Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   3. janúar 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 18. ţáttur

Íslenskt mál - 18. þáttur

Margir munu kannast við það að upp getur komið nokkur óvissa um tölumynd sagnorðs sem stendur með samsettu frumlagi. Væntanlega eru þó flestir sammála um að rétt er að segja:

 • A. Bíllinn og flugvélin eru biluð

 • B. Kaffi og tóbak er óhollt

Í dæmi A er um að ræða tvo teljanlega hluti og þá eru þeir lagðir saman og notuð fleirtala og lýsingarorðið (biluð) stendur í hvorugkyni fleirtölu þar sem nafnorðin eru ósamstæð að kyni (kk. og kvk.). Í dæmi B hins vegar eru báðir liðir frumlagsins óteljanlegir og er í slíkum tilvikum jafnan notuð eintala og lýsingarorð, ef um það er að ræða, samræmist oftast síðari liðnum.

Ég hef veitt því athygli að regla B virðist eiga nokkuð erfitt uppdráttar í nútímamáli, sbr. eftirfarandi dæmi:

 • ?Verslun og þjónusta hafa [þ.e. hefur] staðið í stað
 • ?Örvænting og vonleysi valda [þ.e. veldur] flóttanum
 • ?Óttinn og sorgin buguðu [þ.e. bugaði] hann
 • ?Hungrið og kuldinn surfu [þ.e. svarf]
 • ?Eyðilegging og dauði blöstu [þ.e. blasti] við
 • ?Bush og ríkisstjórn hans voru búin [þ.e. var búinn] að samþykkja ákvörðunina
 • ?Ég kemst í hátíðaskap, / ef úti eru [þ.e. er] snjór og krap.


Dæmi af þessum toga eru algeng í nútímamáli, t.d. í fjölmiðlum, og þau eru mismunandi að því leyti að einstakir liðir frumlagsins geta verið ósamstæðir, t.d. að kyni (Vöxtur og aflið víða fer / vitið þó fyrir öllu er) eða tölu (flokkadrættir og ósamlyndi magnaðist), svo að nokkuð sé nefnt.

Af þessu leiðir enn fremur að slík dæmi eru misvond að mati undirritaðs, sum eru með öllu ótæk en önnur eru á mörkunum. Fjölmörg dæmi úr elstu heimildum og fram til nútímamáls staðfesta reglu B, t.d.:

 • Órækt og gáleysi stendur mest fyrir iðrun synda
 • Ánauð og ófrelsi gekk þar yfir allt fólk
 • Fjúk og frost gekk alla nóttina
 • Fals og flærð er undir þessu boði
 • Auðna og hamingja mun ráða
 • þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður
 • Allt hans megin og máttur var brott horfinn og drottnar nú dramb og ofsi en frelsi og falsleysi er niður brotið.


Eins og áður gat virðist regla B eiga erfitt uppdráttar í nútímamáli enda er hún að því leyti sérstök að hún á sér ekki hliðstæðu í grannmálum okkar. Eftir því sem ég best veit er ávallt notuð samlagningarreglan í ensku, dönsku og þýsku eins og áhugasamir lesendur munu sjálfir geta gengið úr skugga um.

Íslenska er að þessu leyti eins og í mörgu öðru íhaldssamari en grannmálin. Þetta kann að valda einhverju um að regla B á í vök að verjast en þó held ég að meira máli skipti að oft er unnt að persónugera frumlagið og þá er notuð fleirtala.

Um þetta er að finna einstök dæmi í elsta máli og allmörg í síðari alda máli, t.d.:

 • Hjarta mitt og hold fögnuðu í guði lifanda (s12 = síðari hluti 12. aldar)
 • Jörðin, loftið og lögurinn vegsama hann (m14)
 • Spott og spé koma mörgum á kné (s17)
 • Spott og spé kemur mörgum á kné (f19)
 • hiti og kuldi léku lausum hala (f19)
 • tæring og hósti eru þessu samfara (f19)


Þrátt fyrir slík dæmi virðist sambeyging í tölu og kyni í stórum dráttum vera í föstum skorðum í íslensku, þar skipta reglur A og B mestu máli, þótt frávik séu vissulega mörg (undantekningar sem reyna (‘prófa’) reglurnar tvær).

Úr handraðanum

Jón prestur Egilsson (f. 1548, d. um 1634) hefur ritað Biskupaannála en þeir eru m.a. ágæt heimild um Jón biskup Arason og þar er að finna lýsingu á aðdraganda þess að ákveðið var að taka hann og syni hans af lífi. Um þetta segir í annálum Jóns Egilssonar:

Síra Jón Bjarnarson ansar þá til: ‘Eg em fávísastur af yður öllum, og kann eg ráð til að geyma þá.’ Þeir sögðust það vilja heyra. Hann sagði þá: ‘Öxin og jörðin geymir þá best.’

Í fleygu tilsvari Jóns Bjarnarsonar er síðari liður frumlagsins jörðin og í merkingunni ‘mold, jarðvegur’ er það orð ekki til í fleirtölu. Það er því í góðu samræmi við reglu B að nota hér eintölumyndina geymir eins og Jón Egilsson (eða Jón Bjarnarson) gerir og í sömu átt bendir yngri heimild um sama atburð.

Ég þykist hins vegar viss um að í nútímamáli muni ýmsir kjósa að persónugera öxina og jörðina og nota þá fleirtölumyndina geyma. Hér virðast því naumast efni til að telja aðra myndina betri eða réttari en hina, þetta verða menn að eiga við málkennd sína.

Morgunblaðið, 3. janúar 2004