Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   22. maí 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 28. ţáttur

Íslenskt mál - 28. þáttur

Á jólaföstu 2003 skrifaði Steinunn Eyjólfsdóttir þættinum bréf þar sem hún ræðir um áhrif dönsku á íslensku. Bréf Steinunnar er skýrt og hljóðar svo:

Alltaf er eitthvað að koma manni á óvart á lífsleiðinni. Aldrei er vissa fyrir neinu. Fátt hefur komið undirritaðri eins á óvart og að aftur skuli vera orðið ‘fínt’ að sletta dönsku. Það hefði þó einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Reyndar má segja að dönskusletturnar séu dálítil tilbreyting frá enskuslettunum. Æ nei, látum Danskinn eiga sig.

Hvers vegna er annars danskan allt í einu orðin svona ofurvinsæl? Var ekki einu sinni verið að ræða að hætta að kenna hana í skólum hér á Íslandi? Nú virðast menn ekki geta án hennar verið. Hús og bátar eru ‘smækfuld’. Leikarar koma ekki lengur fram, þeir ‘troða upp’. Gluggatjöld eru útskúfuð, þau heita ‘gardínur’ eins og fyrir hundrað árum eða svo. Hlutirnir koma ekki í kjölfar, heldur ‘farvatn’. Í síðasta eintaki blaðsins Hús og hýbýli er talað um að borð séu ‘dekkuð’, ekki dúkuð eða lagt á þau, enda er blaðinu tíðrætt um ‘glamour’. Það er nú líklega enn fínni sletta en þessar sem kalla mætti ‘gammel dansk’ á litríku slettumáli.

Hvað er hér eiginlega um að vera? Mér hefur reyndar flogið í hug skýring sem er þó óneitanlega heldur dapurleg, ef rétt reyndist. Getur verið að fólk bátt áfram þekki ekki íslensk orð frá erlendum? Mætti ekki reyna að bæta úr þessu þannig að fólk sem starfar við fjölmiðla - að minnsta kosti - fái orðabækur á sérstökum vildarkjörum?

Í bréfinu drepur Steinunn á ýmis atriði. Áhrif dönsku á íslensku eru vissulega mjög mikil og margir hafa varið miklum tíma og orku til að sporna við þeim. Afstaða Íslendinga til dönsku fyrr á öldum kemur glöggt fram í málshættinum Auðnæm er ill danska sem mun betur þekktur í myndinni Auðlærð er ill danska.

Tímarnir breytast hins vegar og ætla má að danska hafi fremur lítil áhrif á íslenskt nútímamál; nú gætir einkum áhrifa frá ensku.

Umsjónarmaður getur tekið undir orð Steinunnar að dönskuslettur séu dálítil tilbreyting frá enskuslettunum. Það væri þó of mikið sagt að hann sakni gamalla dönskuslettna eins og skúffaður eða bílæti (‘aðgöngumiði að kvikmyndahúsi’) en honum finnst að slík orð hafa ákveðinn blæ og þau séu hluti af sögu íslenskrar tungu.

Umsjónarmaður telur að það hljóti að vera óbreytt að þeir sem vilja vanda málfar sitt sneiði jafnt hjá dönskuslettum sem öðrum. Það getur því ekki talist til fyrirmyndar að nota orðasambönd eins og til að byrja með, í gegnum tíðina, koma inn á e-ð, eða koma til með að gera e-ð svo að dæmi séu nefnd.

Umsjónarmaður telur einnig að það sé rétt hjá Steinunni að í mörgum tilvikum sé mönnum ekki ljóst hver uppruni ‘danskra’ orða og orðasambanda er. Sem dæmi má nefna að no. frekjudós á rætur sínar að rekja til dönsku (frækketøs) og sama máli gegnir um lýsingarorðin bandvitlaus og bandóður [d. bindegal ‘svo óður að binda þarf’] og syndaselinn en þar er um að ræða íslenskan búning erlends orðs (d. syndebuk; syndahafur, syndabukkur).

Umsjónarmanni virðast orð sem þessi hafa öðlast fullan þegnrétt í íslensku og varla sé sanngjarnt að ætlast til þess að menn búi yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til að geta sneitt hjá þeim. Svipuðu máli gegnir um orðasambandið víkja sæti. Það er kunnugt í nútímamáli og oft notað í formlegu lagamáli en færa má rök að því að hér gæti danskra áhrifa (vige plads). Í þessu tilviki fær umsjónarmaður reyndar ekki séð að orðasambandið víkja sæti hafi nokkuð fram yfir víkja úr sæti (sínu), nema kannski fordildina, en ekki tjáir að deila um smekk manna.

Í sumum tilvikum hefur því jafnvel verið haldið fram að alíslensk orðasambönd séu dönsk einungis af þeirri ástæðu að finna má hliðstæður þeirra í dönsku. Umsjónarmanni var kennt í skóla að forðast bæri orðasambandið e-ð liggur fyrir [†e-m/augum e-s] ‘e-ð blasir við; er augljóst’ þar sem það væri danskt.

Þetta er hins vegar misskilningur enda má finna fjölmargar hliðstæður í fornum heimildum, t.d.: er þér vitrir menn efist í svo mjög um þetta mál svo sem ljóst liggur fyrir augum öllum mönnum þeim er rétt vita ok satt vilja sjá og ... annað liggur nú brýnna fyrir, að búast við því (‘undirbúa sig fyrir’), sem eftir fer (‘eftir kemur, fylgir’).

Dæmi af þessum toga eru fjölmörg og orðabækur nútímamáls gefa sjaldnast vísbendingu um uppruna þeirra.

Úr handraðanum

Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna tvö dæmi um orðasambandið Far vel Frans, bæði frá síðari hluta 19. aldar: Far vel Franz! og kom aldrei meir til Íslands! og Far vel Franz og kom aldrei til Ísalands.

Margir munu þekkja þetta, einkum fyrri hlutann (far vel Frans) í merkingunni ‘þar með var það búið.’ Það virðist blasa við að orðasambandið eigi uppruna sinn í dönsku. Í dönskum orðabókum er það hins vegar hvergi að finna og í fórum danskrar málnefndar er ekki heldur að finna neitt um það. Uns annað kemur í ljós freistast undirritaður því til að álykta að hér sé íslensk nýmyndun á ferðinni en ekki ‘ill danska.’

Því verður ekki haldið fram hér að orðasambandið far vel Frans sé fagurt en það er trúlega alíslenskt. Undirrituðum leikur hugur á að fræðast um uppruna þess. Vísar Franz til Frakklands (‘Fransmenn’) eða til karlmannsheitis? Er Frans kannski merkingarsnautt orð, notað sem rímorð með -lands?

Þeir lesendur sem kunna skil á þessu eru hvattir til að skrifa þættinum.

Morgunblaðið, 22. maí 2004