Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   14. febrúar 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 21. ţáttur

Íslenskt mál - 21. þáttur

Það er alkunna að sum orð eru vandmeðfarnari en önnur. Eitt af mörgum ‘erfiðum’ orðum í íslensku er sögnin að ljá. Beyging hennar hefur að vísu breyst nokkuð í aldanna rás en flestir munu þó sammála um að í nútímamáli sé beyging hennar eftirfarandi:

ljá (ég ljæ, þú ljærð, hann/hún ljær) - léði - léð, þgf.-þf./ef.

Þannig getum við sagt:

  • einhver ljær einhverjum vopnin í hendur
  • einhver ljær ekki máls á einhverju
  • guð léði honum/henni langlífis
  • honum/henni voru léðir peningar
  • ljá einhverju eyra.

Meistari Jón Vídalín segir: Ekki er lán lengur en léð er, og í fornu máli má lesa: Engum er alls léð né alls varnað (‘enginn getur allt né ekkert’) og Þeir eru sumir er mikillar hyggjandi (‘mikilla vitsmuna’) er léð.

Öll þessi dæmi samræmast vafalaust vel málkennd flestra en í talmáli gætir þó tvenns konar breytinga. Annars vegar bregður nútíðarmyndinni ?ljáir fyrir (í stað ljær) og í lýsingarhætti þátíðar sést hins vegar myndin ?ljáð (í stað léð) alloft.

Slíka notkun má oft sjá í orðasambandinu ljá ekki máls á e-u, t.d.: ?hann ljáir [þ.e. ljær] ekki máls á að draga sig í hlé og ?Verkalýðshreyfingin hefur ekki ljáð [þ.e. léð] máls á því að atvinnuleysisbætur verði skertar.

Hér er á ferðinni svo kölluð áhrifsbreyting. Sagnir sem eru svipaðar sögninni ljá að búningi en ólíkar að beygingu (spá-spáði-spáð; þrá-þráði-þráð) hafa áhrif á beyginguna. Þessi breyting er ekki viðurkennd enda sér hennar hvergi stað í vönduðu ritmáli.

Notkun og beygingu sagnarinnar ljá er rækilega lýst í orðabókum, t.d. í Íslenskri orðabók, og í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna fjölmörg dæmi sem sýna notkun hennar með ótvíræðum hætti. Hér ber því allt að sama brunni og þeir sem skrifa í fjölmiðla og vilja vanda mál sitt ættu að nota sögnina að ljá eins og flestir kjósa að nota hana.

Sögnin að ljá er að því leyti óregluleg að nútíðarmyndin ljæ er ‘sterk’ í þeim skilningi að hún er mynduð eins og nútíð af sumum sterkum sögnum (fá-fæ; flá-flæ; slá-slæ). Það er því skiljanlegt að ‘veika’ nútíðarmyndin ?ljáir skuli stundum skjóta upp kollinum. Stundum er reyndar farin hin leiðin ef svo má að orði komast, af sumum veikum sögnum er þá mynduð ‘sterk’ nútíð. Dæmi af þessum toga eru t.d. ??ég skræ mig á námskeiðið og ??ég spæ í þig, þú spærð í mig.

Ég hef merkt þessi dæmi með tveimur spurningarmerkjum enda finnst mér breytingin ég spái > ??ég spæ enn verri en ég ljæ > ?ég ljái og auk þess held ég að hún sé sjaldgæfari. Í nokkrum tilvikum þykist ég reyndar hafa orðið þess var að menn noti slíkar orðmyndir vísvitandi, sér og öðrum til ‘skemmtunar’, líkt og er búningi fastra orðasambanda er breytt í sama tilgangi.

Ég hef lengi haft efasemdir um það er menn gera sér það að leik að skrumskæla orðatiltæki eða snúa út úr þeim og tel að slíkt geti ruglað málkennd unga fólksins því að Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Sem dæmi um þetta má nefna að fyrir um 15 árum heyrði ég málhagan kunningja minn taka svo til orða að eitthvað væri út í Hróa hött. Þetta lét alls ekki illa í eyrum í fyrsta skipti en nú heyri ég oft talað um að eitthvað sé út í Hróa og þá finnst mér mesta gyllingin farin af. Ég býst við að sumir muni telja þetta bera vott um að undirritaður sé gjörsneyddur öllu skopskyni en það er með þetta eins og margt annað: Of mikið má að öllu gera.

Úr handraðanum

Í síðasta þætti var vikið að málshættinum Orð skulu standa.

Hann minnir á ýmis orðasambönd er vísa til orðheldni og getur verið gaman að velta fyrir sér þeirri hugsun sem þar liggur að baki. Í fornu máli er t.d. kunnugt orðasambandið ganga með orðum sínum en það merkir ‘ganga jafn langt og orð manns ná’ > ‘standa við orð sín’. Þetta orðasamband mun dáið drottni sínum en í svipaðri merkingu er nú notað orðasambandið standa við orð sín ‘efna það sem lofað hefur verið, halda loforð sitt’.

Elstu dæmi um það eru frá miðri 18. öld: standa við orð sín/hvert orð og standa við sama ‘halda fast við fyrri framburð’. Það á sér samsvörun í dönsku [stå ved sit (givne) ord]. Í íslensku er þó að finna ýmsar eldri hliðstæður (frá 17. öld), t.d.: Út af öllu undanförnu stend eg þar við, að ... og standa við framburð sinn.

Ekki ósvipað orðafar er notað til að vísa til þess er menn standa ekki við orð sín en hugsunin að baki er talsvert önnur. Í þeirri merkingu er kunnugt í fornu máli orðasambandið ganga á bak orðum/(málum) en það breyttist á 19. öld í nútímamyndina ganga á bak orða sinna ‘svíkja það sem um var samið; standa ekki við e-ð’.

Orðasambandið ganga á bak e-u merkir hér ‘ganga eftir e-u, á eftir e-u’, þ.e. ‘ekki jafn langt og, standa ekki við orð sín’, sbr.: ganga á bak e-m (‘á eftir e-m’) og ganga á bak griðum (‘svíkja, halda ekki’). Eins og áður gat eru elstu dæmi um nútímamyndina ganga á bak orða sinna frá 19. öld en sem sjá má felst breytingin í því að á bak e-u > á bak e-s, þ.e. skilningur manna á því sem að baki liggur hefur breyst en merkingin helst.

Í hnotskurn má segja að um sé að ræða þrjú ferli.

  1. ganga með orðum sínum (‘jafn langt og’ > ‘halda orð sín’)
  2. ganga á bak orða sinna (‘á eftir’ > ‘svíkja’)
  3. standa við orð sín (‘staðarlegt’ > ‘efna orð sín, halda í heiðri’).

    Morgunblaðið, 14. febrúar 2004