Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. janúar 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 19. ţáttur

Íslenskt mál - 19. þáttur

Í pistlum mínum hef ég alloft vikið að notkun forsetninga og því kerfi sem að baki liggur.

Forsetningarnar á og í vísa t.d. til hreyfingar ef þær stýra þolfalli (leggjast í rúmið, leggjast á gólfið) en til kyrrstöðu (dvalar á stað) ef þær stýra þágufalli (liggja í rúminu; liggja á gólfinu). Hreyfing getur verið margs konar, m.a. á stað (hvert) og af stað (hvaðan).

Örlítið brot af því forsetningakerfi sem ætla má að Íslendingar drekki í sig með móðurmjólkinni má því sýna svo:

Hvert

Hvar

Hvaðan

á+þf. (á gólfið)

á+þgf. (á gólfinu)

af+þgf. (af gólfinu)

í+þf. (í rúmið)

í+þgf. (í rúminu)

úr+þgf. (úr rúminu)

Segja má að slíkir forsetningarliðir gegni ákveðnu merkingarhlutverki, þ.e. á+þf. ‘hreyfing (hvert)’, á+þgf. ‘dvöl’ o.s.frv., og eru slík vensl afar virk í íslensku enda blasa þau við nánast hvar sem gripið er niður í texta. Með forsetningum eru oft notuð atviksorð, þeim til fulltingis eða til að kveða nánar á um staðinn/hreyfinguna, t.d.:

Hvert

Hvar

Hvaðan

inn

inni

innan

út

úti

utan

upp

uppi

ofan

niður

niðri

neðan

fram

frammi

framan

Með forsetningunum á og í mynda slík atviksorð oft eina heild, t.d.:

 • fara inn í stofu
 • sitja inni í stofu
 • fara út í myrkrið
 • bíða úti í myrkrinu
 • koma utan úr myrkrinu
 • fara upp á loft
 • búa uppi á lofti
 • koma ofan af lofti
 • fara niður í kjallara
 • vera niðri í kjallara
 • koma neðan úr kjallara
 • fara fram á gang
 • bíða frammi á gangi
 • koma framan af ganginum
 • o.s.frv.


Í flestum tilvikum er málnotkun í föstum skorðum hvað þetta varðar og því kemur mér á óvart að lesa í textavarpi og dagblöðum að ?kona út í bæ hafi haft áhrif á afgreiðslu tiltekins máls á Alþingi, samkvæmt málvenju væri eðlilegt að tala um konu úti í bæ.

Í nokkrum tilvikum eiga þó ofangreindar reglur ekki við og skal minnst á tvö slík. Í fyrsta lagi er það oft svo að atviksorðið stendur með sagnorðinu en ekki forsetningunni. Það þarf t.d. ekki langrar umhugsunar við til að sjá að það er mikill munur á því að komast niður í reikningi og komast niður í holuna.

Í fyrra tilvikinu stendur atviksorðið niður með komast en í því síðara með forsetningunni í. Þess eru því fjölmörg dæmi að ‘hreyfimynd’ atviksorðs (inn, út, upp, niður, fram ...) sé notuð með í/á+þgf., t.d.:

 • fitja upp á e-u
 • brydda upp á nýjungum
 • læsa e-ð niður í kistunni
 • grípa niður í bók
 • geta upp á e-u
 • stinga upp á e-u
 • hafa upp á e-u
 • o.s.frv. 

 

Af sama meiði eru orðatiltækin standa upp í hárinu á e-m (þ.e. standa upp í hárinu á e-m, ekki standa uppi í hárinu á e-m) og hver höndin er upp á móti annarri (þ.e. er upp ‘er upprétt’ en ekki er uppi á móti) en í þeim er oft notuð (ranglega) lengri myndin uppi, þ.e. þeim sem það gera finnst þau væntanlega vísa til dvalar eða kyrrstöðu.

Í öðru lagi ber þess að gæta að reglurnar um dvöl/hreyfingu eiga ekki við um forsetninguna við. Það styðst því hvorki við framburð, málvenju né uppruna að segja ?búast má við rigningu úti við ströndina.

Ætla má að rekja megi slík dæmi til ofvöndunar, mönnum finnst forsetningarliðurinn við ströndina vísa til dvalar (hvar) og því beri að nota lengri mynd atviksorðsins, líkt og í dæmum með fs. á/í, t.d.: niðri á ströndinni, niðri í fjöru o.s.frv. Orðasambandið út við ströndina er hliðstætt ýmsum öðrum samböndum, t.d. inn til landsins, upp til dala og fram til fjalla og væntanlega dettur engum í hug að nota þar lengri mynd atviksorðsins (?inni til landsins).

Hér er ekki svigrúm til að fjalla rækilega um þetta atriði, enda ætti það að vera óþarfi, þar sem það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að leita í huga sér og finna hliðstæður, t.d.: skóflan stendur upp við vegginn; bærinn stendur niður við sjóinn; karlinn er ágætur inn við beinið; Upp við fossa (skáldsaga) o.s.frv.

Til enn frekari áréttingar má nefna dæmi úr íslenskum bókmenntum: Unnur sat upp við hægindin (Laxdæla); það (seglið) er heflað upp við rána (Njála); látum hann sitja upp við vegginn (Njála); hafði hann staðið upp við gaflhlaðið (Njála) og hann sat upp við hamarinn (Grettla).

Dæmi sem þessi eru auðfundin, með mismunandi atviksorðum (inn við; fram við; niður við ...).

Úr handraðanum

Í orðasambandinu hafa upp/(uppi) á e-m og ýmsum hliðstæðum samböndum er styttri myndin (hafa upp á e-m) upprunalegri en sú lengri (hafa uppi á e-m).

Upphaflega vísa slík sambönd til hreyfingar eins og glöggt má sjá af orðasambandinu spyrja [sbr. spor] e-n upp ‘rekja slóð e-s’ > ‘grennslast eftir; spyrja’ þar sem styttri myndin er notuð. Í mörgum gerðum Ólafs sögu helga segir frá því er hundar spurðu upp strokufanga, t.d. segir í Flateyjarbók: fara eftir þeim með hunda, er þeir voru vanir að spyrja þá upp, er undan komust.

Í elstu dæmum yfirfærðrar merkingar er styttri myndin einnig notuð, t.d.: fengu hann eigi upp spurðan (‘komust ekki að því hvar hann var’); gat hann upp spurt og með sér haft Sæmund hinn fróða; að hann fengi upp spurt og dreifa liði sínu að þeir verði þá seinna upp spurðir en áður, sbr. einnig: þefa e-ð upp/uppi og elta e-ð/e-n upp/uppi.

 

Morgunblaðið, 17. janúar 2004