Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   17. september 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 60. ţáttur

Íslenskt mál - 60. þáttur

Orðatiltækið sitja við kjötkatlana í merkingunni ‘njóta hins besta; vera nálægt þeim sem tekur ákvarðanir og njóta góðs af’ er algengt í nútímamáli. Það á rætur sínar að rekja til Biblíunnar (2. Mós 16, 3) og vísar upphaflega til hins góða og áhyggjalausa tíma er gyðingar sátu yfir soðkötlum í Egyptalandi. Í nútímamáli vísar líkingin trúlega til þess að þeir sem næst sitja kjötkötlunum eiga auðveldast með að krækja sér í bestu bitana, svipað og þeir sem sitja við þann eldinn sem best brennur.Nútímamyndin er býsna gömul en stundum ber við að í stað forsetningarliðarins við kjötkatlana séu notaðir aðrir, t.d. umhverfis kjötkatlana eða að kjötkötlunum, t.d.: ... þegar menn sitja of lengi að kjötkötlunum ... er sem stjórnarherrarnir fari full frjálslega með vald sitt (Frbl 13.8.05). Slík málbeiting samræmist ekki málvenju en hana má rekja til merkingarskyldra orðasambanda, t.d. sitja einn að sínu eða að sínu er best að búa.

Orðatiltækið reisa sér hurðarás um öxl ‘færast of mikið í fang; ætla sér ekki af’ er gamalt í íslensku (17. öld) og búningur þess er fastmótaður. Líkingin er augljós, hurðarás ‘dyratré, þverbjálki yfir dyrum’ hefur þótt þungur og lítt meðfærilegur og því verða þeir sem ‘taka sér eða reiða sér hurðarás um öxl’ að vera menn til að ráða við hann, annars getur farið illa. Nafnorðið burðarás vísar hins vegar til meginstoðar, áss sem ber e-ð eða heldur e-u uppi. Ekki gengur að rugla saman burðarási og hurðarási eins og gert er í eftirfarandi dæmi: Ungt fólk er farið að stunda mun meiri viðskipti en áður og reisir sér því miður oft burðarás um öxl (Blaðið, 30.8.05). Umsjónarmanni þykir dæmið bera vott um lítt skiljanlegt klúður en góðviljaðir menn kynnu að vilja líta svo á að hér hafi prentvillupúkinn verið á ferð.

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður nokkrum sinnum vikið að því að í nútímamáli hefur hlaupið mikill vöxtur í orðasambandið vera + að + nafnáttur (dvalarhorf) . Það er eldfornt í íslensku að þessi orðskipan geti vísað til dvalar eða ástands, t.d.: Hann/hún er að skrifa bréf. Hins vegar hafa Íslendingar fram til þessa verið sammála um að ekki gengur að segja *Hann/hún er að skrifa vel. Ástæðan er sú að í fyrra tilvikinu er um að ræða verknað sem er afmarkaður í tíma (skrifa bréf) en síðara dæmið (skrifa vel) er tímalaust ef svo má segja, það er ekki afmarkað í tíma.

Það er nýmæli að nota nafnháttarsambönd sí og æ án tillits til merkingar og trúlega á það uppruna sinn í íþróttamáli, t.d. liðið er að leika vel; markmaðurinn er að standa sig vel í markinu og við erum ekki að spila flókinn fótbolta. Umsjónarmaður telur að þessa hafi fyrst tekið að gæta upp úr 1990 og þá einkum í íþróttalýsingum. Nú virðist honum hins vegar svo komið að málbeitingar þessarar gæti á öllum sviðum málsins. Um þetta skulu tilgreind nokkur dæmi (ekki verður hirt um að tilgreina heimildir en innan sviga skal sýnd hefðbundin málbeiting): laun stjórnenda banka eru að hækka umfram önnur laun (hafa hækkað); Flugið er að hagnast (hefur skilað hagnaði; skilar hagnaði); Við erum að horfa á ýmis tækifæri (við sjáum ýmis tækifæri); Landið er að fá þjónustu (fær þjónustu); Við erum að sjá útrás í dag (nú má sjá útrás); Fyrirtækið er að sigla lygnan sjó (siglir lygnan sjó); Fyrirtækin eru að eiga í viðskiptum (eiga viðskipti); Það er ekkert að ganga hjá okkur (ekkert gengur); draga úr kennslu sem er ekki að skila okkur tekjum (skilar ekki) og Ferðaþjónustan er ekki að bregðast nógu hratt við (hefur ekki brugðist nógu hratt við).

Nú má vel vera að sumum þyki málbeiting þessi í alla staði eðlileg, jafnvel ‘flott’, en umsjónarmanni þykir hún ekki rismikil. Þess ber einnig að gæta að í máli þeirra sem nota nafnháttarsambönd í síbylju glatast sá merkingarmunur sem er á ósamsettri sögn og orðasambandinu vera að + nh. Sem dæmi má taka að mikill merkingarmunur er á því að segja Kennarinn les mikið og Kennarinn er að lesa bókina. Þessi munur hverfur í máli þeirra sem kjósa að segja Kennarinn er að lesa mikið og Kennarinn er að lesa bókina.

Kunningi umsjónarmanns sagði honum frá því að hann hefði átt von á greiðslu sem ekki barst. Hann sendi banka sínum fyrirspurn um þetta efni. Hann fékk eftirfarandi svar: Tölvan er ekki að finna færsluna. — Um þetta finnst umsjónarmanni viðeigandi að nota gamlan málshátt: Ekki er það vakurt þótt riðið sé.

Úr handraðanum

Eitt einkenna íslensku er að hún er afar gagnsæ, í flestum tilvikum má auðveldlega ráða merkingu orðasambanda af merkingu einstakra liða. Sem dæmi má taka að það mun ekki vefjast fyrir mönnum að ráða í merkingu orðasambandanna ganga frá e-u [frágangur] og e-ð gengur af [afgangur]. Slíkur skilningur er hluti af eðlilegri málkennd. Í sumum tilvikum hafa þó þær líkingar, sem liggja að baki tilteknum orðasamböndum, bliknað með breyttum þjóðfélagsháttum. Sem dæmi má taka að ætla má að orðasambandið snúa á e-n ‘leika á e-n’ sé ekki lengur gagnsætt, það liggur ekki í augum uppi hver upphafleg vísun þess er. Í slíkum tilvikum nægir oft að tilgreina eitt dæmi, þá blasir uppruninn við.

Umsjónarmaður rakst á eftirfarandi dæmi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (innan hornklofa eru innskot umsjónarmanns): tekur [hann] nokkur áratog í svo miklum jötunmóði, að hann snýr á Jón. Jón finnur fljótt, hvaðan á sig stendur veðrið, færist þá einnig í ásmegin, og réttir svo af sér, að hann snýr [bátnum] á hina. — Það er óþarft að hafa mörg orð um þetta dæmi, hver og einn getur séð að líkingin vísar hér til kappróðurs. Tveir menn róa, sinn á hvort borð, og öðrum tekst að snúa [bátnum] á hinn (rær svo knálega að báturinn snýst á hinn). Merkingarbreytingin snúa á e-n ‘hafa betur í róðri; sigra e-n’ > snúa á e-n ‘leika á e-n’ er auðskilin.