Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   24. desember 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 67. ţáttur

Íslenskt mál – 67. þáttur

Orðatiltækið e-ð ríður baggamuninn ‘e-ð ræður úrslitum’ vísar trúlega til þess er baggar voru fluttir á hestum og setið þannig á milli bagganna að jafnþungt var hvorum megin á hestinum og er þá óbein merking (‘e-ð hefur úrslitaáhrif’) augljós. Vera má að líkingin liggi ekki í augum uppi og það valdi því að stundum er farið rangt með orðasambandið. Hér skulu nefnd tvö dæmi. Í fyrra dæminu kann að vera um mismæli að ræða: aðkoma ríkisstjórnarinnar ... á ögurstundu reið baggahnútinn [svo að samningar náðust] (15.11.05). Umsjónarmaður kannast ekki við nafnorðið baggahnútur enda er líklegast að hér gæti áhrifa frá orðatiltækinu binda/ríða/(reka) endahnútinn á e-ð ‘ljúka við e-ð; leggja síðustu hönd á e-ð’. Síðara dæmið er af svipuðum toga: dómarinn dæmdi markið af og það réði baggamuninn (16.11.2005). Hér gætir augljóslega áhrifa frá orðasambandinu e-ð ræður úrslitum

Lýsingarorðið nýr getur vísað til tíma með mismunandi hætti. Í fornu máli eru kunn orðasamböndin að nýju og af nýju, hið síðara er sjaldgæft í nútímamáli. Frá sextándu öld eru myndirnar á ný og upp á nýtt og eru þær algengar í nútímamáli. Orðasambandið

á nýjan leik er frá 15. öld (enn eldra er afbrigðið á nýja leik). Eins og sjá má er fjölbreytni orðasambanda með stofnorðinu nýr allmikil. Fram til þessa hefur það ekki vafist fyrir mönnum að halda afbrigðunum aðskildum og nota þau í samræmi við málvenju. Í nútímamáli gætir þess þó að myndunum á ný og að nýju sé ruglað saman svo að úr verður bastarðurinn á nýju, t.d.: Ekkert er ákveðið um [svo] hvort B. V. muni gefa kost á sér á nýju en ekki er búist við því (Frbl. 21.8.05). Áhugasamir lesendur geta leitað í huga sér og velt því fyrir sér hvaða hugsun liggi að baki myndunum á ný, að nýju og af nýju en umsjónarmanni virðast þær rökréttar og gagnsæjar. Hins vegar stríðir nýmælið á nýju gegn málvenju og það á engar hliðstæður í málkerfinu.

Flestum mun ljóst að ekki gengur að nota orð eða orðasambönd að geðþótta, menn verða að lúta reglum málvenjunnar. Sem dæmi má taka að venjulegt er að tala um að búsmali (gangandi fé) sé rekinn í hjarðir, fuglar safnist í hópa og fiskar myndi torfur. Ef brugðið er út af eða vikið frá málvenju stinga dæmin í stúf eða eru jafnvel óskiljanleg. Að mati umsjónarmanns er ótækt að tala um að safna þorskum í hjarðir en lengi er von á einum eins og sagt er: Í Arnarfirði er unnið að hafrannsóknaverkefni sem byggir á því að fóðra þorsk og safna honum í hjarðir (Frbl. 25.8.05).

Lýsingarorðið slyngur er skylt sögnunum slyngva ‘kasta, flétta o.fl.’ og slöngva, sbr. lo. slunginn, sem eiginlega er lh.þt. af slyngja. Það er notað í ýmsum föstum orðasamböndum, t.d. er sláttumaðurinn slyngi persónugervingur dauðans. Hér er aðeins unnt að nota lo. slyngur, t.d. hvorki lo. slóttugurslægur. Eftirfarandi dæmi er því meingallað: leika slyngan leik við sláttumanninn slæga (Frbl 4.7.04).

Hundar sperra eyrun til að heyra betur og sama orðafar er einnig oft notað um menn. Sniglar geta dregið inn hornin en umsjónarmaður man í svipinn ekki eftir neinu kviku sem getu fært eyrun út eða inn. Vant er að sjá hvað búið geti að baki eftirfarandi dæmi: Eins og allir blaðamenn var ég með eyrun úti þegar ég heyrði af fjárhagsvanda ... (Frbl 21.8.05). Vera má að orðatiltækið hafa allar klær úti/(í frammi) ‘reyna e-ð eins og maður getur’ hafi hér haft áhrif.

Umsjónarmaður hefur þráfaldlega minnst á ofnotkun nafnháttar, svo kallað dvalarhorf. Samkvæmt málvenju er það notað með sögnum sem vísa til afmarkaðs verknaðar, t.d.: Hún er að skrifa bréf eða Nemandinn er að tala við kennarann sinn. Það er hins vegar ekki notað með sagnorðum sem vísa til verknaðar sem er ekki afmarkaður í tíma, t.d.: ?Stúlkan er að skrifa vel (‘stúlkan skrifar vel’) eða ?barnið er að sofa (‘barnið sefur’). Í nútímamáli gætir þess mjög að dvalarhorf sé notað í síbilju með öllum sagnorðum. Þessi notkun mun eiga uppruna sinn í íþróttalýsingum og er hún naumast eldri en tíu til fimmtán ára.

Nokkur dæmi um nýstárlega notkun dvalarhorfs: Banadríkjaforseti er að mælast með lítið fylgi (4.11.05); Ert þú að gleyma einhverju mikilvægu? (30.9.05); Kartöflubændur eru ekki að fá rétt verð (14.11.05); það eru allir að hlusta (23.11.05) og Margir eru að misnota áfengi (23.11.05).

Úr handraðanum

Nafnorðið svínsminni ‘slæmt minni’ vísar til þess er menn eru skammminnugir. Í Laxdæla sögu grípur Guðrún Ósvífursdóttir til þessa orðs er hún eggjar bræður sína með eftirminnilegum hætti til hefnda. Þar segir: Gott skaplyndi hefðuð þér fengið ef þér væruð dætur einshvers bónda og láta hvorki að yður verða gagn né mein en slíka svívirðing og skömm sem Kjartan hefir yður gert þá sofið þér eigi að minna að hann ríði hér hjá garði við annan mann og hafa slíkir menn mikið svínsminni. Umsjónarmaður kann lítil skil á hæfileikum svína til að muna en vera kann að forliðurinn svíns- sé hér notaður í neikvæðri merkingu þar sem svín njóta almennt ekki mikillar virðingar, sbr. svínfullur, svíndrukkinn, svínbeygja og svíngalinn. Svipuð tengsl á milli dýrs og merkingar orðs væri þá að finna í nafnorðinu fílsminni ‘gott minni’, þ.e. styrkur fílsins er yfirfærður á minni hans. Í nútímamáli er einnig kunnugt nafnorðið gullfiskaminni, t.d.: Annaðhvort eru menn ólæsir eða hafa algjört gullfiskaminni (Frbl 3.11.05). Umsjónarmaður þekkir ekki erlendar samsvaranir. Ekki skal þó fullyrt að hér sé íslenskt nýmæli á ferð.