Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   21. janúar 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 69. ţáttur

Í 46. kafla Gylfaginningar (Snorra-Eddu) segir frá þrautum þeim fjórum er Þór þreytti í höll Útgarða-Loka. Ein þeirra fólst í því að drekka úr horni nokkru. Þór svalg allstórum en þraut örendið og varð að lúta úr horninu (til að anda) eins og sagan segir enda náði annar endi hornsins út í hafið. Til þessa vísar orðatiltækið e-n þrýtur örendið ‘e-n skortur kraft, úthald (til að ljúka e-u)’. Það er jafnan notað ópersónulega og því samræmist eftirfarandi dæmi ekki málvenju: og horfði þá til kosningaúrslitanna eftir að viðreisnarstjórnin þraut örendi (Mbl. 20.11.05).

Grettistak eða grettishaf vísar til stórra steina sem hvíla einatt ofan á smærri steinum en því var trúað að Grettir sterki Ásmundarson hefði tekið þá upp eða hafið þá upp. Því tölum við um að lyfta grettistaki í merkingunni ‘afreka mikið; áorka miklu.’ Það er hins vegar af og frá að unnt sé að tala um að e-r hafi grettistak á e-m. Í útvarpi (31.12.05) heyrði umsjónarmaður rætt um körfuknattleik og þá komst viðmælandi útvarpsmanns svo að orði að tiltekið lið hefði grettistak á öðru liði í merkingunni ‘hefði gott tak á því, sigraði það ávallt.’

Sögnin kveða beygist eftir sterkri beygingu (kveða-kvað-kváðum-kveðið) en sögnin kveðja er veik (kveðja-kvaddi-kvatt). Sagnir þessar eru ekki aðeins ólíkar að beygingu heldur er merking þeirra og notkun í föstum orðasamböndum ólík. Samt er þeim stundum ruglað saman. Eftirfarandi dæmi er af þeim toga: tilbúnir til að berjast við sláttumanninn mikla [þ.e. slynga] sem hér hafði kveðið [þ.e. kvatt] dyra svo óvænt (31.12.05). Samkvæmt málvenju tölum við um að kveðja dyra ‘drepa á dyr’. Ýmsar hliðstæður eru kunnar, t.d. kveðja sér hljóðs ‘biðja um orðið; taka til máls’.

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður vikið að því að svo virðist sem afturbeyging með fornafinu sig (þf.), sér (þgf.), sín (ef.) eigi erfitt uppdráttar í nútímamáli og sama á við afturbeygða eignarfornafnið sinn. Afturbeyging er að vísu flóknari en svo að unnt sé að gera grein fyrir henni í stuttu máli en meginþættirnir eru þó einfaldir. Afturbeygða fornafnið sig er notað til að vísa ‘aftur, til baka’ á milli setninga ef gerandi (frumlag) í aðalsetningu og frumlagsígildi í aukasetningu (að-setningu) er hinn sami. Þetta má sýna með einföldum dæmum: (1) Hún segir + Mig langar í epli > Hún segir að sig langi í epli. (2) Hún segir + Mér finnst myndin falleg > Hún segir að sér finnist myndin falleg og (3) Hún segir + Mín verður ekki saknað > Hún segir að sín verði ekki saknað. Ofangreind dæmi eru að vísu einsleit, í öllum tilvikum er um að ræða að-setningar og allar standa þær í viðtengingarhætti. Dæmin sýna þó tiltekinn þátt í notkun afturbeygða fornafnsins og á grundvelli þeirra má setja fram einfalda reglu sem á við dæmi að þessum toga: Afturbeygt fornafn (sig, sér, sín) er notað í fallsetningum (að-setningum; hv-setningum) með viðtengingarhætti til að vísa til frumlags í aðalsetningu.

Menn þurfa reyndar ekki að kunna reglur um þessi atriði, málkenndin dugir í flestum tilvikum, en þó getur verið gagnlegt að skoða dæmi. Í eftirfarandi dæmum virðist umsjónarmanni vikið frá málvenju, innan sviga eru þær myndir sem vænta mætti: Ef að líkum lætur verður Huntley einn tuttugu manna, sem eyða munu því sem eftir lifir ævi þeirra (sinnar) í fangelsi (Frbl. 30.9.05); S.T.M ... sagði ... að afstaða hans (sín) til þess hvort málið yrði kært ... (Mbl. 23.11.05); segir bréfritari ... að J.B. hefði (hafi) sagt við hann (sig) þegar ... (Blaðið 10.12.05);

[Fegurðardrottningin] segir að dagurinn leggist vel í hana (sig) (Blaðið 10.12.05); Hann segir í upphafi bréfs síns að honum (sér) þyki ... (Blaðið 10.12.05) og Tvítug stúlka sagði að henni (sér) hefði verið nauðgað (Sjónv. 1.1.06). — Af dæmunum má sjá að munurinn á notkun afturbeygðs fornafns og persónufornafns er merkingargreinandi. Hér fer því saman málvenja og skýr framsetning.  

Úr handraðanum

Málshættir eru oft ein málsgrein og skírskota oft til almennra sannindaeða fela í sér almenn sannindi eða visku. Bjarni heitinn Vilhjálmsson segir um málshætti: Þeim má líkja við gangsilfur, sem enginn veit, hver mótað hefur. Málshættir skipta þúsundum í íslensku. Þess eru fjölmörg dæmi að það sem vel er sagt verði fleygt, öðlist líf sem málsháttur. Í Fóstbræðra sögu (20. kafla) segir frá því að Þormóður Kolbrúnarskáld og maður sem nefndi sig Gest tóku sér fari með Grænlandsskipi en stýrimaðurinn hét Skúfur. Þeim Þormóði og Gesti kom illa saman eða eins og segir í sögunni: Heldur stóðst allt í odda með þeim Gesti og Þormóði. Þar kom að þeir vildu berjast en þá ssgði Skúfur: sjaldan mun þeim skipum vel farast er menn eru ósáttir innan borðs. Þessi ummæli eru tímalaus, ef svo má segja, þau eiga fullt erindi til nútímans og þau gætu vel átt við þjóðarskútuna svo kölluðu.