á, t.d.:

 • ?Strákurinn er að íhuga hvað hann eigi [þ.e. á] að gera
 • ?Konan er að kanna hvort tilgátan eigi [þ.e. á] við rök að styðjast
 • ?Enginn hefur sagt mér hvenær ég eigi [þ.e. á] að koma
 • ?Ég ætla að athuga hvort ég geti [þ.e. get] komið.

En hvernig skyldi standa á þessu? Mér sýnist að skýringin sé sú að þau lögmál sem gilda um notkun hátta í að-setningum (merking sagnar í móðursetningu) séu notuð í hv-setningum í nútíð þar sem þau eiga ekki við.

Rétt og skylt er að taka það fram að ofangreindar ‘reglur’ eru ekki algildar enda þykist ég þess fullviss að sumir telji einhverjar þeirra setninga sem ég hef merkt með spurningarmerki góðar og gildar og enn fremur er mér ljóst að auðvelt er að finna dæmi úr viðurkenndum textum sem brjóta í bág við reglurnar. Ég held samt að reglurnar gefi allgóða mynd af notkun hátta í fallsetningum og þær megi hafa til viðmiðunar.

Úr handraðanum

Flestir munu kannast við málsháttinn Undantekningin sannar regluna. Það getur komið sér vel að hafa hann á hraðbergi, t.d. fyrir þann sem tekur sér fyrir hendur að búa til reglur um notkun viðtengingarháttar.

Málsháttur þessi á sér samsvaranir í fjölmörgum erlendum málum, t.d.:

 • lat. exceptio probat regulam
 • e. the exception proves the rule
 • þ. Ausnahmen bestätigen (bekräftigen) die Regel
 • fr. l'exception confirme la regle
 • d. undtagelsen bekræfter regelen.

Mér hefur alltaf þótt sú speki sem málshátturinn boðar hæpin og allt annars eðlis en boðskapur málsháttarins: Engin regla er án undantekninga. Í latínu getur sögnin probare m.a. merkt ‘staðfesta, sanna’ og ‘prófa, reyna’ og er það síðari merkingin sem á hér við.

Upprunalega merkir málshátturinn ‘undantekningin reynir regluna’ en ekki ‘sannar regluna’. Þýðing latneska málsháttarins í mörgum nútímamálum mun því á misskilningi byggð.

Morgunblaðið, 6. desember 2003