Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   25. nóvember 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 65. ţáttur

Íslenskt mál - 65. þáttur

Flestir munu þekkja orðatiltækið vita/þekkja hvorki haus né sporð á e-m/e-u ‘þekkja e-n alls ekki, vita engin deili á e-m/e-u’ en það vísar til þess er menn vita ekki hvað snýr fram eða aftur á e-m/e-u, sbr. einnig hliðstæðuna skilja hvorki upp né niður í e-u, þ.e. ... hvað upp snýr eða niður. Umsjónarmaður þykist kannast við talmálsmyndina skilja hvorki haus né sporð í e-u og nýlega rak annað afbrigði á fjörur hans: Ég skildi hvorki haus né sporð á því hvernig þetta fyrirtæki gat ... (Frbl. 22.6.05). Það fer ekki á milli mála að hér er skellt saman tveimur ólíkum orðatiltækjum.

Nafnorðið ávæningur, kk. (skylt von (ván), sbr. ávæni ‘líkindi, von til e-s’), merkir oftast ‘lauslegur orðrómur’, t.d.: heyra ávæning af e-u. Umsjónarmaður kannast hins vegar ekki við að nafnorðið ávinning megi nota í sömu merkingu: Ég var búinn að heyra ávinning af þessu [hækkun vaxta] fyrir rúmum mánuði síðan (Blaðið 12.11.05). Menn geta hins vegar haft ávinning af ýmsu, t.d. vaxtahækkunum.

Nafnorðið vonarpeningur vísar til fjár sem sett er á vetur upp á von og óvon (að það lifi af) og merkir því ‘e-ð sem lítils er að vænta af; e-ð sem brugðið getur til beggja vona um’. Merkingin ‘sá sem vonir eru bundnar við’ er ný af nálinni en býsna algeng í nútímamáli, t.d.: Vonarpeningurinn [þ.e. vonarpeningnum] ... mun fátt vera að vanbúnaði í slaginn (Blaðið 12.11.05). Dæmið ber það með sér að vonarpeningur er ekki notaður hér í hefðbundinni merkingu. Eins og sjá má hefur sambeyging einnig farið úr böndum.

Beyging sagnanna munu og skulu er um margt óregluleg. Í 2. pers. nútíðar eru myndirnar (þið) munuð og (þið) skuluð nánast einhafðar en þó bregður fyrir myndunum munið og skulið, t.d.: Ef þið eruð ekki ánægðir skulið þið bara fara (Blaðið 19.11.05). Slík málbeiting er ekki í samræmi við málvenju en hana má rekja til áhrifa frá öðrum sögnum, t.d. (þið) komið, eigið, kaupið.

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður nokkrum sinnum vikið að því að forsetningunum og af er oft ruglað saman í nútímamáli. Í flestum tilvikum er þó skýr merkingarmunur á þessum forsetningum. Forsetningin vísar til hreyfingar að stað (hvert) eða dvalar að stað (hvar) en forsetningin af vísar til hreyfingar af stað (hvaðan). Dvalarmerkingin getur einnig vísað til þess sem kalla má tillitsmerkingu. Því segjum við það er gaman að e-u og það er gagn að e-u eða það er ekkert gagn í e-u (fólgið). Með stofnorðunum gaman og gagn er algengt að nota aðrar forsetningar en þá í öðrum orðasamböndum og í annarri merkingu, t.d. hafa gaman af e-u og hafa gagn af e-u. Hér virðist merkingarmunur blasa við og svo er einnig í flestum þeim tilvikum þar sem óvissu um greinarmun á og af verður vart. Þannig er mikill munur á því að ganga að e-u (vísu) og ganga af e-m dauðum. Eftirfarandi dæmi samræmist því ekki málvenju: Þessu þarf að gefa gaum til þess að þjóðaratkvæðagreiðslur verði ekki að sjálfsmorði lýðræðisins og gangi að [þ.e. af] öllum grundvallargildum þjóðfélagsins dauðum (Frbl. 18.9.05). Dæmi af svipuðum toga eru auðfundin í nútímamáli, t.d. (hefðbundin málnotkun er sýnd innan hornklofa): Lögreglan í Keflavík biður þá sem kunnu [kunna] að hafa orðið vitni af [] atburðunum ... að gefa sig fram (Txt 6.8.05); Honum var áreiðanlega nokkur léttir af [því, að tímasetningar breyttust á þennan veg (Mbl.15.10.05) og Mikill missir af [] NN (Frbl. 8.9.05).

Segja má að óvissan um notkun og af sé að nokkru leyti skiljanleg með tilliti til þess að hljóðfræðilegur munur er ekki mikill í mæltu máli. Þar við bætist að merkingarmunur er ekki ávallt mikill, t.d. gera e-ð af ásettu ráði og gera e-ð að yfirlögðu ráði. Í öðrum tilvikum er erfitt að koma auga á nokkra skynsamlega skýringu, t.d.: afbrigði af veirunni sem veldur fuglaflensu hafi fundist í sýnishornum sem tekin voru af [úr] dauðum fuglum í Rúmeníu (Blaðið 14.10.05) og taka að sér [á sig] ábyrgðina á því að ... (Mbl .30.6.05).

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja orðasambandið út og suður. Atviksorðið út merkir hér ‘norður’ og er því bein merking ‘norður og suður; í andstæðar áttir’ en óbein ‘stefnulaust; að geðþótta’, t.d. aka stefnulaust, út og suður; túlka jafnræðisregluna út og suður og þær [bækur] voru út og suður í láni. Heimildir sýna að þannig hafa Íslendingar notað orðasambandið og viljað hafa það í að minnsta kosti 300 ár. Nýlega rakst umsjónarmaður á nýtt afbrigði: Það opinberast fyrir framan [þ.e. fyrir] alþjóð að stjórnarliðar tala í austur og vestur (Frbl 18.9.05). Hugsunin er vissulega söm en búningurinn annar. Um þetta leyfir umsjónarmaður sér að vitna í gamlan málshátt: Sjaldan fer betur þá breytt er.