Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   1. október 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 61. ţáttur

Íslenskt mál - 61. þáttur

Orðatiltækið nú tekur/þá tók steininn úr ‘e-ð keyrir úr hófi, nú kastar/þá kastaði tólfunum’ mun ekki vera algengt í nútímamáli. Líking sú sem að baki liggur er óljós en Halldór heitinn Halldórsson taldi að átt væri við stein sem notaður hefur verið til að stífla e-ð. Þótt líkingin kunni að vera óljós er merkingin skýr og búningurinn er fastmótaður. Ef menn kjósa að nota orðatiltækið verða þeir að fara rétt með það en því er ekki að heilsa í eftirfarandi dæmi: Botninn tók þó úr þegar .... [ónefndir flokksmenn] skipuðu hreppstjóra ... sem formann stjórnar sjúkrahússins (DV 9.9.05). Hér er trúlega um að ræða áhrif frá orðasambandinu ná botninum, þ.e. botninum var þó náð ‘komið var að endimörkum e-s slæms’. 

Ónefndur nemandi spurði þann sem þetta skrifar eitt sinn að því ‘hvort það væri ekki svo að hálf þjóðin hefði ekki hugmynd um hvenær nota ætti forsetninguna  og hvenær af’. Ég svaraði því til að því færi fjarri, merking forsetninganna skæri úr um notkun þeirra og væri hún í stórum dráttum alveg skýr. Því er minnst á þetta hér að samviska mín sem kennara var ekki alveg hrein, að mér sótti efi, kannski var málið ekki eins einfalt og ég vildi vera láta. Í sömu átt benda fjölmög dæmi úr nútímamáli sem mér virðast ekki samræmast hefðbundinni málnotkun. Skal nú vikið að nokkrum slíkum. 

Það er auðvitað ógerningur að fjalla um notkun forsetninganna og af í stuttu máli en hér skal vikið stuttlega að merkingu þeirra. Grunnmerking forsetningarinnar er staðarleg [hvar] og þessa sér stað í ýmsum samböndum, t.d.: Bragð er að þá barnið finnur; búa að e-u alla sína ævi; Lengi býr að fyrstu gerð; sitja einn að e-u/sínu og enn er hann/hún að. Eina undirmerkinga forsetningarinnar má kalla tillitsmerkingu og því segjum við: gaman er að e-u; henda gaman að e-u; gagn er að e-u ; missir/eftirsjá er að e-m og fengur er að e-u.

Grunnmerking forsetningarinnar af vísar til hreyfingar af stað [hvaðan] og því tölum við um að hafa gaman af e-u; hafa gagn af e-u og hafa not af e-u og í óbeinni merkingu segjum við: gera e-ð af ásettu ráði og eiga heiðurinn af e-u.

Umsjónarmanni virðast ofangreind dæmi og fjölmörg hliðstæð segja sína sögu og á grundvelli þeirra má búa til hagnýta reglu:

Með sögninni vera (sem vísar til kyrrstöðu) er forsetningin oft notuð (gaman er að e-u; gagn er að e-u; mér er ánægja að því að ...) en með sögninni hafa er forsetningin af oft notuð (hafa gaman af e-u; hafa ánægju af e-u; hafa gagn af e-u).

Það er vitaskuld ofrausn að tala um ‘reglu’ í þessu samhengi, sönnu nær væri að tala um vísbendingu sem ætti að fá staðfestingu í málkennd flestra.

Lýsingarorðið ábótavant (lo.hk.) merkir í beinni merkingu ‘sem vantar á bætur’ og er það myndað á grundvelli orðasambandsins mikilla bóta er á e-ð vant. Í nútímamáli er það algengt í orðasambandinu e-u er (mjög, nokkuð, talsvert) ábótavant, t.d.: Viðhaldi flug­vélar­innar er ábótavant. Af dæminu má sjá að orðasambandið er notað ópersónulega. Eftirfarandi dæmi samræmist því ekki málvenju: Það styrkir þá mynd að eftirlitið í fyrirtækinu hafi verið ábótavant (Mbl. 9.9.05).


Með sögninni detta getur forsetningin á stýrt hvoru sem er, þolfalli eða þágufalli, en með merkingarmun, t.d.: Maðurinn datt á dansgólfið eða maðurinn datt á dansgólfinu. Sömu sögu er að segja af fjölmörgum hliðstæðum, t.d. e-ð skellur á e-ð (e-u). Flestum mun í fersku minni að fellibylur gekk yfir suðurhluta Bandaríkjanna. Flestir kjósa trúlega að tala um að fellibylur skelli á borgina/ströndina með vísan til hreyfingar enda virðist það vera í samræmi við málkerfið, t.d.: Bifreiðin skall á vegginn. Í fjölmiðli var hins vegar sagt frá því að fellibylurinn hefði skollið á borginni. Ugglaust má til sanns vegar færa að við getum sagt hvort sem er bylurinn skall á borgina eða bylurinn skall á borginni (‘lenti á henni’), hér hlýtur málkennd og smekkur að skera úr en það getur verið gaman að velta atriðum sem þessum fyrir sér.

Þjóðfélagshættir breytast sem og verkalag og verkefni manna. En mannskepnan er ávallt söm við sig. Hún moðar úr því sem hún fæst við og áhuginn beinist að hverju sinni og upp spretta ný orðatiltæki og nýjar líkingar. Tíminn og smekkur manna ræður því síðan hvað af þessu góssi er sett á og hvað fæðist andvana. Í nútímamáli er að finna aragrúa orðasambanda sem rekja má til nýjunga í umhverfi okkar. Sem dæmi má nefna að skömmu eftir miðja síðustu öld skrifaði Jóhanna Kristjónsdóttur skáldsöguna Ást á rauðu ljósi. Heiti bókarinnar var allt í senn nýstárlegt, eftirminnilegt og gagnsætt að merkingu enda seldist bókin vel. — Flestir munu aka yfir gatnamót á grænu ljósi enda er það lögbrot að aka á rauðu ljósi. Nýlega las umsjónarmaður í blaði að vörubifreiðinni hafi verið ekið yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi (20.8.05). Hér mun gæta enskra áhrifa (against).

Úr handraðanum

Í máli skákmanna er algengt að tala um að þetta eða hitt liggi óbætt hjá garði, t.d.: Hrókurinn liggur óbættur hjá garði ‘engar bætur koma fyrir hrókinn’. Orðatiltækið er að finna í Njáls sögu: Hafa fáir vorir frændur legið óbættir hjá garði vorum, svo að vér hafim eigi hefnt og Eyrbyggja sögu: en engir liggja heimamenn Arnkels ógildir hjá garði hans, þeir er Snorri hefir drepið, sem Haukur, fylgdarmaður Snorra, liggur hér hjá garði hans, er Arnkell hefir drepið. — Garður vísar hér til ‘heimilis, bæjar’ og fsl. hjá garði vísar þá til nálægðar. Óbættur/ógildur merkir ‘sem engar bætur koma fyrir’ og í dæminu úr Njálu merkir fáir ‘engir’.