Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   29. janúar 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 44. ţáttur

Íslenskt mál - 44. þáttur

Í nútímamáli ber nokkuð á því að notkun afturbeygða fornafnsins sig (þf.), sér (þgf.), sín (ef.) og afturbeygða eignarfornafnsins sinn (kk.et.), sín (kvk.et.), sitt (hk.et.) sé á reiki.

Íslendingar hafa fram til þessa verið býsna sammála um notkun þessara fornafna og það hefur ekki vafist fyrir þeim að nota þau að því er virðist í sátt og samlyndi. Umsjónarmaður játar fúslega að hann treystir sér ekki til að gera í skömmu máli grein fyrir öllum þeim reglum sem gilda um þessi atriði. Megineglurnar eru þó það skýrar og einfaldar að það ætti að vera hægt að drepa á þær helstu og tefla fram einföldum dæmum til skýringar. Til að koma í veg fyrir misskilning er rétt að taka það fram að með ‘reglum’ er átt við málnotkun eins og hún kemur fram í traustum notkunardæmum og með ‘reglunum’ er leitast við að sýna hvernig notkun afturbeygðra fornafna hefur verið háttað fram til þessa.

(1) Skilyrði þess að afturbeygt eignarfornafn sé notað er að frumlag(/andlag) og eigandi sé sami maður, t.d.: Hún seldi bílinn sinn (‘sinn eigin bíl’); Hún seldi bílinn hennar (‘bíl annarrar’); ég sendi honum (Kalla) peningana sína (Kalla); hún (Gunna) sendi honum (Kalla) bókina sína (Gunnu eða Kalla (samhengi sker úr)).

(2) Afturbeyging er oftast notuð innan setninga, eins og í dæmunum í (1) en einnig á milli aðalsetninga og fallsetninga (setninga sem tengdar eru með skýringartengingunni (að-setningar) eða spurnarsetninga (hv-setningar)). — Það er einmitt hér sem nokkurrar óvissu gætir um málnotkun í nútímamáli. Til einföldunar má setja fram tvær þumalputtareglur:

(2a) Ef viðtengingarháttur er í fallsetningu er notuð afturbeyging, t.d.: Hún vonar að bróðir sinn [ekki hennar] komi; hún sagði að sér [ekki henni] fyndist þetta ekkert sniðugt; hún vissi ekki hvort sér [ekki henni] yrði boðið; hún vissi ekki hvort sín [ekki hennar] yrði saknað; Hann sagði að boð Viggós hefði komið sér á óvart [ekki honum (30. 11. 04)].— Innan hornklofa er sýnd málnotkun sem samræmist ekki málvenju.

(2b) Ef framsöguháttur er í fallsetningu er notað persónufornafn: Hún veit að bróðir hennar [ekki sinn] kemur (‘hennar eigin bróðir eða bróðir einhverrar annarrar); hún vissi ekki hvort henni [ekki sér] var boðið; hann vissi að hans [ekki sín] var saknað; hann veit að vel verður tekið á móti honum [ekki sér (Mbl 28. 9. 04)] og öðrum sem banka upp á með söfnunarbauka Rauða krossins. — Orðmyndirnar innan hornklofa samræmast ekki málvenju.

(3) Afturbeyging er aldrei notuð á milli aðalsetningar og atvikssetningar eða samanburðarliðar: Strákurinn er alveg eins og pabbi hans [ekki sinn]; stelpan er alveg eins og móðir hennar [ekki sín]; hann var talinn besti maður liðsins, þrátt fyrir að vera þremur árum yngri en félagar hans [ekki sínir]; Clinton var hærri (vexti) en keppinautar hans [ekki sínir] (2. 11. 04) .

(4) Afturbeyging er aldrei notuð innan nafnliðar: Rauðhetta og amma hennar [ekki sín] borðuðu kökur og K. ítrekaði að kennarar og viðsemjendur þeirra [ekki sínir (18. 10. 04)] yrðu að leysa deiluna.

Það þarf alls enga málfræðikunnáttu til að tileinka sér reglur 1-4 og ekki þurfa menn heldur að kunna skil á hugtökunum frumlag/andlag eða afturbeyging og þaðan af síður að vita nokkuð um vísun innan setningar eða á milli setninga. — Vitaskuld hafa forfeður okkar komist vel af án þess að bera nokkurt skyn á þessi hugtök en afturbeygingu notuðu þeir samt með kerfisbundnum hætti. Umsjónarmaður telur að það séu einkum tvö merkingarfræðileg atriði sem skipta hér máli. Annars vegar er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvort um ‘sömu manneskju’ er að ræða eða ekki, sbr. (1), og hins vegar felur viðtengingarháttur oft í sér vafa (2a) en hvorugt atriðanna ætti að þurfa að vefjast fyrir þeim sem eru mæltir á íslenska tungu.

Flest þeirra dæma sem tilgreind eru undir reglum 1-4 eru fengin úr fjölmiðlum og trúir umsjónarmaður því fastlega að flestir lesendur séu því sammála að mat hans er rétt.

Úr handraðanum

Í fornu máli er sögnin sjóða kunn í merkingunni ‘íhuga e-ð, hugsa fast um e-ð’ og vísar líkingin til matseldar. Augljós merkingartengsl eru á milli þess að langan tíma getur tekið að sjóða e-ð og þess að íhuga e-ð lengi. Fallegt dæmi úr fornu máli sýnir vangaveltur í þessa veru: Því að það sjóðum vér er vér velkjum lengi í hugskoti voru, því að það er almæli að menn sjóði þau ráð, er þeir hafa lengi í hug sér.

Í nútímamáli mun vera algengast að nota sögnina melta (e-ð með sér), t.d.: svo er um flest mál, að menn þurfa að melta þau með sér og Það [bréf] hef eg nú verið að melta með mér þessa dagana. Fyrirmynd þess eða hliðstæðu er að finna í Brennu-Njáls sögu: Undarlega er yður farið er þér vegið víg þau, er yður rekur lítið til, en meltið slíkt og sjóðið fyrir yður, svo að ekki verður af.

Svipuð merkingartengsl er að finna í ýmsum öðrum orðasamböndum, t.d. bræða e-ð með sér (/fyrir sér): Hann er að bræða með sér hvort hann á að gefa kost á sér til framboðs og Eg er að bræða með sjálfum mér uppástungu þína.

Morgunblaðið, 29. janúar 2005