Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   20. desember 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 17. ţáttur

Íslenskt mál - 17. þáttur

Í síðasta þætti var vikið að bréfi frá Heimi Frey. Eitt þeirra atriða sem hann nefnir er notkun forsetningarinnar varðandi en í bréfinu segir: ‘Kunningja mínum var kennt í íslensku í grunnskóla að það sé rangt að segja ‘varðandi’ þetta og hitt. Sennilega í samhengi svipuðu og þessu: Já, einmitt, varðandi verðbólguna ... - þar sem svo sem væri hægt að segja ‘hvað verðbólguna varðar’ eða ‘úr því að minnst er á verðbólguna.’ ... Það minnir ofurlítið á ensku ‘concerning’, spurning hvort það sé ástæðan.’

Ég verð að viðurkenna að þessi spurning kom flatt upp á mig. Ég hef aldrei íhugað þetta atriði né heldur hefur mér dottið í hug að eitthvað gæti verið athugavert við að nota þessa forsetningu. En nú var áhugi minn vakinn.

Elsta dæmi sem ég fann í fórum mínum með forsetningunni varðandi (‘er varðar, snertir’) er frá árinu 1947: Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum. Bréf til Gríms Thomsen og varðandi hann. Þetta dæmi finnst mér ágætt og það er talsverður munur á bréfum um Grím Thomsen og bréfum varðandi Grím Thomsen.

Elstu dæmi í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru frá svipuðum tíma: þjóðin njóti öryggis varðandi tjáningu og trúfrelsi (OHR (1946)) og samþykktir varðandi starfsemi bandalagsins (OHR (1957)) og hér finnst mér einnig vera nokkur merkingarmunur.

Í Íslenskri orðabók er varðandi talið merkja ‘viðvíkjandi, sem varðar, sem viðkemur’ og tilgreint sem dæmi: varðandi þetta atriði (bls. 1695). Allt ber hér að sama brunni. Þótt forsetningin varðandi eigi sér merkingarlegar samsvaranir í öðrum málum, t.d. d. angående, e. concerning og þ. betreffend, er ekki ástæða til að fordæma hana né ætla að um bein áhrif sé að ræða heldur mun hún hafa orðið til í íslensku á fyrri hluta 20. aldar til að tákna sérstök tengsl, hún gegnir sérstöku hlutverki og er ekki ávallt sömu merkingar og forsetningin um, þótt svo sé reyndar oft:

 • skiptast á upplýsingum varðandi (‘um’) tilboð í viðskipti (2003)
 • Unnið er að frumskýrslu varðandi (‘um’) slysið (2003)
 • ómögulegt er að fá nokkuð upp úr manninum varðandi (‘um’) ábyrgð hans á meintu samsæri (2003)
 • NN var ekki með í ráðum varðandi (‘um’) könnunina (2003)


Hitt er svo annað mál að mér virðist hlaupinn nokkur ofvöxtur í notkun forsetningar--innar varðandi. Ekki þarf annað en lesa dagblöðin eða leita í gagnagrunnum til að sjá það. Óþarft er að tefla hér fram reglum um notkun hennar, um það atriði verða menn að treysta eigin málkennd, en ofnotkun er ekki til fyrirmyndar um þetta atriði frekar en önnur.

Þetta leiðir hugann að því að íslensk tunga breytist stöðugt, m.a. með því að við bætast nýjar forsetningar, stundum læðast þær að okkur án þess að menn veiti því sérstaka athygli, eins og mér virðist forsetningin varðandi hafa gert. Af sama toga eru t.d. forsetningarnar

 • samkvæmt e-u (18. öld)
 • viðvíkjandi e-u (17. öld)
 • á við e-ð (18. öld)
 • á móts við e-ð (16. öld)
 • kringum e-ð (17. öld) [< í hring um]
 • andspænis e-u (17. öld) [< andspænis á móti]
 • gagnvart e-u (15. öld) [< gagnvert]
 • á bak við e-ð (16. öld)
 • o.s.frv.


Enga þessara forsetninga er að finna í fornu máli en naumast getur leikið vafi á því að þær hafa öðlast fullan þegnrétt í íslensku.

Flestir munu gera skýran mun á eftirmála og eftirmálum. Eftirmáli, kk., merkir ‘niðurlagsorð, texti aftan við meginmál’ en eftirmál, hk. (oftast flt.) merkir ‘eftirköst, afleiðing, rekistefna vegna atferlis’.

Eftirmáli er andstæða formála og eftir vísar þar til raðar, til þess sem kemur á eftir e-u. Í nafnorðinu eftirmál vísar eftir hins vegar til tíma, þess sem kemur eftir e-ð. Hér er því hvort tveggja ólíkt, heildarmerking orðanna og hlutverk forliðarins eftir, en samt er þessu oft ruglað saman, t.d.:

 • ?Konan hafi gefið það í skyn að hún myndi gera allt, fyrst til að stöðva sýninguna og svo að það yrðu eftirmálar [þ.e. eftirmál]
 • ?Eftirmáli [þ.e. eftirmál] (fyrirsögn greinar þar sem fjallað var um pústra á milli leikmanna ensks liðs og tyrknesks
 • ?Formaður flokksins fagnar niðurstöðu dómsins og á ekki von á að eftirmálar [þ.e. eftirmál] verði vegna málsins
 • ?Aðdragandi og eftirmálar [þ.e. eftirmál] sviplegs dauða bresks vopnasérfræðings.


Dæmi af þessum toga eru býsna algeng í nútímamáli en elstu dæmi um breytinguna, ef breytingu skyldi kalla, munu vart vera eldri en 15-20 ára.

Úr handraðanum

Bein merking orðasambandsins sjást ekki fyrir er ‘skyggnast ekki um fyrir framan sig (†fyrir sig fram)’ og yfirfærð merking er ‘fara ekki varlega.’

Bein merking er ekki notuð í nútímamáli. Yfirfærð merking (‘skeyta (e-u) engu; gera e-ð meir af kappi en forsjá’) er algeng í fornu máli, t.d.:

 • en þó er Agli of mjög ættgengt að sjást of lítt fyrir að verða fyrir reiði konungs (Egla, 45.k.)
 • hitt myndi mitt ráð að hrapa ekki ferðinni, sjást heldur fyrir (Egla, 75.k.)
 • Þessi var herðimaður (‘harðskeyttur maður’) mikill, er svo rösklega vann að og sást ekki fyrir (Njála, 155.k.).


Í Snorra-Eddu er að finna skemmtilegt dæmi um orðasambandið: það er orðtak, að sá er týhraustur, er um fram er aðra menn og ekki sést fyrir. - Tengsl á milli beinnar og yfirfærðrar merkingar eru augljós: sá sem ekki athugar sinn gang (sést ekki fyrir), er ógætinn, óvarkár, skeytir engu. Af sama meiði og orðasambandið eru lýsingarorðin forsjáll ‘fyrirhyggjusamur’ og ófyrirleitinn ‘sá sem ekki sést fyrir > ósvífinn’ enda er lo. fyrirleitinn kunnugt í fornu máli í merkingunni ‘athugull, gætinn’.

Morgunblaðið, 20. desember 2003