Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   5. júní 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 29. ţáttur

Íslenskt mál - 29. þáttur

Nýlega gerði undirritaður vandmeðfarin sagnorð að umtalsefni en það eru ekki einungis sagnorð sem geta ‘verið til vandræða’ heldur einnig ýmis önnur orð, t.d. fallorð, og að því leyti eru nafnorð ekki barnanna best.

Rétt beyging kvenkynsnafnorðsins hönd er eftirfarandi
   (A): hönd, hönd, hendi, handar; hendur, hendur, höndum, handa.

Frá beygingu eintölunnar eru kunn ýmis frávik en algengust munu eftirfarandi vera: Frá 16. öld
   (B): hönd, hönd, hönd, handar (beygist eins og strönd)

og frá 19. öld
   (C): hendi, hendi, hendi, handar (beygist svipað og ermi og helgi).

Hvorki afbrigði B né C telst rétt. Nemandi réttir því væntanlega upp höndina en ekki ?hendina eins og lesa mátti í Fréttablaðinu (25.3. 2004) og í sama blaði var ritað ?Óheppinn farþegi festi hendi í klósetti (1.11.2003) þar sem átt var við að hann hefði fest höndina.

Í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið svo kallaða heyrði umsjónarmaður talað um að ?samþjöppun valds á eina hendi [þ.e. hönd] væri ekki æskileg. Í sumum tilvikum má þó ætla að óregluleg beyging handar styðjist við málvenju, t.d. í orðasambandinu hafa e-ð í bakhöndinni. Þar er ávallt notuð forsetningin í og þgf.-myndin bakhöndinni enda er orðasambandið fengið úr dönsku á fyrri hluta 19. aldar.

Í knattspyrnu er talað um að dæma hendi á leikmann sem kemur við knöttinn með hendinni og enn fremur er hrópað (það er) hendi (á e-n) ef talið er að leikmaður hafi snert knöttinn með hendinni. Í fyrra dæminu væri þess að vænta að notuð væri þf.-myndin hönd og í því síðara nf.-myndin hönd en slíkt mun afar sjaldheyrt eða -séð. Umsjónarmanni virðist koma til greina að líta svo á að hendi í þessari merkingu beygist eftir beygingardæmi C og sú notkun helgist af málvenju.

Hvorugkynsnafnorðið hundrað beygist jafnan svo:
     hundrað, hundrað, hundraði, hundraðs; hundruð, hundruð, hundruðum, hundraða.

Í nútímamáli gætir þess allnokkuð að hundrað sé rangt beygt og er það einkum í tveimur tilvikum.

Í fyrsta lagi er fleirtölumyndin ?hundruðir (nf. og þf.) kunn úr talmáli, t.d.: ?Aðgangur var ókeypis meðan húsrúm leyfði en hundruðir [þ.e. hundruð] þurftu frá að hverfa og ?Hundruðir [þ.e. hundruð] manna komu á sýninguna. Hér gætir vafalaust áhrifa frá fleirtölumyndunum milljónir og þúsundir.

Í öðru lagi má oft sjá ef.flt. ?hundruða í stað hundraða, t.d.: ?ábendingar komu úr röðum þeirra hundruða [þ.e. hundraða] sem voru vitni að atvikinu og ?saknað er hundruða [þ.e. hundruð] þúsunda.

Hér gætir ugglaust áhrifa frá myndum nf./þf.flt. (hundruð) og þgf.flt. (hundruðum) auk þess sem ætla má að þær orðmyndir séu miklu algengari en ef.flt. hundraða.

Í ýmsum orðum sem hafa sömu beygingu verður hins vegar ekki vart óreglu af þessum toga. Nafnorðið hérað er t.d. ávallt í ef. flt. héraða, myndina *héruða hefur umsjónarmaður hvorki heyrt né séð (* fyrir framan orðmynd vísar til þess að myndin sé ekki til).

Sama máli gegnir um hvorugkynsorðið meðal, ef.flt. er ávallt meðala (meðalaglas) en aldrei *meðula.

Hvernig skyldi standa á því að breytinga verður vart í beygingu nafnorðsins hundrað en ekki í beygingu orðanna meðal og hérað? Skýringin er sú að fleirtölumyndir orðsins eru kvenkenndar, eins og áður gat, en af því leiðir að tengslin á milli ?hundruðir og ?hundruða verða svipaðs eðlis og frömuðir-frömuða (ekki framaða) og könnuðir-könnuða (ekki kannaða).

Við þetta bætist að nafnorðið hundrað er algengara en nafnorðin meðal og hérað og myndirnar hundruð (nf.þf. flt) og hundruðum (þgf.flt.) eru algengari en ef.flt. hundraða, þ.e. -myndir (nf.,þf.,þgf.flt.) kunna að hafa áhrif á -myndina (ef.flt.).

Til gamans má geta þess að hundrað er notað sem óbeygt lýsingarorð í merkingunni ‘100’ (I.) en í merkingunni ‘mikill fjöldi’ (II.) beygist það í fleirtölu eins og að ofan greindi og tekur með sér eignarfall. Þetta má sjá af eftirfarandi dæmum:

 1. Maðurinn týndi hundrað krónum; konan saknar hundrað króna; á tjörninni eru hundrað (‘100’) endur
 2. Maðurinn týndi hundruðum króna (‘miklu fé’); konan saknar hundraða króna (‘mikils fjár’); á tjörninni eru hundruð anda (‘mjög margar endur’)

Til þess eru vítin að varast þau

Í sjötta pistli um íslenskt mál var fjallað um þá áráttu sem mjög gætir í nútímamáli að nota nafnhátt með sögninni vera í stað persónuháttar, t.d. ?liðið er að leika vel í stað liðið leikur vel og ?markmaðurinn er að verja vel í stað markmaðurinn ver vel.

Orðasambandið vera að gera eitthvað er oft kallað dvalarhorf með svipuðum hætti og orðasambandið fara að gera eitthvað er nefnt byrjunarhorf. Málhagur maður, sem orðinn var býsna þreyttur á ofnotkun nafnháttar með sögninni vera, lagði til í mín eyru að nýmælið yrði kallað handboltahorf, vafalaust með vísan til þess hve slík ofnotkun er áberandi í lýsingum íþróttaleikja.

Í áðurnefndum pistli benti umsjónarmaður á að meginreglan væri sú að dvalarhorf er einungis notað er vísað er til atburðar eða verknaðar sem afmarkaður er í tíma eða rúmi (og gerist á sama tíma og setningin er sögð), t.d. hún er að skrifa bréf.

Ef hins vegar verknaðurinn er ótímabundinn er ekki venja að nota dvalarhorf, t.d. ?hún er að skrifa vel (þ.e. hún skrifar vel). Enn fremur var bent á að dvalarhorf væri ekki notað með atviksorðunum vel, lengi, illa o.fl.

Þess vegna samræmist það ekki málvenju að segja: ?knattspyrnukappinn er að leika vel; ?skákmaðurinn er að hugsa lengi og ?hvítur er að tefla illa. - Nafnháttarstíll hinn nýi kann að vera til þæginda fyrir þá sem vilja komast hjá því að beygja sagnorð eftir tíðum og persónum og vafalaust hentar hann einnig vel útlendingum sem vilja læra íslensku en ekki er hann fagur.

Breyting þessi er á sviði setningafræði og getur umsjónarmaður ekki fundið neina hliðstæðu sem haft hefur jafn miklar breytingar í för með sér og nafnháttarstíllinn mun hafa ef hann nær fram að ganga.

Að lokum skulu nefnd nokkur dæmi og lesendum eftirlátið að dæma um þau:

 • ?þótt hún [handknattleikskona] sé stöðvuð er hún samt að halda áfram (6.4.04);
 • ?það hefur ekki verið að ganga vel í sóknarleiknum (6.4.04);
 • ?þegar hún stekkur upp þá er hún að ná góðum skotum á markið (6.4.04);
 • ?þær eru virkilega að standa upp úr (6.4.04);
 • ?Þar af leiðandi er ég ekki að örvænta ... (26.3.04);
 • ?... að við séum ekki að standa við þau menningarmarkmið sem okkur er ætlað (7.3.04);
 • ?það eru ekki allir að vinna á þessum verðum ('sama verði á bensíni') (15.1.04);
 • ?Við erum að sjá þetta bera árangur (9.3.04);
 • ?... þessi Pressukvöld á RÚV eru ekki að virka (28.11.03);
 • ?Sérhönnuðu Nike golfkylfurnar voru ekki að falla í kramið [hjá Tiger Woods] (31.3.03)

Morgunblaðið, 5. júní 2004