Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   29. október 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 63. ţáttur

Íslenskt mál - 63. þáttur 

Orðatiltækið reka upp ramakvein vísar til mótmælaóps og á það alllanga sögu í íslensku. Það á rætur í Biblíunni (Matt 2, 18) og er sniðið eftir heiti á borg (Rama) sem kunn er úr ritningunni. Í nútímamáli eru tengslin við Rama rofin og rama- stendur sem herðandi forliður. Þótt orðatiltækið sé ekki gagnsætt hefur notkun þess ávallt verið í föstum skorðum í íslensku. Umsjónarmann rak því í rogastans er hann rakst á eftirfarandi dæmi: Maðurinn sem rak upp rammakvein í setningarræðu ... (Blaðið 15.10.05). Vera má að hér gæti áhrifa frá lo. rammur en trúlegast er þó að prentvillupúkinn hafi hér brugðið á leik.

Ofnotkun orða og orðasambanda getur verið hvimleið. Þess eru mörg dæmi að einstök orð færi út kvíarnar ef svo má að orði komast og séu notuð í tíma og ótíma. Eitt þessara orða er sögnin minnka eins og umsjónarmaður hefur reyndar áður vikið að í pistlum sínum. Flestir ættu að geta verið sammála um að eftirfarandi dæmi séu óvenjuleg: samráð olíufélaganna minnkaði að mun á rannsóknartímbilinu (14.1.04); minnka hörmungar milljóna manna um allan heim (5.11.04); minnka möguleika á þess konar skattsvikum (13.12.04); Blair ... vill minnka drykkjuhraðann (23. 3.04); minnka þjónustuna á veitingahúsi (8.3.05); mikilvægi heimsstyrjaldarinnar síðari í heimssögunni mun ekki minnka (8. 5.05); ólíklegt að áhugi manna á henni [styrjöldinni] minnki í bráð (8.5.05); biðlistar hafa minnkað til muna (29.5.05); Áróður einn og sér minnkar ekki umferðarhraða (28.9.04); barnadauði minnkar fæðingatíðni (2001); bjóða upp á minnkun kennsluskyldu (30.9. 04); Það var stofnað til þess að minnka hættuna á stríði (22.6.04); stækka þann ágreining sem fyrir var í stað þess að minnka hann (7.7.04). Umsjónarmanni virðist eðlilegt að nota sögnina draga úr í flestum ofantalinna dæma. Það er t.d. eðlilegt að segja og skrifa draga úr samráði, draga úr drykkju og draga úr hættu. Auk þesserhefð fyrir því að tala um að skerða þjónustu, áhugi réni og biðlistar styttist.

Annað dæmi um orðalag sem virðist njóta vinsælda um þessar mundir er sagnarsambandið koma að e-u ‘eiga aðild að; eiga þátt í’ og nafnorðið aðkoma. Nú virðist hið hefðbundna orðasamband taka ákvörðun ekki lengur nægja sumum, þeir kjósa að koma að ákvarðanatöku (Frbl. 23.6.05) eða eiga aðild að ákvarðanatöku (Útv. 14.10.05). Önnur dæmi af svipuðum toga: Almennir stuðningsmenn fái aðkomu og áhrif á það hvernig ... (Frbl. 13.8.05) og Sýrlendingar komu að morði Hariris (‘voru viðriðnir morðið’) (Mbl. 21.10.05). Auðvitað er það svo að orðasambandið koma að e-u er algengt, t.d. koma að húsinu/bænum; koma að landi; koma austan/vestan að landinu og Maðurinn koma þar að sem ... en eins og sjá má vísa þau jafnan til hreyfingar. Hitt virðist nýmæli að tala um að koma að lausn máls, deilumáli, ákvörðun, viðskiptum, útgerð ... í merkingunni ‘tengjast; eiga aðild að’. Umsjónarmaður fær að vísu ekki séð að slík málnotkun geti beinlínis talist röng en vart getur hún talist fögur, allra síst þegar tönnlast er á slíkum orðasamböndum í tíma og ótíma.

Norðurlöndin eru ein heild og það eru einungis til ein Norðurlönd. Þess vegna er ekki rökrétt að tala um hin Norðurlöndin ‘annars staðar á Norðurlöndum’, t.d.: hlutfall þjóðartekna, sem renni til hins opinbera, sé verulega lægra á Íslandi en hinum Norðurlöndunum (22.10.05).

Úr handraðanum

Í skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen segir frá því að Ingveldur móðir Sigríðar hafi svipast um eftir mannsefni fyrir dóttur sína. Fyrir valinu varð Guðmundur, sonur Bárðar á Búrfelli. Í augum Ingveldar hafði Gvendur þessi þann augljósa kost að hann átti vellauðuga að. Sigríður var ekki sömu skoðunar og móðir hennar. Hún fann það einkum til að maðurinn væri óálitlegur og enn fremur að hann væri mjög svo fákunnandi. Ingveldur var ekki í vandræðum með að svara þessum aðfinnslum. Um fyrra atriðið kvað hún fegurðina ekki til frambúðar og um hið síðara kvað hún ekki bókvitið í askana látið. — Hér er vel að orði komist, svo vel að ummæli Ingveldar hafa lifað með þjóðinni sem spakmæli. Hið fyrra (Fegurðin er ekki til frambúðar) virðist tímalaust og heldur gildi sínu.  Um hið síðara (Bókvitið verður ekki í askana látið) gegnir nokkuð öðru máli. Á þeim tímum er lífsbaráttan var hörð má til sanns vegar færa að mikilvægast hafi verið að hafa í sig og á. Nú á tímum velmegunar munu hins vegar flestir telja bókvit (menntun og annað sálarfóður) gulls ígildi.