Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   3. september 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 59. ţáttur

Íslenskt mál - 59. þáttur

Í einni dæmisagna Esóps (Ljónið og refurinn) segir frá gömlu ljóni sem var orðið svo hrumt að það gat ekki veitt sér til matar. Þá tók það upp á því að leggjast fyrir í helli sínum og þykjast vera veikt. Þegar önnur dýr komu í heimsókn til þess hremmdi það þau og át. En refurinn lét ekki leika á sig. Hann sá mörg spor liggja inn í hellinn en engin út úr honum og vildi því ekki heimsækja ljónið í hellinum. Til þessarar sögu vísar orðatiltækið sporin hræða og er það kunnugt í ýmsum tungumálum. Í íslensku vísar það til þess að menn skyldu hafa eitthvað sem víti til varnaðar, t.d.: Ekki tókst vel til um sölu ríkisbankanna — sporin hræða (Útv 29.7.05). Umsjónarmaður hafði hins vegar hvorki heyrt né séð afbrigðið skrefin hræða fyrr en hann rakst á það í blaði: Ljóst er að skrefin í átt að meira frelsi á fjármálamarkaði hræða ekki (Frbl 25.7.05). Hér er trúlega fremur um klúður að ræða en lifandi mál.

Orðasambandið láta undan síga vísar upphaflega til sjóorrustu (menn láta skip sín síga undan) en merkir nú jafnan ‘hörfa, víkja’. Allt önnur vísan felst hins vegar í orðasambandinu e-ð lætur undan ‘brestur, brotnar’, t.d. er algengt að segja eitthvað varð undan að láta og í vísu eignaðri Staðarhóls-Páli segir: *skipið er nýtt en skerið hró, skal því undan láta. Þessum tveimur orðasamböndum má ekki rugla saman eins og í eftirfarandi dæmi: þjarmaði að andstæðingnum þar til eitthvað varð undan að síga (Mbl 29.6.05). 

Nýlega kaus maður sá er kallaði sig Deep Throat að svipta hulunni af nafnleynd sinni og var talsvert fjallað um það í fjölmiðlum. Umsjónarmaður sá og heyrði þráfaldlega vitnað til ummæla hans follow the money með furðulegum hætti: eltu slóðina/peningaslóðina (3.7.05). Í íslensku er talað um að fylgja slóð e-s eða rekja slóð e-s og virðist engin þörf á að víkja frá því orðalagi. Vel má vera að elta í orðasambandinu elta slóðina sé fljótfærnisleg þýðing á ensku follow.  

Með nafnorðinu svæði er notuð forsetningin á til að vísa til dvalar eða kyrrstöðu, t.d. vera á svæðinu og vera á gráu svæði. Af því leiðir að hreyfing (hvaðan) er táknuð með forsetningunni af, t.d. hverfa af svæðinu. Það samræmist því ekki málvenju að skrifa: Eyjamenn lyftu sér frá fallsvæðinu (Frbl 11.7.05). Af sama toga eru ýmis önnur dæmi þar sem forsetningin frá er notuð ranglega í stað forsetningarinnar af, t.d. kaupa e-ð frá e-m (Mbl 25.2.04); fá afslátt frá sektum (Frbl 31.7.03); gefa ferðaskrifstofu afslátt frá kröfu (Frbl 21.9.03) og fara frá sjúkrahúsinu (Mbl 20.5.03). — Í framangreindum dæmum og fjölmörgum öðrum hliðstæðum gætir trúlega áhrifa frá ensku (from). 

Gunnar Ingi Gunnarsson skrifar (7.8.2005) (leturbreytingar umsjónarmanns): ‘Orðasambandið áðurnefnda er óframleiðslutengdur stuðningur. Fyrirbæri þetta mun eiga uppruna sinn í síðasta hefti Bændablaðsins, þar sem fjallað var um tvenns konar beinan fjárstuðning íslenskra skattborgara við innlenda landbúnaðarframleiðslu; það er að segja annars vegar stuðning, sem beintengdur er framleiðslu bænda og hins vegar stuðning, sem ekki er tengdur neinni framleiðslu bænda. Síðari stuðninginn kallar Bændablaðsgreinin óframleiðslutengdan og Morgunblaðið birtir þetta stuðningsfyrirbæri í fréttaskýringarpistli sínum þann 5. ágúst síðastliðinn, á blaðsíðu 8. Ekki veit ég hvort þú hafir nokkurn tímann rekist á óframleiðslu á þínum ferli en ég þekki fyrirbærið alla vega ekki og rakst aldrei á það þau sumrin, sem ég bjó í Biskupstungunum – hér forðum. En kannski var Bændablaðið alls ekki að fjalla um neina óframleiðslu, þegar betur er að gáð, heldur venjulega framleiðslu, sem var bara ótengd beinum stuðningi við bændurna? Nú, ef svo er, þá finnst mér blaðið hefði átt að hlífa okkur og segja það strax.’

Og Gunnar ritar einnig: ‘Hvað eru fótfesturök? Það er nú það. En þannig spyr [NN] ... í annars ágætri grein á síðu 25 í Fréttablaðinu þann 6. ágúst síðastliðinn. Ég ætla alls ekki að rekja grein [NN] í þessu stutta bréfi mínu, en ég verð að fá að setja mitt eigið spurningarmerki við orðið fótfesturök, sem [NN] velur yfir þá tegund röksemdar, sem mun kallast slippery slope á ensku. Ef ég skil þau rök rétt, sem falla undir ensku merkinguna slippery slope, þá gengur ekki að nota yfir þau rök nýyrðið fótfesturök. Og hreinlega alls ekki. Því ef við ættum, svona yfirleitt, að samþykkja orðið fótfesturök – ja, þá ætti orðið aðeins að spanna þau rök, sem hefðu einmitt festu fótanna og þar með sína sjálfstæðu rökfestu. Þannig væri nýyrðið alveg andstætt slippery slope-rakaafbrigðinu, sem ætti þá miklu frekur að kallast til dæmis fellirök eða jafnvel skriðurök.’  

Umsjónarmaður þakkar Gunnari fyrir skemmtilegt bréf og þarflegar ábendingar og tekur undir það að orðasambandið óframleiðslutengdur stuðningur virðist fremur kauðslegt. Enn fremur virðist honum gagnrýni Gunnars á nýyrðið fótfesturök eiga fullan rétt á sér.

Úr handraðanum

Hér að ofan leyfði umsjónarmaður sér að nota hina alþjóðlegu skammstöfun NN (< lat. nomen nescio ‘nafnið þekki eg ekki’) með vísan til óþekkts nafns eða þess að menn vilja ekki nefna nafnið. Í íslensku er Jón Jónsson oft látinn gegna þessu hlutverki en nóbelsskáldið ‘þýddi’ skammstöfunina með frumlegum og eftirminnilegum hætti: Nebúkadnesar Nebúkadnesarsson. Á æskuárum umsjónarmanns var meðal lesefnis í barnaskóla smásaga Halldórs: Lilja – sagan um Nebúkadnesar Nebúkadnesarsson lífs og liðinn. Honum er það minnisstætt að honum þótti nafn söguhetjunnar (Nebúkadnesar Nebúkadnesarsson) lítt skiljanlegt og afar erfitt í framburði en kannski felst snilldin einmitt í því.