Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   15. janúar 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 43. ţáttur

Íslenskt mál - 43. þáttur

Hugtökin dvöl (á einhverjum stað) og hreyfing (á einhvern stað eða af einhverjum stað) skipta miklu máli í íslensku og þau koma fram í ýmsum myndum.

Ætla má að Íslendingar drekki þessi atriði í sig með móðurmjólkinni, með öðrum orðum: þau eru runnin þeim í merg og blóð. Allir eru t.d. sammála um að við leggjum dúk á borðið, að því loknu er dúkurinn á borðinu uns við kjósum að taka hann af því. Með sama hætti geta stjórnvöld lagt skatt á þegna sína eða á tiltekinn vöruflokk (bækur) og slíkur skattur er þá á vörunni (bókum) uns stjórnvöld ákveða að aflétta honum af vörunni/bókunum. - Með vísan til þess kemur það nokkuð á óvart er svo er komist að orði að stjórnvöld hyggist lækka virðisaukaskatt á matvæli (28. 11. 2004). Hér hefði verið eðlilegt og í samræmi við málkerfið að tala um að lækka virðisaukaskatt á matvælum (enda er sá skattur nú þegar á þeim sem öðru).

Af svipuðum toga eru orðasamböndin hafa trú á einhverjum og lýsa trausti á einhvern. Í fyrra tilvikinu felur orðasambandið í sér kyrrstöðu en í því síðara er um að ræða breytingu eða hreyfingu - alveg eins og allir eru væntanlega sammála um að við segjum: Maðurinn lýsir (með ljósi) á vegginn. Þessi merkingarmunur kemur fram í notkun fallanna eins og sjá má. Íslendingar eru í langflestum tilvikum sammála um notkun falla í orðasamböndum hliðstæðum þeim sem að ofan gat.

Þó er rétt og skylt að geta þess að skilningur manna getur breyst og sagan sýnir okkur að hann hefur oft breyst. Sem dæmi má nefna að í nútímamáli tölum við um að hjakka í sama farinu (vísar til kyrrstöðu) en áður var sagt hjakka í sama farið (vísar til þess er sláttumaður slær linkulega). Umsjónarmanni finnst ýmislegt benda til þess að málskilningur manna á sögnunum lýsa yfir og lýsa kunni að vera mismunandi. Sjálfum finnst honum eðilegt að lýsa yfir trausti á einhverjum og lýsa trausti á einhvern. Af þessu leiðir að hann gerir mun á samböndunum lýsa yfir trausti á einhverjum og lýsa trausti á einhvern og orðasambandið lýsa trausti á einhverjum tæki hann sér aldrei í munn.

Það er engan veginn víst að allir geti fallist á þetta. - Nýlega var borgarstjórinn í Reykjavík í brennidepli og þá var ýmist að menn lýstu trausti á Þórólfi eða Þórólf eins og umsjónarmanni finnst eðlilegt, málfarslega að sjálfsögðu þar sem stjórnmál eru ekki til umræðu í pistli um íslenskt mál.

Önnur dæmi af svipuðum toga eru t.d.: ræða (um) traust á einstaka ráðherra [þ.e. á einstökum ráðherrum]; lýsa vantrausti á allri stjórninni [þ.e. á alla stjórnina] og aflétta ferðabanni á palestínumönnum [þ.e. létta ferðabanni af palestínumönnum]. - Innan hornklofa er sýnd sú málbeiting sem umsjónarmaður hefur vanist og tamið sér en hverjum og einum ætti að vera í lófa lagið að bera þetta undir sína eigin málkennd.

Umsjónarmaður las nýlega í Morgunblaðinu að talið væri að þrjár tegundir skæruliða væru að störfum í Írak, þ.e. tækifærissinnar, glæpagengi og öfgamenn (Mbl. 24.9.04). - Hér er talað virðulega um svívirðilegt athæfi en auðvitað ber umsjónarmanni að vera jákvæður. Sums staðar er gerður starfslokasamningur við óæskilega starfsmenn. Hver veit nema gera mætti rausnarlegan starfslokasamning við þessa kauða?

Í Fréttablaðinu (18.11.04) var fjallað um mann sem var svo örvæntingarfullur eftir slys sem hann lenti í að hann var á barmi sjálfsmorðs eins og þar stóð. - Þetta þekkir umsjónarmaður ekki en hefur hins vegar oft heyrt menn komast svo að orði að þeir séu á barmi glötunar með vísun til þess að þeir séu nærri því að steypast í glötun.

Orðasambandið vera á barmi glötunar er reyndar af erlendum rótum en á sér íslenska samsvörun, að vísu í nokkuð annarri merkingu, oft með vísun til fjárhagslegra þrenginga, t.d.: vera á heljarþröminni (vera á heljar þremi) og koma landinu á heljarþrömina. Hér merkir þröm, kvk. (†þrömur, kk.) ‘brún, barmur’ og bein merking er þá ‘vera á barmi/brún glötunar’.

Svipuð hugsun liggur að baki ýmsum orðasamböndum, t.d. steypa e-m/sér í glötun. - Flestir ættu því að vera sammála um að það er fráleitt að tala um að einhver sé á barmi sjálfsmorðs en enn hlálegra er þó orðasambandið vera á barmi heimsfrægðar (Mbl. 20.5.2001).

Orðasambandið það er djúpt á einhverju ‘lengi þarf að bíða e-s eða leita að e-u; e-ð kemur seint fram’ vísar trúlega til dýptarmælinga, þ.e. lóðað er á einhverju. Guðbrandur Þorláksson kvartar t.d. yfir því að djúpt sé á sannleikanum hjá manni nokkrum. Andstæða þessa orðasambands er það er grunnt á einhverju og flestir munu t.d. kannast við að grunnt geti verið á því góða (með einhverjum/á milli einhverra) en hér er vísað til þess að vinátta einhverra standi grunnt eins og segir í Egils sögu. - Í öllum tilvikum vísa líkingarnar til kyrrstöðu, þ.e. grunnt/djúpt á einhverju. Eftirfarandi dæmi styðst því ekki við málvenju: Þeir töldu að djúpt væri á þessar upplýsingar í bókhaldi félaganna (Fréttabl 13. 11. 04).

Úr handraðanum

Sögnin að tróna ( < d. trone, sbr. trónn 'hásæti' ) beygist jafnan svo: tróna - tróndi/-trónaði - trónað.

Nútíð eintölu beygist ýmist: ég tróni; þú trónir; hann/hún/það trónir eða ég tróna; þú trónar; hann/hún/það trónar.

Af því leiðir að við segjum t.d.: Liðið trónir/trónar eitt á toppnum. Þátíðin er einnig, eins og fram hefur komið, tvöföld í roðinu, oftast er sagt hann/hún tróndi en einnig hann/hún trónaði. - Það er auðvitað engin tilviljun að mörgum finnst nútíðin trónir eðlilegri en trónar. Ætla má að það sé merkingin sem hér togar í, sbr. gnæfir, vakir, starir, gapir og ýmsar aðrar ir-sagnir sem vísa til ástands.

Hins vegar enda fjölmargar sagnir í íslensku á -aði í þt.et. (tónaði, prjónaði o.fl.) og allar enda þær á -ar í 3.p.et.nt. (tónar, prjónar).

Það er því við því að búast að sumum finnist aðeins myndin trónar vera rétt og í fullu samræmi við þátíðarmyndina trónaði. En hér er á ferðinni áhrifsbreyting, sem felst í því að sögnin tróna er löguð að beygingarmynstri stærsta flokks íslenskra sagna, þ.e. ar-sagna (trónir > trónar). Hér sem oftar er það málvenja og málkennd sem ræður ferðinni. Umsjónarmaður hefur vanist myndinni trónir og þátíðarmyndin trónaði er honum tamari en tróndi.

Í Íslenskri orðabók er lýsingin önnur: tróna -aði/(-di) (nt. trónar/(-ir)). Hér kemur því tvennt til greina trónir eða trónar og hafa formælendur hvors um sig nokkuð til síns máls.

Morgunblaðið, 15. janúar 2005