Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   1. apríl 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 74. ţáttur

Eiður Guðnason fylgist vel með fjölmiðlum og hefur oft bent umsjónarmanni á sitthvað sem betur má fara á þeim vettvangi. Tvö nýleg dæmi frá honum sýna ofnotkun fleirtölu (feitletranir eru frá umsjónarmanni): Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, og Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, hittust á morgunverðarfundi í Kaíró í dag þar sem þeir ræddu þróanir á svæðinu og samskipti þjóðanna (Mbl.is.17.1.06) og Gengi bréfa deCode hækkuðu talsvert á NASDAQ-markaðinum í Bandaríkjunum í dag. (NFS 17.1.06). Í síðara dæminu kunna bréfin (flt.) að hafa haft áhrif.

Þriðja dæmið frá Eiði er eftirfarandi: [NN] ... segir skattbyrði þeirra lægst launuðu hafa aukist um sem nemur tæpum tveimur mánaðarlaunum þeirra á ári síðustu tíu ár (Rúv 18.1.06). Eiður bendir réttilega á að hér muni átt við tvenn mánaðarlaun enda eru laun fleirtöluorð [há, lág, lítil, léleg, rífleg ... laun].

Loks telur Eiður ‘sérkennilegt, svo að ekki sé meira sagt’, að komast svo að orði að menn verði fyrir afbroti: Margir hafa orðið fyrir afbroti. Í könnun, sem gerð var hér á landi á síðasta ári, kom fram að rúmlega helmingur svarenda í könnun eða einhver á heimili þeirra hafði orðið fyrir afbroti á síðustu fimm árum, þar af 22 prósent árið 2004 (mbl.is.12.1.06). Umsjónarmaður er sammála Eiði, og finnst honum reyndar dæmið nánast spaugilegt.

Umsjónarmaður hefur áður vikið að því að sagnarsamabandið koma að e-u ‘eiga aðild að e-u, tengjast e-u’ virðist vera í tísku um þessar mundir. Dæmi úr fjölmiðlum eru fjölmörg, t.d.: segir að fyrirliggjandi gögn bendi til þess að Sýrlendingar hafið komið að morðinu ‘verið viðriðnir morðið’; koma að viðskiptum við fyrirtæki ‘tengjast’; koma að útgáfu (skuldabréfa) ‘eiga hlut að’ og koma að ákvörðun. Umsjónarmaður sér engan ávinning að þessu nýmæli, finnst slíkt orðafar fremur óljóst, sbr. síðasta dæmið. Ekki eykst skýrleikinn við notkun samsvarandi nafnorðs (hafa aðkomu að e-u), t.d.: sökum þess að heilbrigðisstarfsmaður hafi haft aðkomu að rannsókninni (Mbl. 21.3.06).

Fallanotkun með orðasambandinu eitra fyrir virðist nokkuð á reiki í íslensku. Ef merkingin er bein er oftast notað þolfall, t.d. eitra fyrir refinn/varginn. Hér virðist vísun til hreyfingar liggja að baki, sbr. leggja e-ð fyrir e-n ( < leggja eitur fyrir refinn). Orðasambandið eitra (e-ð) fyrir e-m getur hins vegar vísað til óþágu, t.d.: eitra andrúmsloftið fyrir e-m, sbr. spilla (e-u) fyrir e-m, skemma (e-ð) fyrir e-m og fjölmargar aðrar hliðstæður. Þessi munur er þó ekki alltaf skýr og í nútímamáli virðist notkun þágufalls fara í vöxt, t.d.: Hún var búin að eitra fyrir honum [matinn] í þrjá mánuði; Sovétmenn óttuðust að eitrað hefði verið fyrir heimsmeistaranum í einvíginu við Bobby Fischer; eitra fyrir þörungum og Má eitra fyrir börnum? (með tóbaki). — Í eftirfarandi dæmum virðist umsjónarmanni merkingin vera bein: Eitraði fyrir keppinautum barna sinna (Frbl. 10.3.06) og Hugðust eitra fyrir fótboltafíkla (Mbl. 26.3.06).

Nafnorðið fólk er eintöluorð þótt merkingin vísi til fleirtölu. Í íslensku fer sambeyging jafnan eftir mynd (formi) en ekki eftir merkingu og því getur eftirfarandi dæmi ekki talist rétt: starfsfólk frá nýju aðildarríkjunum tíu léttu undir þar sem skortur var á vinnuafli og stuðluðu að ... (Blaðið 25.3.06).

Það er furðu algengt að föstum orðasamböndum sé ruglað saman. Flestir munu t.d. þekkja orðasamböndin stöðva leka, setja undir lekann og stoppa í gatið og mörg fleiri svipaðrar merkingar. Nýtt er að unnt sé að segja eða skrifa: Það þurfti að stoppa fyrir lekann (Mbl. 3.2.06).

Menn geta lent í ýmsu, t.d. í vandræðum (með e-ð) eða í skömm með e-ð. Venjulega verða menn fyrir áfalli en nýlega las umsjónarmaður í auglýsingu að menn gætu einnig lent í áföllum (líkt og vandræðum). Enn furðulegra er þó að lesa: Og [biskupinn] er lentur fyrir dómstólum (Frbl. 6.1.06).

Úr handraðanum

Í skáldsögu Jóns Thoroddsens, Manni og konu, segir frá því er Sigvaldi prestur var að undirbúa stólræðu. Hann blaðaði í hefti sem hafði að geyma gamlar ræður fannst honum það galli á gjöf Njarðar að tvö eða þrjú blöð vantaði aftan af ræðunni sem hann hugðist nota en síðan sagði hann: en látum samt sjá, hér getur verið amen eftir efninu. – Hér merkir eftir ‘samkvæmt; með tilliti til’ og til þessa vísar orðatiltækið setja/segja amen eftir efninu ‘binda (skyndilega) enda á e-ð; ljúka e-u’. Hér gengur alls ekki að nota forsetninguna á eftir í stað eftir. Eftirfarandi dæmi er því ekki í samræmi við málvenju: Nú ætti bara að jarða hugmyndina um tvöfalt heilbrigðiskerfi og segja amen á eftir efninu (Mbl. 23.3.06).