Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   19. júní 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 30. ţáttur

Íslenskt mál - 30. þáttur

Sagt er að orð séu dýr - oftast í þeirri merkingu að menn skuli tala gætilega og íhuga vandlega það sem þeir segja, því að það sem sagt hefur verið geti reynst örlagaríkt enda verði töluð orð ekki tekin aftur.

En orð eru einnig dýr í þeirri merkingu að það verður að fara rétt með þau, jafnt hvað innihald (merkingu) sem útlit (beygingu) varðar. Í dagsins önn og hraða nútímans vill stundum verða nokkur misbrestur á þessu og stundum er eins og nokkur verðbólga hafi hlaupið í merkingu orða, t.d. í merkingu sagnarinnar að myrða e-n.

Nýlega var framið bankarán í Stafangri. Í fréttum af því var sagt að ræningjarnir hefðu myrt lögregluþjón. Umsjónarmaður kann ekki við þessa notkun sagnarinnar myrða. Upprunaleg merking hennar er ‘vega á laun’ enda er hún leidd af orðinu morð ‘launvíg’. Síðar hefur sögnin fengið aukamerkinguna ‘leyna’.

Í fornu máli eru þess mörg dæmi að menn hafi verið drepnir og myrtir síðan, t.d.: hann drap sveininn og vildi myrða og myrða dauðan mann. Í nútíma máli er enn talað um að fara með eitthvað eins og/sem mannsmorð ef það sem um ræðir á að fara leynt.

Ógæfumennirnir í Stafangri drápu lögreglumanninn vísvitandi, skutu hann eða felldu en þeir myrtu hann ekki í bókstaflegri merkingu. Umsjónarmaður las nýlega í blaði að Bandaríkjamenn hygðust myrða klerk nokkurn eins og skrifað var en síðar í sömu grein var talað um að taka klerkinn af lífi.

Kannski er það einnig svo að notkun sagnanna myrða, drepa, vega og fella sýnir að nokkru leyti afstöðu þess sem talar/skrifar til verksins. Í Fréttablaðinu var ritað: Morð á leiðtoga Hamassamtakanna hefur vakið hörð viðbrögð en um sama efni gat að lesa í Morgunblaðinu: Víg Ísraela á leiðtoga Hamassamtakanna á Gaza vekur hörð viðbrögð. Umsjónarmanni finnst fréttin í Morgunblaðinu sögð með hlutlausum hætti en ætla má að þeim sem skrifaði um sama efni í Fréttablaðið blöskri framferði Ísraelsmanna.

Sögnin að hindra merkir ‘koma í veg fyrir, tálma’, og er hún oftast notuð með persónum, t.d. hindra e-n í e-u. Umsjónarmaður las í blaði að lögreglan á Spáni ?hefði hindrað hryðjuverk og einnig ?að tekist hefði að hindra slys og kann illa við hvort tveggja.

Sögnin að blása er m.a. notuð um það er blásið er í lúður. Í íslensku er að finna fjölmörg orðasambönd er vísa til þess er blásið er til fundar (herstefnu (með því að blása í herlúður)), t.d. blása til atlögu; blása til brottfarar, blása til sóknar og blása til þings. Einnig má boða til fundar með því að blása mönnum saman.

Ekki eru þess dæmi í fornu máli að slíkar stefnur hafi verið blásnar af en sú vísun kann þó að liggja að baki í orðasambandinu blása e-ð af, sbr. hringja inn og klykkja út.

Það er þó alkunna að tungumál breytast og einnig þau viðmið sem liggja að baki föstum orðasamböndum. Forfeður okkar voru herskáir og blésu í herlúðra en nú mun slíkt sjaldgæft og í íþróttamáli blása dómarar í flautur sínar og þeir geta blásið leik af. Þar er bein merking ‘blása í flautu til merkis um að leik sé lokið’ en óbein merking er ‘hætta við e-ð’. Umsjónarmaður rakst á eftirfarandi dæmi í blaði: ?Allar vangaveltur hafa verið blásnar út af borðinu (9.8.03). Þetta orðafar á sér engar hliðstæður í íslensku enda er trúlega um að ræða áhrif frá ensku (e. wipe off the table).

Ýmsir ákvæðisliðir (allt að e-u, hátt í e-ð, sem svarar e-u, nærri e-u, nálægt e-u) stýra falli og ef fallstjórn þeirra er frábrugðin fallstjórn aðalliðar er fallanotkun stundum á reiki, þ.e. ýmist ræður aðalliður falli (a) eða ákvæðisliðurinn (b), t.d.:
   (a) Skipstjóranum er leyft að veiða allt að 35 þúsund lestir af loðnu
eða
   (b) Skipstjóranum er leyft að veiða allt að 35 þúsundum lesta af loðnu.

Hér er um það að ræða hvort sögnin veiða (með þolfalli) ræður ferðinni eða forsetningarsambandið allt að (með þágufalli).

Í fornu máli er það jafnan forsetningin sem ræður fallstjórn. Í samræmi við það má telja það venjubundna málbeitingu að segja:

 • hitinn var allt að fjörutíu og tveimur stigum en ekki ?hitinn var allt að fjörutíu og tvö stig
 • Biðtími eftir barni frá Kína er allt að 18 mánuðum en ekki ?Biðtími eftir barni frá Kína er allt að 18 mánuðir
 • ... veita ábyrgð fyrir allt að 200 milljónum dollara en ekki ?veita ábyrgð fyrir allt að 200 milljónir dollara

Ýmis dæmi af þessu tagi hefur rekið á fjörur umsjónarmanns og hann vísar því til lesenda að meta þau (innan sviga er sýnd málbeiting sem felur í sér nýmæli):

 • Hafa vistir til allt að þremur vikum (þriggja vikna)
 • framlengja frestinn um allt að einum mánuði (einn mánuð)
 • ég skal bíða í allt að tveimur dögum (tvo daga)
 • viðgerð kanna að taka allt að mánuði (mánuð)
 • allt að þrem milljónum (þrjár milljónir) manna búa á flóðasvæðinu
 • íþróttamaðurinn æfir allt að tveimur tímum (tvo tíma) á dag
 • heimila nemanda að klára allt að 30 einingum (einingar) á önn

Íslensk tunga hefur eins og aðrar tungur breyst talsvert í aldanna rás þótt breytingar á málkerfinu, einkum á setningafræði og beygingarfræði, séu svo litlar að við getum án fyrirhafnar lesið rúmlega 800 ára gamla texta.

Nýlega rakst umsjónarmaður á fyrirsögn í dagblaði sem hann skildi alls ekki: Beckham í tómu tjóni. Þetta vakti áhuga undirritaðs og því las hann greinina. Efni hennar var það að knattspyrnukappinn hefði meitt sig á sjötta boðorðinu og væri því í vondum málum eða tómu rugli eins og stundum er sagt.

Sama orðasamband (vera í tómu tjóni) gat að líta í nýlegu skólablaði. Hér mun vera á ferðinni unglingamál en ekki er alveg ljóst hvað liggur að baki. Er það neyslusamfélagið og efnishyggjan sem elur slíkt af sér? Umsjónarmaður reynir eftir föngum að fylgjast með breytingum á íslenskri tungu og nýliðun af þeim toga sem að ofan gat og telur að unglingamál hafi alltaf verið til, hver kynslóð þarf að skapa sér sinn stíl ef svo má segja. Þau nýmæli lifa síðan sem þjóðarsálin vill setja á, önnur deyja drottni sínum.

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja orðatiltækið það blæs ekki byrlega fyrir/(hjá) e-m, t.d.: Það hefur ekki blásið byrlega fyrir flokki kanslarans síðasta árið og ekki blæs byrlega fyrir/(hjá) KA-mönnum.

Það vísar til þess er byr eða meðvind vantar og er yfirfærð merking ‘horfur eru ekki góðar’, sbr. einnig: dreyma draum ekki byrlegan. Það er notað með ýmsum forsetningum, t.d.:

 • ekki blæs sem byrlegast fyrir e-u
 • ekki blæs byrlega til einhvers
 • ekki blæs byrlega með útgáfu blaðsins
 • ekki blæs byrlega um fyrstu tilraunir til eflingar jarðræktar

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í nútímamáli er alloft sagt og ritað: ?það blæs ekki byrlega fyrir liðið. Slík notkun styðst ekki við málvenju.

Morgunblaðið, 19. júní 2004