Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   9. maí 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 27. ţáttur

Íslenskt mál - 27. þáttur

Talsverður munur er á merkingu og notkun orðasambandanna (A) bregða út af e-u ‘bregða af e-u; víkja frá e-u, fara ekki eftir e-u’ og (B) e-ð ber út af (e-u) ‘e-ð víkur frá e-u (réttum hætti); e-ð fer öðruvísi en ætlað er’.

Eins og sjá má er merking orðasambandanna um sumt svipuð en notkunin er ólík. Þetta verður best sýnt með dæmum.

  1.  
    • þú mátt ekki bregða út af fyrirmælunum
    • hann lofaði að bregða hvergi út af því sem fyrir hann var lagt
    • bregða út af vana sínum/venju sinni
    • þótti einnig stundum brugðið út af ferðaáætluninni að óþörfu
    • Tveir drengir brugðu þó út af þessu [fyrirmælum]
    • bregða út af loforði
  2.  
    • Ef eitthvað ber út af í rekstrinum er fjármálastjóranum kennt um það
    • ekkert/lítið má út af bera, þá gæti farið illa
    • hann á það til að stökkva upp á nef sér/reiðast heiftarlega ef eitthvað ber út af
    • Rekstur fyrirtækisins er í járnum og því má ekkert út af bera, þá verður það gjaldþrota

Til gamans má geta þess að orðasambandið e-ð ber út af kann að vera afbrigði af e-n (bátinn) ber af (réttri) leið enda virðist vera fullt samræmi á milli upprunans og merkingarinnar. Skylt er þó að geta þess að í fornu máli er kunnugt orðasambandið e-ð ber af hið besta ‘e-ð fer mjög vel’.

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í nútímamáli er ofangreindum orðasamböndum alloft ruglað saman. Notkun orðasambandsins bregða út af e-u virðist færast í vöxt á kostnað hins síðar nefnda. Hér skulu einungis tilgreind þrjú dæmi af þessum toga.

Nýlega fór fram í Reykjavík glæsilegt atskákmót og voru margar skákirnar spennandi, jafnvel svo tvísýnar að ekkert mátti út af bregða eins og sagt var í stað ekkert mátti út af bera.

Af svipuðum toga eru eftirfarandi dæmi: lítið má út af bregða í rekstri bankanna (þ.e. lítið má út af bera) og Það má lítið bregða út af hjá enska liðinu Arsenal í næstu leikjum liðsins (18.9.2003) (þ.e. Það má lítið út af bera).

Nafnorðið bak er algengt í ýmsum föstum orðasamböndum. Í nútímamáli er kunnugt orðasambandið styðja við bakið á e-m í merkingunni ‘veita e-m stuðning’ en orðasambandið standa e-m (langt) að baki merkir ‘vera hvergi nærri jafnoki e-s, vera e-m síðri’.

Merkingarmunurinn er skýr enda má ætla að flestum sé ljóst að líkingarnar ‘sem að baki liggja’ eru ólíkar. Þeim er þó stundum ruglað saman, t.d.: Höfundur hefur staðið mjög fallega að baki mér allan tímann [er unnið var að kvikmynd] ‘veitt stuðning’. - Umsjónarmaður hefur leitað með logandi ljósi í hundruðum dæma með stofnorðinu bak en finnur enga hliðstæðu. Ætla má að hér gæti áhrifa frá orðasambandinu styðja við bakið á e-m.

Annað dæmi af svipuðum toga varðar orðasamböndin hafa e-n/e-ð á bak við sig ‘njóta stuðnings e-s’ og vera með e-ð á bakinu ‘þurfa að bera e-ð neikvætt (úr fortíðinni)’. Það er auðvitað mikilvægt að öll þjóðin fylki sér að baki ‘strákunum’ (íslenska karlalandsliðinu í handknattleik) og standi með þeim en varla getur þjóðin staðið á bak við strákana og það hlyti að vera hábölvað fyrir þá að dröslast með alla þjóðina á bakinu. Í íþróttapistli mátti þó heyra: Það er mikils virði þegar liðið hefur alla þjóðina með sér á bakinu.

Þriðja dæmið um hæpna notkun orðasambands með stofnorðinu bak heyrði umsjónarmaður í útvarpi: standa á baki tilræðinu ‘vera ábyrgur fyrir, standa á bak við tilræðið’. Orðasambandið standa á baki e-m/e-s er vissulega til en það mun nánast aldrei notað í nútímamáli.

Í fornu máli er það kunnugt í beinni merkingu (‘fyrir aftan; að baki’) og í síðari alda máli er það til í merkingunni ‘vera ekki jafnoki e-s’, þ.e. í sömu merkingu og standa e-m að baki. Þess eru hins vegar engin dæmi að sagt sé standa á baki tilræði - hins vegar geta menn staðið að tilræði eða staðið á bak við það.

Til fróðleiks skal loks vikið að forsetningasamböndunum á bak við og bak við. Upprunaleg mynd er á bak við e-ð en elstu dæmi um breytinguna á bak við > bak við eru frá fyrri hluta 16. aldar. Í nútímamáli er oftast notuð lengri myndin (á bak við) en styttri myndin (bak við) er einnig algeng og er notkun þeirra að nokkru leyti valfrjáls.

Þó finnst umsjónarmanni hún nokkuð misjöfn eftir því hvaða orðasambönd eiga í hlut. Ef þetta er rétt má segja að notkunin sé orðfræðileg. Hér fylgja nokkur dæmi um orðasambönd með á bak við/bak við og ættu lesendur að spyrja sig hvor myndin, sú lengri eða sú styttri, sé þeim tamari:

  • gera e-ð á bak við tjöldin
  • fara á bak við e-n (með e-ð)
  • gera e-ð á bak við e-n
  • hafa e-ð á bak við eyrað
  • standa á bak við e-ð


Úr handraðanum

Í nútímamáli merkir orðasambandið til langframa ‘til lengdar, langa stund’, t.d.: e-ð gengur ekki til langframa og það hafi lagst í hann að B. mundi aldrei verða sér trúr til langframa.

Í Íslenskri orðabók má sjá að merking nafnorðsins frami er ‘upphefð, frægð, gengi’, t.d.: hljóta frægð og frama. Bein merking nafnorðsins langframi er því ‘löng fremd, frægð’ eins og fram kemur í eftirfarandi dæmi (frá 16. öld): læra bæði af honum og svo þeim hlutum öðrum er þér sjálfum má til gagns og langframa verða (‘til langrar fremdar’).

Hér hefur því orðið merkingarbreyting og má ætla að fyrri liðurinn (lang-) valdi henni, þ.e. merkingin ‘löng frægð, langur frami’ hverfur og í staðinn kemur tímamerking. Fyrri merkingin er einhöfð í fornu máli. Í Flateyjarbók stendur t.d.: Það er og vant að sjá, félagsmaður, hvort fyrr kemur, hel eður langframi. Af ritmálsskrá Orðabókar Háskólans má ráða að nútímamerkingin (tímamerkingin) sé frá lokum 17. aldar.

Morgunblaðið, 8. maí 2004