Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. nóvember 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 64. ţáttur

Íslenskt mál - 64. þáttur

Orðatiltækið hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi vísar til þess að margir eru djarfari á heimaslóðum, heimavelli (héraðsþingi), en annars staðar. Það mun eiga rætur sínar að rekja til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d.1727): Kúgaðu fé af kotungi, / svo kveini undan þér almúgi; / þú hefnir þess í héraði, / sem hallaðist á alþingi. Orðatiltækið mun ekki vera algengt í nútímamáli en í eftirfarandi dæmi sér hatta fyrir því: ströng meiðyrðalöggjöf var notuð til að hefna þess fyrir dómstóli sem hallaðist á ritvelli (Frbl 26.10.05). Hér þykir umsjónarmanni vel og eftirminnilega að orði komist. 

Orð eru dýr og þau geta verið vandmeðfarin. Menn verða að vanda sig, nota þau í samræmi við málvenju og málkennd almennings. Í dagsins önn og hraða nútímans vill oft verða misbrestur á þessu og skal litið á nokkur dæmi af misjöfnum toga. 

Lýsingarorðið ómetanlegur hefur jákvæðu merkinguna ‘sem ekki verður metinn til fjár; frábær, mikilvægur’. Af því leiðir að ankannalegt er að nota það með nafnorðum sem hafa neikvæða merkingu, t.d. tjón, spjöll, slys, óhapp. Eftirfarandi dæmi kann því að orka tvímælis: getur unnið ómetanleg spjöll á þjóðargersemum á borð við þjóðgarðinum [svo] (Útv. 27.6.05). 

Lýsingarorðið hamslaus er neikvæðrar merkingar og merkir ‘taumlaus; hamstola; ofsalegur’. Það er jafnan notað með orðum neikvæðrar merkingar, t.d. reiði, ofsi. Eftirfarandi dæmi má því telja gallað: Hamslaus fögnuður á Gaza-svæðinu (Frbl. 13.9.05).             

Lýsingarorðið safaríkur merkir ‘sem mikill safi er í; kjarngóður, kröftugur’ og vísar það oftast til ávaxta, einnig kjötbita. Eftirfarandi dæmi hlýtur að teljast afar sérkennilegt: [sýningin er] einhver safaríkasti konfektmoli sem boðið hefur verið upp á hér um árabil (Mbl. 13.10.05). 

Orðatiltækið e-ð er eins og blaut tuska framan í e-n ‘e-ð kemur illa við e-n’ er ungt í íslensku, notað í óformlegum stíl. Einnig er kunnugt orðatiltækið e-ð kemur eins og köld vatnsgusa framan í e-n/(yfir e-n) ‘e-ð kemur e-m (skyndilega) að óvörum’ og eru rætur þess í íslensku býsna gamlar. Þessu tvennu má helst ekki rugla saman eins og í eftirfarandi dæmi: Það [niðurstaðan í réttarkerfinu] er dálítið eins og köld tuska framan í fórnarlömb þessara brota (Blaðið 15.10.05).

 Sögnin valda tekur með sér andlag sem jafnan vísar til e-s huglægs, t.d. valda (e-m) áhyggjum, ónæði, erfiðleikum eða e-ð veldur skaða, misskilningi, uppnámi, heilabrotum. Hins vegar er framandlegt að komast svo að orði að valda sári, t.d.: Fimm gistu fangageymslur vegna rannsóknar málsins en óljóst er hver olli manninum stungusárum (Txt 6.8.05). Hér væri eðlilegra að segja: ... hver veitti manninum stungusár

Enskra áhrifa gætir í æ vaxandi mæli í íslensku. Annars vegar er um beinar slettur að ræða þar sem ætla má að við blasi að um erlent tungutak er að ræða, t.d.:  bæ, bæ-bæ,, meika það, seifa e-ð, bögga e-n, ókei o.s.frv. Nýlega barst umsjónarmanni skeyti frá erlendum manni sem spurði hvort leyfilegt væri að nota slíkt góss í íslensku. Hverju skal svara? Hér er enginn eftirlitsmaður sem leyfi eða banni eitt eða annað í málfarslegum efnum. Slíkt fer eftir málkennd og smekk manna. Umsjónarmaður telur þó að hráar enskuslettur hljóti að teljast tálmálseinkenni sem ekki eigi heima í vönduðum stíl. 

Ensk áhrif koma einnig fram í því að erlend orð og orðasambönd eru þýdd á íslensku, þannig að yfirbragð og búningur virðist vera íslenskt. Um þetta skulu tilgreind okkur dæmi: Það fer ... að verða ansi þunn línan á milli þess sem KEA er að gera núna og þess að stíga skrefið til fulls og bera hreinlega fé á menn (Blaðið 18.7.05) [e. thin line]; Ellefu mánuðum eftir skilnaðinn frá Jóakim ... (Frbl. 12.8.05) [e. divorce from]; Síðan er það opin spurning hvernig fuglaflensunni í Asíu vindur fram (Mbl. 8.10.05) [e. open question]; þegar menn sitja [svo] börn sín af við leikskóla (Frbl .1.10.05); líkamlegt heilbrigði er það sem flestir meta mest þótt það vilji oft vera tekið fyrir sjálfsagðan hlut (Mbl. 26.9.05) [e. take for granted] og Samfylkingin hefur stutt framboðið og við höfum ekki séð ný rök fyrir því að hoppa af þessum vagni (Frbl. 18.9.05) [e. jump off the wagon]. Umsjónarmanni þykja þessi dæmi ekki til fyrirmyndar en leggur þau í dóm lesenda. 

Úr handraðanum

Hvorugkynsnafnorðið unnvarp, flt. unnvörp, merkir ‘það sem bylgjur kasta á land; hrönn í flæðarmáli’. Það er algengt í fornu máli, t.d. : fellu Vindur svo þykkt sem unnvarp/unnvörp lægi. Í nútímamáli er algengast að nota það atvikslega (í) unnvörpum ‘(í) hrönnum; í ríkum mæli’ og er sú notkun forn, t.d.: en fólkið fell niður unnvörpum; fólkið sneri unnvörpum við og fénaður féll unnvörpum. Merking atviksorðsins unnvörpum virðist nokkuð ljós. Upphaflega vísar það til þess að bylgjur brotna hver eftir aðra, hver á eftir annarri. Síðar fær það merkinguna ‘í miklum mæli’.

Ýmsar hliðstæður eru auðfundnar, t.d. hrönnum, í hrönnum og hrönnum saman, sbr. enn fremur orðasambandið e-ð hrannast upp. Það kom því umsjónarmanni á óvart að rekast á fyrirsögnina: Sameiningartillögum var umvörpum hafnað í kosningum í gær (Frbl. 9.10.05). Hér er á ferðinni framburðarmyndin umvörpum sem á sér enga stoð í heimildum né ætti að sjást í vönduðu máli.