Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   3. júlí 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 31. ţáttur

Íslenskt mál - 31. þáttur

Algengt er að ruglað sé saman föstum orðasamböndum eða á einhvern hátt rangt með þau farið. Athugull lesandi benti umsjónarmanni á nýlegt dæmi af þessum toga.

Í Ríkisútvarpinu var fyrir skömmu fjallað um erlendan listamann. Þá var komist svo að orði að áhorfendur hefðu hrifist svo mjög af sýningu listamannsins ?að þeir hefðu hvorki haldið vatni né vindi.

Orðatiltækið fá ekki vatni haldið er eldfornt og merkir svipað og orðasambandið geta varla tárum haldið eins og Jón biskup Vídalín orðar það eða geta ekki minnst á eitthvað ógrátandi eins og eldklerkurinn Jón Steingrímsson kemst að orði.

Dæmi um orðatiltækið eru fjölmörg úr fornu máli og síðari alda máli og af þeim er alveg ljóst að vatn vísar hér til tára. Í Heimskringlu segir frá því að Magnús konungur góði lést fyrir aldur fram (1047). Hann var harmdauði allri alþýðu og í kvæði sem ort var eftir hann segir svo í umritun: Menn felldu mörg tár, þá er þeir báru konung í gröf; ... húskarlar konungs héldu varla vatni ... síðan sat þjóð konungs oft hnipin.

Svipað dæmi er að finna í Sverris sögu þar sem greint er frá falli Magnúsar konungs Erlingssonar: máttu nær engir vatni halda er til gengu og kysstu líkið. - Grátur vísar jafnan til sterkra tilfinninga, oftast sorgar, en getur einnig átt við gleði. Það er því eðlileg merkingarþróun að orðatiltækið fá ekki vatni haldið (yfir e-u/fyrir e-u/af e-u) geti vísað til hrifningar. Því er ekki að neita að umsjónarmaður hefur orðið þess misskilnings var að vatn sé talið merkja 'þvag' í þessu sambandi og viðbótin ...né vindi virðist af sama toga.

Nú kann að vera að sumum þyki þessi þróun eðlileg, jafnvel bera vott um sveigjanleika tungumálsins og sköpunarmátt, en umsjónarmanni finnst slík málbeiting nánast fáránleg, en í þessu tilviki sem öðrum er best að hver dæmi eftir sínum smekk.

Orðasambandið krukka í e-ð merkir í beinni merkingu ‘skera í e-ð’ (oft með ómarkvissum hætti), t.d.: Læknirinn vill krukka (eitthvað) í líkið. Í óbeinni merkingu merkir það ‘fikta við e-ð, breyta e-u’, t.d.: krukka í tillöguna/frumvarpið.

Eins og sjá má af dæmunum stýrir sögnin krukka þolfalli enda vísar hún til hreyfingar. Nýlega las umsjónarmaður vandaða spennubók og rakst þar á eftirfarandi dæmi: Þú skalt ekki halda að þú getir krukkað í mér með þinni vasabókarsálfræði frá Bandaríkjunum eða nýaldarbulli. Hér virðist orðasambandið ?krukka í e-m merkja ‘hafa áhrif á e-n, hræra í e-m’ og ætla má að jafnt merkinguna sem fallstjórnina (þágufall) megi rekja til orðasambandsins hræra í e-m.

Umsjónarmaður telur að hér sé um að ræða nýmæli og kann því reyndar illa. Skilyrði þess að breytingar af þessum toga nái að festa rætur í málinu er að þau orð sem um ræðir séu (orðin) ógagnsæ, í þessu tilviki sögnin krukka ‘skera’. Dæmi sem þetta sýnir eins og fjölmörg önnur að í íslensku fléttast oft saman málskilningur og málnotkun eða með öðrum orðum málsaga og málbeiting. Gagnsæi málsins og tengsl við upprunann verða að mati umsjónarmanns seint of metin.

Umsjónarmanni virðist að málfar í útvarpi og sjónvarpi sé í stórum dráttum í góðu lagi. Vitaskuld geta fréttamönnum orðið á mistök eins og öðrum og ekki leggja þeir viðmælendum sínum orð í munn - hvorki í beinni né óbeinni merkingu.

Sjónvarp og útvarp hefur löngum verið til fyrirmyndar að þessu leyti enda á svo að vera. Þetta á þó því miður ekki við um textavarpið. Ætla mætti að þeim sem því stýra ætti að vera í lófa lagið að koma frá sér skammlausum texta en því er ekki að heilsa. Það væri ofsagt að halda því fram að þar úi allt og grúi af stafsetningarvillum og ambögum en víst er að af nógu slíku er að taka.

Umsjónarmaður les textavarpið reglulega, stundum sér til leiðinda og gremju sökum frágangsins. Hér skal eitt nýlegt dæmi lagt í dóm lesenda, skáletranir eru mínar:

Herinn réðist til atlögu skömmu eftir að uppreisnarklerknum Al-Sadr voru settir úrslitakostir. Bandarískar árásarþyrlur eru sagðar hafa fellt 57 skæruliða í einni árás. Starfsfólk tveggja spítala í nágrenninu segja að þangað hafi komið 23 látnir og 34 særðir Írakar (27.4.2004).

Umsjónarmaður telur óþarft að ræða einstök atriði í ofangreindri klausu en telur að hér hljóti að vera hægt að gera betur.

Það mun vart hafa farið fram hjá nokkrum mann að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar eins og þráfaldlega hefur verið komist að orði. Umsjónarmaður kann ekki við þetta orðalag, það samræmist ekki málkennd hans, og breytir það engu þótt í 23. grein stjórnarskrárinnar segi: ‘Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi’.

Ástæðan er sú að þgf.-andlag með sögninni synja vísar jafnan til manns, t.d. synja e-m um e-ð/leyfi eða synja e-m e-s/aðstoðar. Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna 44 dæmi um sögnina synja og ekkert þeirra rennir stoðum undir þá notkun sem fram kemur í stjórnarskránni.

Í Íslenskri orðabók eru tilgreindar myndirnar synja e-m e-s, synja e-m um e-ð og synja fyrir e-ð og svipaða lýsingu er að finna í orðabók Blöndals, að því viðbættu að þar er einnig gefin myndin synja e-s (benægte ‘neita’).

Allt ber því að sama brunni, það er engin hefð fyrir myndinni synja e-u e-s. Því má loks bæta við að í yfirlýsingu sinni sneiddi Ólafur Ragnar hjá þessu orðalagi en þar sagði hann: ‘Ég hef því ákveðið ... að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum ...’

Úr handraðanum

Flestir munu þekkja orðasambandið klekkja á e-m í merkingunni ‘ná sér niðri á e-m; refsa e-m’, t.d.: fór hann á fund bræðra sinna og hugsaði nú að klekkja á þrjótunum og varaðist aðeins áleitni Jóns og klekkti nokkuð á honum að lokunum.

Í nútímamáli klekkja stjórnmálamenn á andstæðingum sínum, ekki ósvipað því er menn berja á e-m. Upphafleg merking sagnarinnar klekkja virðist einmitt vera ‘berja’, en orðasambandið á trúlega rætur sínar í kaþólskum sið.

Í heimild frá 17. öld þar sem fjallað er um siðvenjur í pápísku segir: Með breiða enda á stólunum (stóla, kvk., ‘langur borði, hluti af messuskrúða presta og djákna’) klekkti prestur í kollinn á þeim sem skriftuðust, einkum á frillulífsfólki. Þeir sem stærri hluti brutu voru hins vegar leystir með þar til gerðum lausnarvendi. Presturinn las ákveðinn sálm og laust þá, sem skriftast höfðu, í höfuðið eitt högg hvern. Er sálmurinn var úti tók hann til aftur og þá fékk sérhver þeirra er skriftast höfðu þrjú högg af lausnarvendinum en djákni taldi með prestinum svo eigi skytist (‘honum yrðu ekki á mistök við talninguna’).

Morgunblaðið, 3. júlí 2004