Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   28. febrúar 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 22. ţáttur

Íslenskt mál - 22. þáttur

Flestir munu kannast við hugtökin persónuleg og ópersónuleg sögn.

Sagt er að sagnorð sé notað persónulega ef það stendur með frumlagi í nefnifalli og þá sambeygist það jafnframt frumlaginu í persónu og tölu. Dæmi um slíka notkun eru t.d.: Maðurinn ber þunga byrði og Við berum fulla ábyrgð á verkinu. Rétt er að vekja athygli á að í fyrra dæminu er frumlagið Maðurinn jafnframt gerandi, sá sem framkvæmir þann verknað sem um ræðir, og sama á við um frumlagið Við í síðara dæminu.

Sagnorð sem notað er ópersónulega stendur hins vegar með fallorði í aukafalli og sambeygist því ekki, heldur stendur það ávallt í 3.p.et. Sem dæmi um ópersónulega notkun sagnorða má nefna: Lögregluna bar þar að sem ... og Mennina bar þar að sem ... Eins og sjá má er sögnin bera notuð með allt öðrum hætti í síðari tveimur dæmunum en þeim dæmum sem sýna persónulega notkun.

Munurinn er hvort tveggja í senn setningafræðilegur og merkingarfræðilegur. Setningafræðilegi munurinn felst eins og áður sagði í því að persónulegar sagnir sambeygjast frumlaginu í persónu og tölu en ópersónulegar sagnir standa ávallt í 3.p.et.

Merkingarfræðilegur munur persónulegra sagna og ópersónulegra er einkum sá að í fyrra tilvikinu er stendur frumlagið sem gerandi (Ég rek kindurnar) en ekki því síðara (Mig rekur ekki minni til að hafa sagt þetta). Þessi munur er mikilvægur þar sem ætla má að hann ráði því hvort sögn er notuð persónulega eða ópersónulega og hann er einnig til þess fallinn að skýra hvers vegna óreglu gætir oft um notkun ópersónulegra sagna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að oft verður vart ruglings er varðar persónulega eða ópersónulega notkun sagnorða. Ruglingur þessi er að vísu margs konar en til einföldunar skulu hér aðeins nefnd þrjú tilvik.

 1. Flestar ópersónulegar sagnir taka með sér þágufall, t.d.:
  • mér blöskrar (verðlagið)
  • mér brá (í brún) þegar ...
  • mér finnst gaman
  • mér líkar þetta ekki
  • mér sýnist þetta vera rétt
  • mér þykir þetta ósvífið
  Miklu færri ópersónulegar sagnir taka með sér þolfall, t.d.:
  • mig dreymdi merkilegan draum
  • mig langar að segja nokkur orð
  • mig minnir að ...
  • hana skortir e-n hlut
  • mig vantar ekkert
  • þig varðar ekkert um þetta
  Ópersónulegar þgf.-sagnir skipta tugum í íslensku en ópersónulegar þf.-sagnir eru miklu færri enda eiga þær nokkuð undir högg að sækja. Þeirrar tilhneigingar gætir nokkuð að nota þær sem þgf.-sagnir, t.d. er þá sagt ?mér langar í stað mig langar og ?strákunum vantar snerpu í stað strákana vantar snerpu. Þetta fyrirbrigði er oft kallað þágufallssýki, vafalaust í viðleitni til að kveða þennan draug niður. Undirrituðum þykir einboðið að hér ráði málvenja.

 2. Fjölmargar sagnir er ýmist unnt að nota persónulega eða ópersónulega (ég ber - mig ber - mér ber) og í grófum dráttum má segja að merking ákvarði notkunina.

  Ef frumlagið er gerandi er notkunin jafnan persónuleg en annars ópersónuleg.

  Þessi munur kemur glöggt fram ef hugað er að merkingu, t.d. er sagt: Kirkjuna bar við himin en ekki ?kirkjan bar við himin og bátinn bar að landi en ekki ?báturinn bar að landi enda hlýtur það að blasa við að hvorki kirkjan né báturinn getur gegnt hlutverki geranda í þessum dæmum.

  Þótt merkingarmunur sé skýr ber það alloft við að sögn er notuð persónulega þar sem merking krefst þess að hún sé notuð ópersónulega. Mér var bent á slíkt dæmi í einni jólabókanna en þar gat að líta: ?Hvalurinn var rekinn upp á Oddeyrina þegar þau áttu leið þar hjá. Slík málbeiting stangast á við málvenju og þau atriði er drepið var á hér að ofan.

 3. Örfáar sagnir eru þeirrar náttúru að þær taka með sér frumlag þótt vant sé að sjá að það geti samsvarað geranda. Sagnir af þessum toga eru:
  • ég/hún hlakkar til (e-s)
  • við hökkum til
  • þið hlakkið til
  • ég kvíði fyrir (e-u)
  • ég kenni í brjósti/(brjóst) um e-n
  Miðað við merkingu eiga þessar sagnir samleið með ‘gerandlausum sögnum’ og því þarf ekki að koma á óvart að þær eru oft notaðar ópersónulega: ?mig/mér hlakkar til í stað ég hlakka til og ?okkur kvíðir fyrir e-u í stað við kvíðum fyrir e-u.

  Af þessum toga var texti undir opnuauglýsingu sem birtist í blaði: ?Okkur hlakkar til að sjá þig í bíósölum okkar. Hér hefði auglýsandinn eða auglýsingastofan mátt vanda sig betur því að slík málbeiting samræmist ekki málvenju.

Úr handraðanum

Veika sögnin renna (renna, renndi,rennt) er dregin af annarri kennimynd sterku sagnarinnar renna (renna, rann, runnum, runnið) og í orsakarmerkingu stýrir hún þágufalli, t.d.: renna (kaffi) í bollana og renna (vatni) á (kaffi)könnuna.

Orðasambandið renna grun í e-ð eða renna í grun merkir ‘e-n grunar e-ð, e-r hefur hugboð um e-ð’, t.d.: Enginn gat rennt í grun hverjar afleiðingarnar yrðu af náttúruhamförunum og Fer eg þá að renna grun í, hver hún muni vera.

Af dæmunum má sjá að þar er sögnin renna notuð persónulega (einhver rennir grun (þgf.) í e-ð). Slík málbeiting er í fullu samræmi við dæmi úr fornu máli (renna grun/grunum í/á) og í orðabók Sigfúsar Blöndals (1922-24) er einungis sú notkun tilgreind.

Í nútímamáli er orðasambandið hins vegar oft notað ópersónulega, sbr. Íslenska orðabók: e-n rennir grun í e-ð ‘e-n grunar e-ð’. Í máli þeirra sem kjósa að nota orðasambandið með þessum hætti hefur því orðið breyting og er hún reyndar auðskilin, um er að ræða áhrifsbreytingu sem stafar af merkingunni, þ.e. e-r rennir grun (þgf.) í e-ð verður trúlega fyrst e-r rennir í e-ð grun og síðan e-n rennir í grun (‘e-n grunar e-ð’).

Ætla má að það sé merkingarbreyting sem kemur ferlinu af stað eða veldur breyttri notkun. Með sögninni renna var ávallt notaður gerandi (ég renni grun í e-ð) en merking orðasambandsins renna í grun (‘e-n grunar’) veldur því að gerandmerkingin bliknar enda fellur orðasambandið að nokkru leyti að munstri ýmissa ópersónulegra sagna (mig óraði ekki fyrir því ...).

Sá sem þetta ritar hefur vanist fyrri myndinni (ég renni grun í e-ð).

Morgunblaðið, 28. febrúar 2004