Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   18. mars 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 73. ţáttur

Í umræðu um íslenskt mál undanfarnar vikur hefur því oft verið haldið fram að beygingarkerfi íslensku sé í molum. Yfirlýsingar í þessa veru koma umsjónarmanni á óvart og eru reyndar ekki í samræmi við það sem hann þykist vita. Um alllangt skeið hef ég leitast við að fylgjast með málnotkun og breytingum áhenni. Mér til glöggvunar hef ég safnað dæmum úr mæltu máli og rituðu og flokkað álitamálin eftir efni, t.d. orðfræði, beygingarfræði, setningafræði, hljóðfræði, erlend áhrif og framsetning. Flest dæmanna sem ég hef safnað eru af sviði setningafræði en einnig falla fjölmörg undir orðfræði og erlend áhrif. Hins vegar falla fremur fá dæmi undir beygingarfræði. M. a. með vísan til þessa telur undirritaður að íslensk beygingarfræði sé traust og breytingar á sviði hennar séu óverulegar — en öðru máli gegnir um setningafræði (sambeygingu, samræmi o.fl.). En nú skal vikið að nokkrum dæmum um óreglu í beygingu.

Nafnorðið hundrað beygist jafnan svo: hundrað-hundrað-hundraði-hundraðs; hundruð-hundruð-hundruðum-hundraða, hk. Úr talmáli er kunn fleirtölumyndin ?hundruðir og á hún rætur að rekja til fleirtölumyndanna milljónir, þúsundir. Enn fremur bregður myndinni ?hundruða (ef.flt.) alloft fyrir og er hún í samræmi við flt.-myndina ?hundruðir. Eftirfarandi dæmi samræmast ekki málvenju: Þeir notist við úrelt kort og erfitt sé að skilja hvert þær hundruðið [þau hundruð] milljóna sem lagðar eru í stofnunina fari (Blaðið 7.1.06);

Hefur hundruð þúsundum [hundruðum þúsunda] króna verið stolið með þessum hætti (Frbl. 10.2.06) og ... í göngu hundruða [hundraða] þúsunda trúðara sjía-múslima (Frbl. 10.2.06).

Nafnorðið breyting (og önnur orð sem enda á -ing) beygist svo: breyting-breytingu/(breyting)-breytingu-breytingar; breytingar-breytingar-breytingum-breytinga, kvk.

Þolfallsmyndin breyting er forn og aðeins notuð í hátíðlegu máli (frumvarp til laga um breyting á lögum). Í nútímamáli gætir þess hins vegar nokkuð að notaðar séu ef.-myndir af gerðinni breytingu og kann þar að gæta áhrifa frá veikum kvenkynsorðum. Eftirfarandi samræmast því ekki málvenju: Veginum er lokað vegna lagningu [lagningar] bundins slitlags (2004); Frá því að starf við framkvæmd styttingu [styttingar] fór af stað fyrir hálfum öðrum áratug (27.1.06) og skuldir vegna Flugstöðvarinnar og byggingu [byggingar] hennar (26.6.05).

Nafnorðið brún er nokkuð margbrotið í beygingu. Í nútímamáli beygist það jafnan svo: brún-brún-brún-brúnar; brúnir/brýn-brúnir/brýn-brúnum-brúna, kvk. Fleirtölumyndin brýr er kunn frá 17. öld en er ekki talin rétt. Hana má rekja til þess að fleirtalan brýnnar [af brún] og brýrnar [af brú] falla saman í framburði: bríddnar. Í nútímamáli getum við sagt hvort sem er: mála á sér augnabrúnirnar eða mála á sér augnabrýnnar (ekki augabýrnar). Fleirtölumyndin brýn er notuð í föstum orðasamböndum, t.d.: bera e-m e-ð á brýn; hnykla brýnnar; láta brýnnar síga og setja/hleypa í brýnnar. — Eftirfarandi dæmi samræmist hins vegar ekki málvenju: hnykla brýr (Mbl. 15.1.06).

Önnur dæmi um frávik frá beygingarreglum málsins eru auðfundin, t.d.: var í gær dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa aflað fé [fjár] með ólöglegum hætti fyrir baráttu föðurs [föður] síns um formannsembætti (Frbl. 15.2.06); í ljósi misheppnaðs samningafunds [-fundar] í Washington (Sjónv. 20.10.05) og Líkt og risastór hendi [hönd] væri að hrista húsið (Frbl. 25.10.05).

Fleyguðu (tvíyrtu) fornöfnin hver annar (fleiri en tveir) og hvor annar (tveir) eru að sumu leyti vandmeðfarin. Samkvæmt málvenju sambeygist fyrri liðurinn jafnan því orði sem hann vísar til, t.d.: Mennirnir tveir þekkja hvor annan. Í nútímamáli er stundum farið með þessi fornöfn sem eina heild, fyrri liðurinn beygist þá með síðari liðnum, t.d.: ?Mennirnir tveir þekkja hvorn annan. Dæmi af þessum toga eru eftirfarandi: taka þannig á mistökum að starfsmenn læri af þeim og læri af mistökum hvers annars [og hver læri af mistökum annars] (Mbl. 31.1.06);Í stjórnmálum eru allir að svíkja hvern [hver] annan (Blaðið 19.9.05); láta þær [hryssurnar] kynnast hverjar [hver] annarri (Sjónv. 7.11.05); Guð hefur sætt heiminn við sig og gerst einn af okkur svo að við megum kannast hvað [hvert] við annað (Frbl. 1.12. 05) og Menn vissu alltaf hvar þeir höfðu hvern [hver] annan (Blaðið 4.2.06).

Í dæmunum hér að ofan vísar hver/hvor til nefnifalls (frumlags) og eru slík dæmi algengust í nútímamáli. Sambeygingu er vitaskuld haldið ef viðmiðunarorðið stendur í aukafalli, t.d.: Ég geng út frá því að þeim [Friðrik og Mary] þyki vænt um hvort annað [hvoru um annað] (Blaðið 5.11.05).

Úr handraðanum

Í Ólafs sögu helga segir frá því að konungur áseildist Grímsey. Sumir tóku þessari málaleitan vel en fræg eru viðbrögð Einars þveræings. Hann sagði (með nútíma stafsetningu): „En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er engi hlutur fluttur, sá er til matfanga er, þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ég mörgum kotbóndunum munu þykkja verða þröngt fyrir durum“. Þar með lauk málinu: „var öll alþýða snúin með einu samþykki, að þetta skyldi eigi fást.“ Þessa frásögn er víða að finna í fornu máli og til hennar má rekja orðasambandið þröngt er fyrir dyrum eða e-m þykir þröngt fyrir dyrum. Það lifir enn góðu lífi í nútímamáli, t.d.: yrði þá þröngt fyrir dyrum hér ... ef vaxtastefnan gengi þvert á aðstæður í efnahagslífi okkar (Mbl. 14.10.05).