Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   20. ágúst 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 58. ţáttur

Íslenskt mál - 58. þáttur

Forsetningin eftir (og á eftir) er býsna margslungin í notkun. Hún getur t.d. stýrt hvoru sem er þolfalli (eftir mig) eða þágufalli (eftir/á eftir mér). Reyndar er það þannig að forsetningin eftir með þolfalli vísar ávallt til tíma í beinni merkingu eða óbeinni þótt slík vísun liggi ekki alltaf í augum uppi. Sá sem skilur eitthvað eftir sig getur jafnframt verið sá sem hefur skapað eitthvað (höfundur, frumkvöðull), t.d. getum við talað um skáldverk eftir frægan rithöfund og sá sem deyr getur skilið eftir sig auðæfi, ríkidæmi eða látið eftir sig konu og börn og þá blasir tímamerkingin við. Umsjónarmaður telur hins vegar hæpið eða ótækt að tala um barn eftir mann og því fannst honum eftirfarandi setning spaugileg: Skömmu fyrir krýningu sína ... upplýsti Albert [prins] að fleiri konur gætu átt barn eftir hann (Frbl 17.7.05). Nú kann prinsinn að vera mikill kvennamaður og átt mörg börn en væntanlega eru flestir því sammála að ótækt sé að komast svo að orði að mörg börn séu eftir hann.        

Sagnorðið tengja getur tekið með sér þolfall og þágufall (tengja eitthvað einhverju) og lýsingarhátturinn tengdur stýrir þágufalli (tengdur einhverju). Málnotkun er í flestum tilvikum í föstum skorðum hvað þessi atriði varðar en þó ber stundum við að lh.þt. tengdur stýri falli (þágufalli) á sjálfum sér ef svo má að orði komast. Þetta verður best sýnt með dæmum, innan hornklofa er sýnd rétt eða hefðbundin málbeiting: [tillagan] felur í sér að fallið er frá heimild til gerðar veitu- og setlóna eða mannvirkja þeim tengdum [sem tengjast þeim; tengdra þeim] (Mbl. 13.8.05); íbúðabyggð í góðum tengslum við Landspítalann, tvo háskóla og stofnanir þeim tengdum [tengdar þeim] (Blaðið 10.6.05); tap má rekja til mikils fjármagnskostnaðar tengdum [tengds; sem tengist] óhagstæðum lánum (Útv 2.12.04); geturðu sagt hvort þeir starfa við fyrirtæki tengdum [tengd] Kaupþingi? (Útv 27.5.03); á fundi bankanna og íslenskra fyrirtækja þeim tengdum [þeim tengdra; sem tengjast þeim] (Útv 19.9.03) og Skattrannsóknastjóri hefur samhliða rannsakað skattamál fyrirtækja tengdum [tengdra; sem tengjast] NN (Frbl 22.10.04). Hér að ofan komst umsjónarmaður svo að orði að lýsingahátturinn tengdur stýri falli á sjálfum sér en réttara er að segja að ekki sé gætt eðlilegrar sambeygingar eins og áhugasamir lesendur geta gengið úr skugga um. 

Sterka sögnin hefjast beygist svo: hefjast, hófst, hófumst [vh. þt. hæfist], hafist. Veika sögnin hafast beygist hins vegar á eftirfarandi hátt: hafast, hafðist [vh. þt. hefðist], hafst. Eins og sjá má er beyging sagnanna mjög ólík og merking þeirra reyndar einnig eins og hver og einn getur gengið úr skugga um með því að skoða hug sinn. Samt er það svo að þessum sögnum (einkum vh.þt.) er stundum ruglað saman eins og í eftirfarandi dæmi: var tilkynnt að réttarhöldin yfir Saddam Hussein hefðust [þ.e. hæfust] á næstunni (Útv 17.7.05). Hér er vafalaust um að ræða klaufaskap eða mismæli fremur en tilhneigingu til málbreytingar (þótt ruglingur sagnanna hefja og hafa í viðtengingarhætti þátíðar sé reyndar allgamall). Öðru máli gegnir um sögnina ljá. Beyging hennar er um margt óregluleg og þar má greina tilhneigingu til breytinga.

Eins og vikið var að í 21. pistli hefur beyging sagnarinnar ljá breyst nokkuð í aldanna rás en flestir munu þó sammála um að í nútímamáli sé beyging hennar eftirfarandi:

ljá (ég ljæ, þú ljærð, hann/hún ljær) - léði - léð, þgf.-þf./ef.

Í talmáli gætir tvenns konar breytinga. Annars vegar bregður nútíðarmyndinni ?ljáir fyrir (í stað ljær) og hins vegar sést myndin ?ljáð í lýsingarhætti þátíðar (í stað léð) alloft og þátíðin léði verður ?ljáði. Slíka notkun má oft sjá í orðasambandinu ljá ekki máls á e-u, t.d.: ?hann ljáir [þ.e. ljær] ekki máls á að draga sig í hlé; ?Verkalýðshreyfingin hefur ekki ljáð [þ.e. léð] máls á því að atvinnuleysisbætur verði skertar og ?Bush ljáði [þ.e. léði] ekki máls á neinum breytingum (Mbl 30.6.05). Hér er á ferðinni svo kölluð áhrifsbreyting. Sagnir sem eru svipaðar sögninni ljá að búningi en ólíkar að beygingu (spá-spáði-spáð; þrá-þráði-þráð) hafa áhrif á beyginguna. Þessi breyting er ekki viðurkennd enda sér hennar hvergi stað í vönduðu ritmáli. Notkun og beygingu sagnarinnar ljá er rækilega lýst í orðabókum, t.d. í Íslenskri orðabók, og í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna fjölmörg dæmi sem sýna notkun hennar með ótvíræðum hætti. Hér ber því allt að sama brunni og þeir sem skrifa í fjölmiðla og vilja vanda mál sitt ættu að nota sögnina ljá eins og flestir kjósa. 

Úr handraðanum

Umsjónarmaður hélt að orðatiltækið það þýtur öðruvísi/annan veg í fjöllunum í merkingunni ‘komið er annað hljóð í strokkinn’ væri úrelt eða dautt mál. Það kom honum því skemmtilega á óvart að rekast á eftirfarandi dæmi: Fyrir einu misseri var V. J. forseta Úkraínu hampað í flestum fjölmiðlum þar í landi sem lýðræðislegum umbótasinna en nú er allt í einu farið að þjóta öðruvísi í fjöllunum (Mbl. 29.7.05). Hér þykir umsjónarmanni fagurlega að orði komist. Ræturnar ná langt aftur, svipað orðafar er að finna í Njáls sögu: *nú mun ... í björgum / ... / ... / ... annan veg þjóta, sbr. einnig Droplaugarsona sögu: *Nú tér ... / ... / ... í fjöllum / ... annan veg þjóta og Ragnars sögu loðbrókar: *Hvat es þats baugs ór björgum / brjótr heyrir nú þjóta. — Dæmið úr Morgunblaðinu sýnir svo að ekki verður um villst að ekki ber að vanmeta munnlega geymd.