Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   12. júlí 2003

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 6. ţáttur

Íslenskt mál - 6. þáttur

Orðasambandið að vera að gera e-ð á sér gamlar rætur í íslensku. Notkun þess er býsna margbrotin en til einföldunar má segja að hún sé þrenns konar:  

 1. Dvalarmerking: Hún er að skrifa bréf
 2. Nálægðarmerking:
      Óorðið: Strætisvagninn er (alveg) að koma
      Nýlokið: Báturinn var að sökkva (‘næstum alveg; rétt áðan’)
 3. Áherslumerking: Ég er ekkert að hringja í hann (hann hringir ekki í mig)

Hér skal einungis vikið að dvalarmerkingunni (1) og til einföldunar talað um dvalarhorf.

Allt frá fornu fari hafa ýmsar hömlur eða takmarkanir verið á notkun dvalarhorfs og rétt notkun þess er því býsna flókin. Samt er það svo að málnotendur hafa verið býsna sammála um notkun þess en í nútímamáli (talmáli) verður vart umtalsverðra breytinga.

Hér á eftir verður leitast við að gera grein fyrir hefðbundinni notkun dvalarhorfs og um leið vikið að þeim hömlum eða takmörkunum sem marka því svið ef svo má segja. Sú leið verður farin að tilgreina dæmi:

1) Samkvæmt málvenju er dvalarhorf ekki notað til að vísa til verknaðar sem er ekki afmarkaður í tíma, t.d. ekki með sögnum sem vísa til ástands eða eiginleika, t.d.:

 • *hún er að sofa (hún sefur)
 • *hann er að skrifa vel (hann skrifar vel)
 • *kennarinn er að sitja í stólnum (kennarinn situr í stólnum)
 • *hún er að standa við gluggann (hún stendur við gluggann)
 • *barnið er að tala skýrt (barnið talar skýrt)
 • *barnið er að sofa
 • *barnið er að vaka
 • o.s.frv.

Sú breyting er hins vegar orðin (eða er hafin) að í máli sumra er slakað á hömlunum eða þær hafa breyst þannig að sagnasambandið er notað hömlulaust, einnig með sögnum sem samkvæmt hefð leyfa ekki notkun þess. Telja má líklegt að þessa þróun megi rekja til enskra áhrifa en í ensku er notkun orðasambandsins be+ing miklu víðtækari en samsvarandi orðskip-unar í íslensku (dvalarhorfs) [He is doing well; They are playing excellently ... ]. Einkum virðist mér þetta algengt er lýst er íþróttum og kappleikjum, t.d:

 • ?Hann er að verja vel
 • ?liðið er að leika vel;
 • ?Frakkar eru ekki að nýta sér færin sem þeir eru að fá
 • ?liðið var að skapa sér góð tækifæri
 • ?NN hefur meira verið að einbeita sér að 200 metrunum
 • ?Sóknarleikurinn er góður og við erum að leika vel
 • ?hann er að skila því besta sóknarlega
 • ?andstæðingarnir eru fljótir fram meðan við erum að gera mistök
 • ?Hann er að synda alveg gríðarlega vel
 • ?Hann hefur lítið verið að keppa í ár
 • ?Fínn leikur sem við erum að sjá
 • ?Strákarnir eru að gefa allt í leikinn
 • ?Strákarnir eru að reyna að að taka erfið skot
 • ?Leikurinn er að fara rólega af stað
 • ?NN er ekki að finna sig í leiknum
 • ?Menn voru að gera sitt besta [were doing their best]
 • ?Jón Arnar er ekki að ná sér á strik í tugþrautinni
 • ?Ólympíumeistarinn er ekki að keppa í ár
 • ?Keppendur eru ekki að stökkva langt
 • ?NN er hér að ná besta árangri ársins

Málbeiting sem þessi er þó engan veginn bundin við íþróttamál, sbr. eftirfarandi dæmi:

 • ?Póstur og sími er að hagnast vel
 • ?verið er að ganga út frá óbreyttu ástandi
 • ?við erum að sjá góð tækifæri
 • ?Íslendingar eru að greiða 0,1% í þróunarhjálp
 • ?Íslendingar hafa ekki verið að ganga fram af ábyrgð
 • ?Íslendingar hafa ekki verið að vinna heimavinnuna sína
 • ?Rúnar er að spila með Hljómum
 • ?Við erum ekki að sjá raunverulega samkeppni
 • ?Það er verið að standa að gríðarlegum framkvæmdum
 • ?Togarinn hefur verið að veiða vel að undanförnu
 • ?NN er að standa sig vel en flokkurinn er ekki að koma því til skila
 • ?Út frá hverju eruð þið að ganga er þið metið ástandið [á Skeiðarársandi]?
 • ?við erum að sjá samlegðaráhrif bankanna koma í ljós
 • ?tekjurnar [bankanna] eru meiri en við vorum að gera ráð fyrir
 • ?sérstaklega er dapurlegt að hann sé að nafngreina einstaklinga
 • ?samhliða því vorum við að auka framlög til tóbaksvarna
 • ?á skemmtistöðum þar sem fólk er fyrst og fremst að neyta áfengis

Til einföldunar segja að eftirfarandi þumalputtaregla gildi um ofangreind dæmi og hliðstæður þeirra: Dvalarhorf er ekki notað með atviksorðunum lengi, vel, illa ... né heldur þar sem þau eru undanskilin.

2) Einstakir, liðnir atburðir eru táknaðir með þátíð:

 • ?Persol var ekki að synda 100 metrana í gær [Tók ekki þátt í sundinu; synti ekki 100 metra sundið]
 • ?Markmaðurinn var ekki að standa sig vel
 • Íslendingar voru að berjast um hvern bolta.

Í þætti sem þessum er ekki svigrúm til að fjalla nákvæmlega um einstök atriði er varða notkun orðasambandsins vera að gera e-ð enda er þess naumast þörf því að flestir hafa þá tilfinningu fyrir málinu sem gerir þeim auðvelt að nota það í samræmi við hefð.

Fjölmargir hafa hins vegar rætt um þessi atriði við mig og flestum líkar nýjungin illa, sumum finnst nýmælið hreinasta hörmung. Nú er það auðvitað svo að ekki tjáir að deila um smekk manna, það sem einum finnst ljótt finnst öðrum fagurt, en ég hlýt að viðurkenna að ég fylli flokk þeirra sem telja nýmælið óþarft og til lýta. Enn fremur er það alkunna að tungumál breytast og sumum kann að finnast sú breyting sem hafin er á notkun orðasambandsins sé eðlileg og óþarft að amast við henni.

Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að það sé síst ástæða til þess fyrir fjölmiðlafólk að hlaupa eftir nýmæli sem þessu, fjölmiðlamenn ættu þvert á móti að gera sér far um að vera til fyrirmyndar um málfarsleg efni og það gera þeir best með því að halda sig við hefðina eins og kostur er.

Ég gat þess hér að ofan að mér þætti líklegt að ofnotkun orðasambandsins vera að gera e-ð ætti uppruna sinn í máli íþróttamanna. Dvalarhorf vísar til líðandi stundar, þess sem á sér stað (?er að gerast) í kappleik. Það má því segja að það komi ekki á óvart að orðskipanin sæki á einkum á þeim vettvangi.

Til gamans skal þess getið að fyrir réttum tveimur árum átti ég nokkra fundi með fréttamönnum sjónvarpsins, m.a. íþróttafréttamönnum. Þá ræddum við þessi mál og mér fannst ég finna mikinn metnað á þeim bæ en þótt góður vilji sé sigursæll hrekkur hann ekki ávallt til. Á síðustu mánuðum hefur mér virst sem allar flóðgáttir hafi opnast, orðasambandið að vera að gera e-ð er notað í tíma og ótíma eins og heyra má í útvarpi og sjónvarpi og líta getur í dagblöðum.

Hér skal ósagt látið hver niðurstaðan verður, því ræður málkennd alls almennings, en hitt veit ég að enginn af okkar virtustu rithöfundum hefur vikið frá hefðinni um notkun orðasambandsins vera að gera e-ð.

Í næsta þætti verður fjallað nánar um þetta efni og leitast við að gera frekari grein fyrir þeim reglum sem hefðbundin málnotkun sýnir að gilda um notkun dvalarhorfs.

Morgunblaðið, 12. júlí 2003