Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   31. janúar 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 20. ţáttur

Íslenskt mál - 20. þáttur

Fyrir liðlega tuttugu árum heyrði ég mann nota nafnorðið substantívítis með vísan til þess er menn hrúga saman nafnorðum, skreyta stíl sinn með nafnorðahröngli, í stað þess að nota sagnorð. Mér þótti og þykir enn orðið hnyttilega myndað þótt um sé að ræða hráa slettu.

Ekki hef ég fundið orðið í orðabókum en það er augljóslega sniðið eftir orðum eins og bronkítis (< d. bronkitis). Ég hef að vísu ekkert annað fyrir mér en tilfinningu mína en mér virðist nafnorðastíls gæta mun meira í ensku en íslensku. Það er einkum í ‘stofnanamáli’ og ‘reglugerðamáli’ sem hans verður vart hjá okkur.

Sem dæmi má nefna að sumum finnst við hæfi að tala um ?skort á getu til að hafa hemil á spilahegðun sinni og í stað þess að rannsaka eitthvað eða athuga er stundum sagt: ?framkvæma rannsókn (sbr. e. carry out an investigation) eða ?gera athugun.

Sögnin að framkvæma er oft notuð með þessum hætti, t.d.:

  • ?framkvæma breytingu (breyta e-u)
  • ?framkvæma athugun (athuga e-ð)
  • ?framkvæma hjartaígræðslu (græða hjarta í e-n)
  • ?framkvæma uppskurð (skera e-n upp)


Eins og lesendur þessara pistla munu kannast við merki ég þau dæmi með spurningarmerki (?) sem ég tel að ekki samræmist venjulegri og eðlilegri málbeitingu. Dæmi af þessum toga eru auðfundin í nútímamáli. Einhvern tíma rakst ég á reglugerð um sumarleyfi og orlof. Þar var klifað á orðasamböndum eins og ?hefja töku barnsburðarleyfis og ?hefja töku sumarleyfis.

Mér þótti þessi málbeiting satt best að segja svo fráleit að ég tók ekkert mark á henni, mér þótti þetta orðalag nánast hlægilegt. Það vekur því furðu mína að á síðustu mánuðum hef ég séð slíkt orðfæri notað hiklaust og að því er virðist í fullri alvöru.

Rétt fyrir jólin voru samþykkt lög um eftirlaun ákveðinna manna. Í umfjöllun blaða um það var þráfaldlega talað um að ?hefja töku eftirlauna og ?hefja töku lífeyris, t.d.: ?frumvarpið tekur eingöngu til þeirra sem ekki hafa þegar hafið töku lífeyris við gildistöku laganna.

Vel má vera að sumum þyki orðið úrelt eða dauflegt orðalag að þiggja laun, fá greiddan lífeyri, fara á eftirlaun, vera á eftirlaunum eða njóta lífeyrisgreiðslna en sá sem þetta skrifar sér engan ávinning að því að nota orðasambandið ?hefja töku e-s. Þetta er tilgerðarlegt orðalag sem ekki styðst við málvenju.

Í vor var rætt um starfslokasamninga tiltekinna embættismanna og þá var m.a. sagt: ?Með hliðsjón af þeirri breytingu sem verður nú á launaákvörðun embættismanna telur Kjaradómur eðlilegt ... og litlu síðar var talað um ?þóknanaákvörðun. Af sama meiði er orðalag eins og ?gera þýðingu; ?hugmyndir um fráhvarf frá núverandi kvótakerfi og ?lækkun fæðingartíðni og nú neita menn ekki lengur að greiða e-ð að hluta heldur ?neita þeir greiðsluþátttöku svo að nokkur dæmi séu nefnd eða ?vilja ekki koma að greiðsluþátttöku (??vilja ekki eiga aðkomu að greiðsluþátttöku).

Dæmi af þessum toga eru því miður auðfundin í fjölmiðlum okkar og geta þeir sem nenna ergt sig á því eða eftir atvikum skemmt sér við að finna þau.

Úr handraðanum

Rétt fyrir jólin bar málsháttinn Orð skulu standa oft á góma í umræðu um svo kallað öryrkjafrumvarp. Elsta dæmi sem ég hef rekist á um nútímamerkingu málsháttarins er að finna í bók Jóns Helgasonar ritstjóra: Orð skulu standa.

Þar segir frá vegfræðingi, Páli Jónssyni (f. 1853), en í bernsku kenndi gömul kona honum ellefta boðorðið. Orð skulu standa. Samkvæmt þessu eru elstu heimildir um málsháttinn í nútímamerkingu frá miðri 19. öld.

En rætur málsháttarins liggja miklu dýpra. Í Jónsbók, lögbók Íslendinga frá 1281, segir: Svo skal hvert orð vera sem mælt er, þ.e. ‘hvert orð skal standa (óbreytt) eins og það er sagt’. Í fornbréfi frá árinu 1518 er vitnað til þessa ákvæðis með eftirfarandi hætti: ... að svo skuli hvert orð standa sem talað er.

Hér erum við komin býsna nærri nútímamyndinni (hvert orð skal standa (sem talað er)) en merkingin er önnur, hér vísar orð til máleiningar, orðs í beinni merkingu, en í málshættinum Orð skulu standa merkir fleirtölumyndin orð ‘loforð’. Það blasir því við að skilningur manna hefur breyst, hér hefur orðið merkingarbreyting (‘orð’ > ‘loforð’). Ákvæði Jónsbókar Hvert orð skal standa sem talað er vísar til orðs í beinni merkingu en í málshættinum Orð skulu standa er um að ræða loforð.

Upprunalega merkingin (‘orð’) er horfin en eftir stendur breytta merkingin (‘loforð’). Með vísan til þess sem að framan sagði virðist ljóst að sú breyting sé um garð gengin um miðja 19. öld, ekki hef ég rekist á eldri dæmi um hana.

Til gamans má geta þess að það er ekkert nýtt að menn deili um það hvað var sagt nákvæmlega og hvaða merking hafi falist í því. Meginreglan var (og er) sú að ekki var heimilt að leggja mönnum orð í munn né snúa út úr orðum manna, sbr.: skuli hvert orð standa sem talað er og færa jafnan til betra vegar (fornbréf) og maður verður ekki sekur fyrir orð er færa má til góðs og ills (Jónsbók).

Morgunblaðið, 31. janúar 2004