Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   4. febrúar 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 70. ţáttur

Undanfarnar vikur hefur íslensk tunga verið mjög til umræðu. Kveikjan að umræðunni var ráðstefna sem hópur áhugafólks blés til sunnudaginn 22. janúar undir yfirskriftinni Staða málsins auk þess sem Lesbók Morgunblaðsins var helguð sama efni laugardaginn 21. janúar. Umsjónarmaður fagnar mjög þeim áhuga sem íslensku er sýndur með þessum hætti og telur að þeir sem efndu til ráðstefnunnar eigi þakkir skildar. Sama á við um Morgunblaðið en það hefur lengi borið íslenska tungu fyrir brjósti.

En hvernig skyldi standa á þessum mikla áhuga einmitt núna? Svarið blasir við. Engum þeim sem leitast við að fylgjast með móðurmálinu getur blandast hugur um að það á undir högg að sækja. Enska gerist æ fyrirferðarmeiri og beinna og óbeinna áhrif hennar á íslensku gætir jafnt í mæltu máli sem rituðu. Það er reyndar ekki nýtt í sögu okkar að erlendir straumar hafi borist til landsins með umtalsverðum áhrifum á menningu okkar og tungu. Nægir þar að nefna kristni og ritöld, siðaskipti og prentöld. Umsjónarmanni virðist að í öllum tilvikum hafi Íslendingar borið gæfu til að nýta sér ýmis þau nýmæli og nýjungar sem bárust en jafnframt héldu þeir sínu. Því má halda fram að samskipti við aðrar þjóðir og kynni af öðrum háttum hafi auðgað menningu okkar.

En nú er öldin önnur. Alþjóðavæðingin og upplýsingabyltingin er orðin svo fyrirferðarmikil í íslensku þjóðlífi að mörgum finnst nóg um. Aðrir láta sér fátt um finnast og telja eðlilegt að íslensk tunga breytist með nýjum tímum. Umsjónarmaður fyllir flokk hinna fyrrnefndu og telur reyndar engum vafa undirorpið að breytingar á tungunni hafi á síðustu árum verið hraðari og meiri en nokkru sinni í sögu okkar.

En hverjar eru breytingarnar? Umsjónarmaður telur að þær séu einkum á sviði setningafræði en þar gætir mjög áhrifa frá ensku. Beygingakerfið virðist hins vegar traust og endurnýjun orðaforðans er með svipuðum hætti og verið hefur, þökk sé óeigingjörnu starfi orðasmiða og orðanefnda.

Telja má vafalaust að mikilvirkasta breytingin í nútímamáli sé sú tilhneiging að ofnota orðasambandið vera + að + nafnháttur, t.d.: Menn eru að fara alltof geyst í stóriðjuframkvæmdum (Sjónv 30.1.06); Íslensk tónlist er virkilega að seljast (Bylgjan 25.11.05); skólinn er að nota mjög vel þá peninga sem hann er að fá (14.11.05) og Kartöflubændur eru ekki að fá rétt verð (Sjónv 14.11.05). Þessi ofnotkun er tiltölulega ung í íslensku, naumast eldri en 10-15 ára, og stafar hún af enskum áhrifum. Það vekur furðu umsjónarmanns hve hröð breytingin er. Í fyrstu virtist hún einkum bundin við talmál og íþróttalýsingar en nú gætir hennar hvarvetna.

Ef breyting þessi nær fram að ganga mun hún hafa gagnger áhrif á íslensku, miklu meiri en aðrar breytingar sem koma upp í hugann. Vera kann að sumum þyki breytingin eðlileg, telji að um sé að ræða eðlilega þróun málsins og mörgum kann að finnast það til þæginda að nota sífellt óbeygðan nafnhátt. Umsjónarmaður hefur nokkrum sinnum vikið að fyrirbærinu í pistlum sínum og m.a. bent á að málið verður snauðara eftir.

Það er alkunna að ekki tjáir að deila um smekk manna, það sem einum finnst fagurt finnst öðrum ljótt. Umsjónarmanni finnst að vísu hvorki fagurt né til fyrirmyndar að nota nafnhátt í síbylju en ugglaust eru sumir annarrar skoðunar. Um hitt verður naumast deilt að íslensk tunga verður snauðari eftir breytinguna ef hún nær fram að ganga. Munurinn á hinu forna orðasambandi vera að gera e-ð (Hún er að skrifa bréf) og nútíð (Hún skrifar vel) hverfur að miklu leyti í máli þeirra sem taka upp nýmælið.

Oft er á það bent að íslenska hafi breyst svo lítið frá fornu máli til nútímamáls að nútímamenn eigi beinan og greiðan aðgang að þeim menningararfi sem fyrri kynslóðir hafa skilið eftir sig. Með nýmælum og breytingum í nútímamáli kann að fara svo að næsta kynslóð geti einungis notið fornbókmenntanna í endursögn eða þýðingum. Ef svo færi væri brotið blað í íslenska menningarsögu.

Úr handraðanum

Orðasambandið vera seinþreyttur til vandræða merkir ‘vera óáleitinn; ekki er auðvelt að espa e-n upp’. Þannig er það t.d. notað í Njáls sögu: Það mun oft á finnast ... að Gunnar er seinþreyttur til vandræða en harðdrægur ef hann má eigi undan komast. Nýlega rakst umsjónarmaður á svipað orðafar notað í allt annarri merkingu: Sjálfseyðingarhvötin tók öll völd, ... [söngvarinn] var seinþreyttur við að brjóta allar brýr að baki sér (Mbl. 29.1.06). Hér virðist orðasambandið skilið nýjum skilningi (‘sem þreytist ekki/seint’) sem ekki samræmist málvenju.