Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   7. janúar 2006

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 68. ţáttur

Orðatiltækið færast í aukana vísar til þess er einhver magnast, verður öflugri, herðir sig. Það er algengt í fornu máli. Í Grettis sögu greinir t.d. frá því er Glámur færðist í aukana og í Hauksbók segir frá því er maður varð reiður og færðist í alla auka afls síns. Í þeim dæmum sem umsjónarmaður hefur rekist á vísar orðatiltækið ávallt til persónu. Það styðst því ekki við málvenju að taka svo til orða að eitthvað færist í aukana, t.d.: Mannréttindabrot færast í aukana (‘aukast, færast í vöxt’) (Frbl 28.11.05).

Flestir munu þekkja orðatiltækin e-ð kemur upp úr kafinu ‘e-ð kemur í ljós’ og hafa e-ð upp úr krafsinu ‘bera e-ð úr býtum; hljóta ávinning af e-u’. Merking þeirra og sú líking sem að baki liggur er ólík. Hið fyrra er dregið af því er e-ð kemur upp á yfirborðið en hið síðarnefnda vísar til þess er dýr krafsar snjó ofan af grasi. Umsjónarmaður rakst nýlega á dæmi þar sem þessu er ruglað saman: Hin [ástæðan] er sú að í þeirri sorg, þeim áföllum og erfiðu lífsaðstæðum sem viðmælendur mínir hafa lent í, kemur oftar en ekki upp úr krafsinu ... ofsóknir og ærumeiðingar (DV 15.12.05).

Sögnin ávísa merkir upphaflega ‘benda á’ en nú mun algengasta merkingin vera ‘gefa ávísun á’, t.d. ávísa lyfi/lyfjum eða ávísa peningum. Af sama meiði er sagnarsambandið fá e-ð ávísað, t.d.: Ég fékk peningana ávísaða. Sögnin er einnig oft notuð sem háttarsögn í merkingunni ‘geta’, oftast með neitun, t.d.: Ég fæ ekki séð/skilið að ... eða Læknirinn fékk ekki ávísað lyfinu ‘gat ekki ávísað því’. Þessu tvennu má ekki rugla saman eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Sterum er ýmist smyglað eða þá að fólk fær þeim ávísað hjá lækni ‘fær þá ávísaða (með lyfseðli)’ (Blaðið 28.11.05).

Málkenndin segir okkur að það sé tvennt ólíkt að bíta á e-ð og bíta í e-ð. Við þörfnumst engrar málfræðikunnáttu til að greina hér á milli né þurfum við að leggja slík orðasambönd á minnið, okkur er í blóð borið að hér sé munur á. Stundum þurfum við að bíta á jaxlinn eða við bítum á vörina. Hins vegar bítum við í brauðsneið eða gómsætan bita. Notkunarmunurinn er greinilegur: við bítum í það sem við getum læst tönnum efri og neðri góms í en ef við komum aðeins tönnum efri góms við bítum við á. Það er því merking eða málkennd sem sker úr og er eftirfarandi dæmi klúðurslegt: Hann finnur til feginleika um leið og hann bítur í neðri vörina og það er eins og hann verði skömmustulegur (Frbl 27.11.05).

Orðatiltækið spenna bogann of hátt merkir ‘setja sér of hátt markmið; ætla sér um of.’ Það á sér ekki langan aldur í íslensku og er trúlega komið úr dönsku (d. spænde buen for højt; þ. den Bogen überspannen). Sögnin spenna merkir hér ‘munda, miða’ enda er kunnugt afbrigðið benda bogann (of/nokkuð) hátt. Því getur ekki talist rökrétt að tala um að spenna boga sinn of hart en slíkt dæmi rak þó á fjörur umsjónarmanns: En P. spennti boga sinn of hart með þeim afleiðingum að strengurinn slitnaði (Mbl. 19.10.05). Því má svo bæta við að venjulega er talað um að bogastrengur bresti.

Úr handraðanum

Þegar Napóleon Bonaparte kom heim úr för sinni til Elbu (1815) sagði hann (í lauslegri þýðingu) í franska þinginu: Maður á að þvo óhreinan þvott sinn heima, ekki opinberlega (C’est en famille, ce n’est pas en public, qu’on lave son linge sale). Þessi ummæli urðu fleyg og hafa ratað inn í margar Evróputungur. Oscar Wild skrifar t.d.: It is simply washing one’s clean linen in public (1895) og Jón Sigurðsson ritar: Jón Ólafsson er að hræra flautir eða þvo dulur vorar framan í Norðmönnum (1870). Í nútímamáli mun algengasta myndin vera þvo/(viðra) sinn óhreina þvott opinberlega en einnig eru kunn ýmis önnur afbrigði. Nýlega rakst umsjónarmaður á eftirfarandi dæmi: Maður á ekki að skola úr skítugu nærfötunum sínum á almannafæri. Þetta dæmi er að því leyti óvenjulegt að lýsingarorðið skítugur er notað í veikri beygingu, en sú notkun felur hér í sér nokkurs konar andstæðu eða samanburð. Eðlilegur skilningur setningarinnar væri því sá að ekki eigi að skola úr skítugu nærfötunum sínum á almannafæri heldur þeim hreinu. Í dæminu hefði því mátt búast við myndinni skítugum nærfötunum eða sínum skítugu nærfötum. — Þessi munur á notkun sterkrar og veikrar beygingar lýsingarorða er kerfisbundinn eins og auðvelt er að ganga úr skugga um. Við segjum t.d.: Maðurinn datt á blautri stéttinni (en ekki ?blautu stéttinni) eða Hann gekk út í svalt kvöldloftið (en ekki ?svala kvöldloftið).