Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   18. febrúar 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 71. ţáttur

Orðatiltækið böndin berast að e-m ‘grunur beinist að e-m’ vísar trúlega upphaflega til dýraveiða en síðar til þess er einhver fellir á sig grun (ber bönd að sér) er leiðir til handtöku. Umsjónarmaður taldi notkun þess vera í föstum skorðum en dæmi úr nútímamáli bendi til að svo sé ekki. Hér skulu nefnd tvö slík. Hið fyrra er: Í væntanlegri bók berast böndin meðal annars til Íslands (Mbl. 20.10.05). Í þessu dæmi virðist orðasambandið leikurinn berst e-ð hafa áhrif. Síðara dæmið er af svipuðum toga: Böndin beinast að Rove, starfsmannastjóra Hvíta hússins (Frbl 27.10.05). Hér virðist gæta áhrifa frá orðatiltækinu beina spjótum sínum að/(gegn) e-m/e-u.

Nú á tímum alþjóðavæðingar eða hnattvæðingar gætir áhrifa ensku í æ vaxandi mæli. Hráar slettur (meika það, djúsa, ok, hæ, bæ o.s.frv.) geta auðvitað verið hvimleiðar en áhrifin koma einnig fram á þann hátt að ensk orð eða orðasambönd er þýdd á íslensku þannig að búningurinn verður íslenskur en hugsunin erlend. Dæmi af þessum toga blasa við á síðum dagblaða og glymja í ljósvakamiðlum, t.d.: ... að hann hafi stigið inn á verksvið Fergusons [e. step into] (Frbl 20.11.05); ... að heimkvaðning herliðsins færi eftir því hvort írski herinn gæti tekið yfir aðgerðir gegn uppreisnarmönnum [e. take over] (Txt 30.11.05); Verkefni Sovétmanna var svo leynilegt að vísindamennirnir höfðu fyrirmæli um að taka líf sitt ef þeir kæmust í hendur Bandaríkjamanna [e. take one’s life] (Frbl 29.12.05) og taka næsta skref [e. take the next step]. Auðvitað er það svo að í íslensku er að finna fjölmörg orðasambönd sem eiga sér beina samsvörun í ensku, t.d. drepa tímann (e. kill time), og er ástæðulaust að amast við þeim. Að mati umsjónarmanns er þó jafnástæðulaust að grípa sí og æ til enskra orðasambanda, ekki síst ef til eru alíslenskar merkingarlegar samsvaranir. Hvað skyldi t.d. orðasambandið taka líf sitt hafa fram yfir orðasamböndin svipta sig lífi eða stytta sér aldur? Hér verður naumast neinum algildum mælikvarða komið við, í þessum tilvikum sem öðrum hlýtur málvenja að ráða. Rétt er að hafa í huga að í afstöðu til málnotkunar felst ábyrgð. Sú kynslóð sem sér ekkert athugavert við málbeitingu sem þessa skilar henni til næstu kynslóðar.

Munurinn á forsetningunum á eftir (þgf.) og eftir (þf.) er skýr í flestum tilvikum. Hin fyrri er staðarleg (dvöl/hreyfing í röð), t.d. hlaupa/ganga á eftir e-m, en hin síðari vísar til tíma, t.d. eftir veturinn, styrjöldina, tvo daga ... Þessi munur verður enn skýrari fyrir þá sök að forsetningarnar eru notaðar í nokkurs konar andstæðupörum, sbr. á eftir e-u — á undan e-u og fyrir e-ð — eftir e-ð. Svona hefur þetta verið um nokkurra alda skeið og Íslendingar drekka þetta í sig með móðurmjólkinni. En nú gætir þess nokkuð að forsetningin á eftir (e-u) sé látin vísa til tíma líkt og eftir (e-ð), t.d.: Er líf á eftir dauðanum [þ.e. eftir dauðann]. Af þessum toga er eftirfarandi dæmi: Var árið 2005 ekki eins og lognið á eftir storminum [þ.e. eftir storminn] eða undan [þ.e. á undan] honum (Frbl 2.1.06). Rétt og skylt er að taka fram að dæmið á að lýsa efni greinar sem birtist í blaðinu (bls. 20). Í greininni sjálfri er allt slétt og fellt: Var ekki árið svolítið eins og stund milli stríða? Logn eftir storminn? Eða á undan honum? (Frbl 2.1.06).

Til fróðleiks má geta þess að í öllum þeim tilvikum er forsetningin eftir tekur með sér þolfall liggur vísan til tíma að baki. Sú merking blasir að vísu ekki ávallt við en sjaldnast þarf að leita langt til að finna hana. Þannig merkir orðasambandið bók eftir rithöfund upphaflega ‘bók sem rithöfundur skilur eftir sig’ og spor eftir fugla merkir með sama hætti ‘spor sem fuglar skilja eftir sig’.

Í sumum tilvikum skiptir ekki máli hvort vísað er til staðar eða tíma. Þannig er ekki allur munur á orðasamböndunum hver á eftir öðrum (staður, röð) og hver eftir annan (tími), sbr. enn fremur hver á fætur öðrum; hver af öðrum og einn af öðrum. Auðvelt er að leita í huga sér og finna góð dæmi um notkun þessara orðasambanda, málkennd og málvenja sker úr um rétta notkun. Í eftirfarandi dæmi er málvenja ekki virt enda ættu flestir að vera sammála um að það sé gallað: .. vanda sem hver ríkisstjórnin af fætur annarri [þ.e. hver ríkisstjórnin á fætur annarri eða hver ríkisstjórnin eftir aðra] hefur hummað fram af sér (Frbl. 7.11.05).

Úr handraðanum

Forsetningin handa er upprunalega ef.flt. af hönd, þ.e.: e-m til handa > handa e-m, t.d.: drekann tekur Oddur og sér til handa og annað skip; þá gripi ... vil eg að Ásta varðveiti til handa syni sínum; heimta skatt til handa honum og kaupa e-ð e-m til handa. — Elsta dæmi um breytinguna til handa > handa er frá upphafi 14. aldar: Litlu síðar safnar konungur liði handa Oddi. Í nútímamáli bregður enn fyrir myndinni e-m til handa, einkum í hátíðlegu máli, t.d.: safna fé bágstöddum til handa eða safna í gjöf e-m til handa. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við afbrigði til handa e-s, en lengi er von á einum eins og sagt er: Orsakir eru að hluta gagnrýni áhrifamikilla þingmanna á launahækkanir til handa láglaunahópa nú nýverið (Mbl. 29.12.05).