Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   27. mars 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 24. ţáttur

Íslenskt mál - 24. þáttur

Fjölmargir hafa sent þættinum tölvuskeyti með ábendingum um efni sem vert væri að fjalla um og er rétt og skylt að þakka það.

Tveimur mönnum ber að þakka sérstaklega. Ólafur Oddsson, menntaskólakennari, hefur sent undirrituðum gagnlegan villulista og kennir þar ýmissa grasa. Eiður Guðnason, sendiherra, hefur einnig sent þættinum ambögulista mikinn og getur þar að líta ýmis málblóm úr dagblöðum og fjölmiðlum. Þeir Ólafur og Eiður hafa leyft umsjónarmanni að nýta að vild það efni sem þeir hafa látið í té og er það þegið með þökkum. Til gamans og fróðleiks skulu nokkur dæmi tilgreind úr þessum syrpum.

Á lista Ólafs er að finna eftirfarandi dæmi: ?Þeim félögum leist illa á hvorn annan [í stað: Þeim félögum leist illa hvorum á annan] og ?Leikmönnum ... er heldur illa við hvern annan [í stað: Leikmönnum ... er heldur illa hverjum við aðra].

Þessi dæmi staðfesta það sem margir hafa ugglaust orðið varir við, að notkun orðasambandsins hver/hvor annar er stundum á reiki í nútímamáli.

Segja má að óvissa um notkun komi einkum fram í tvennu. Í fyrsta lagi er það merking fyrri liðarins. Orðmyndin hvor vísar til annars af tveimur en myndin hver vísar til eins af fleiri en tveimur. Því er venja að segja t.d.: Mennirnir tveir hringja hvor í annan og systurnar þrjár hringja hver í aðra.

Í öðru lagi sambeygist fyrri hlutinn (hver/hvor) frumlagi eða frumlagsígildi í kyni, tölu og falli en mynd síðari hlutans (annar) ákvarðast af fallvaldi (sagnorði, forsetningu). Þetta er best sýnt með dæmum (innan sviga eru samsvarandi rangar orðmyndir tilgreindar og merktar með ?):

  • Konurnar (fleiri en tvær) kysstu hver aðra (?hverja aðra)
  • þær sendu hver annarri blóm (?hverri annarri)
  • mennirnir tveir heilsuðu hvor öðrum (?hvorum öðrum)


Eins og sjá má standa myndirnar hver/hvor í nefnifalli eins og frumlagið sem þær vísa til (Konurnar, þær, mennirnir) en mynd síðari hlutans ákvarðast af fallvaldi (hver kyssti aðra; hver sendi annarri blóm; hvor heilsaði öðrum). Í talmáli gætir þess nokkuð að farið er með fornafnið sem eina heild og fallvaldurinn látinn stýra mynd beggja liðanna og slík notkun sést jafnvel á síðum dagblaða: ?menn saka hvern annan um dauðasyndir í stað menn saka hver annan um dauðasyndir.

Af svipuðum toga er sú breyting er forsetning er sett fram fyrir hver/hvorannar og hún látin stýra falli beggja liðanna, t.d.:

  • þeir ræddu hver/hvor við annan (verður: ?þeir ræddu við hvern/hvorn annan)
  • þær hringdu hver/hvor í aðra (verður: ?þær hringdu í hverja/hvora aðra)
  • þeim er hlýtt hverri/hvorri til annarrar (?þeim er hlýtt til hverrar/hvorrar annarrar)
  • hljómsveitarmenn apa hver eftir öðrum (?apa eftir hverjum öðrum (útvarp))


Skal nú vikið að nokkrum dæmum af ambögulista Eiðs.

Nýlega var gerð skoðanakönnun á fylgi flokkanna og var greint frá niðurstöðum í Fréttablaðinu. Eins og vænta mátti voru fylgismenn flokkanna misánægðir með niðurstöðuna.

Talsmaður þess flokks, sem bar einna minnst úr býtum, talaði um að sínir menn færu ekki á taugum, þeir mundu vinna sitt verk og halda rónni (ró sinni) og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Einnig var rætt við talsmann þess flokks er jók fylgi sitt og vitnað til eftirfarandi ummæla: ‘Það er mjög jákvætt að fylgið skuli vera að fara upp á við ... Það blæs okkur byr í brjóst.

Þetta þykir Eiði ekki góð íslenska og er óhætt að taka undir það með honum. Hann bendir á að hér hefði mátt segja: Þessi skoðanakönnun gefur okkur byr undir báða vængi eða Skoðanakönnunin sýnir að við siglum beggja skauta byr eða bara Skoðanakönnunin sýnir að við höfum góðan byr.

Allt er þetta satt og rétt og umsjórnarmaður hefur engu við þetta að bæta. Til gamans má þó geta þess að orðatiltækið blása e-m e-u í brjóst, sem hér er farið rangt með, á rætur sínar í sköpunarsögu Biblíunnar. Þar segir frá því að Guð blés lífsanda í brjóst/(nasir) manninum og af þeim meiði eru ýmis önnur orð (innblástur) og orðasambönd (blása (nýju) lífi í e-n).

Önnur dæmi af ambögulista Eiðs eru:

  • ?Hætt er við að sá árangur, sem náðst hefur í meðferð hjartasjúklinga, sé stefnt í voða (Mbl., 22.1.04)
  • ?Stúlkan, sem varð fyrir voðaskoti á Hallormsstað, líður vel (Fréttabl., 8.1.04).


Eins og sjá má eru aðalsetningarnar fleygaðar tilvísunarsetningum en þegar svo stendur á ber stundum við að skyldubundið samræmi er rofið. Í fyrra dæminu hefði vitaskuld átt að standa Hætt er við að þeim árangri ... sé stefnt í voða og í því síðara Stúlkunni ... líður vel.

Úr handraðanum

Í íslensku er að finna fjölmargar sögur og frásagnir sem alið hafa af sér hnyttileg ummæli eða svör sem síðan hafa orðið fleyg og varðveist mann fram af manni í þjóðarsálinni.

Af þessum toga er t.d. orðasambandið Veit eg það, Sveinki. Í sögu Jóns biskups Arasonar segir frá því er hann var leiddur út (á höggstokkinn): Þá Jón biskup var út leiddur, var til settur sérdeilis prestur að telja honum fortölur (eins hinum), sá hét síra Sveinn; og sem biskup gekk fram úr kórnum vildi hann krjúpa niður fyrir Maríu líkneski, en prestur bað hann af leggja þá hérvillu, og sagði meðal annarra huggunar orða: ‘Líf er eftir þetta líf, herra!’ En biskup Jón veik sér við snögglega og sagði: ‘veit eg það, Sveinki!’

Þetta svar Jóns biskups hefur fyrir löngu öðlast sjálfstætt líf og vísar nú til þess er sjálfsagt má þykja (einkum sem viðbragð við því sem fávíslegt er (eins og orð Sveins prests við biskup voru)).

Sama heimild segir frá því að Ara, syni Jóns biskups, hafi verið boðið líf gegn því að hann lofaði að hefna aldrei en hann kaus fremur dauðann og sagði: Nauðugur gekk eg til þessa leiks, en nú skal eg viljugur ganga út. - Í nútímamáli mun vera algengast að tala um að einhver gangi tregur til leiks.

Morgunblaðið, 27. mars 2004